Staðan í kjarasamningum, undirbúningur þeirra og framvinda í samningaviðræðum

Greinargerð frá formanni

skrifað 25. mar 2019

Undirbúningur kjarasamninga hófst á árinu 2017 þegar trúnaðarráð kaus kjaranefnd til að sinna honum ásamt öðrum kjaramálum svo sem kvörtunum um brot á kjarasamningi sem félaginu berast og vinnustaðaeftirliti. Kjaranefndin hóf hann með því að fara í gegnum fyrirliggjandi gögn frá samningagerð síðustu samninga og fékk skrifstofu félagsins til að safna saman ábendingum og tillögum félaginu hafa borist á síðustu þremur árum. Nefndin óskaði einnig eftir greinagerð frá fagdeild um almenna leiðsögn um áherslumál í samningum og fékk hana í hendur. Vann kjaranefndin úr þessum gögnum og lagði þau til grundvallar drögum að kröfugerð ásamt ýmsum atriðum úr kjarasamingum annarra stéttarfélaga sem fela í sér betri rétt en ákvæði samninga Leiðsagnar. Í september á síðasta ári kaus trúnaðarráð kjaranefnd að nýju sem og viðræðunefnd og setti þeim erindisbréf. Trúnaðarráðið fer skv. lögum félagsins með vald til að gera kjarasamninga og fól það viðræðunefndinni með erindisbréfinu að annast viðræður og undirbúa kjarasamning. Álitamál skyldu rædd í trúnaðarráði og kjarasamnigur samþykktur þar áður en til undirrritunar kæmi. Lokaákvörðun er svo tekin í atkvæðagreiðslu félagsmanna. Viðræðunefndin vann kröfugerð um einstaka liði kjarasamningsins á grundvelli tillagna kjaranefndar með breytingum í ýmsum atriðum og hafði einnig hliðsjón af samningum annarra stéttarfélaga. Gerð var viðræðuáætlun í samvinnu við samninganefnd SA/SAF, sem miðaði við að byrja viðræður á að fjalla um aðra þætti samningsins en launalið hans en hefja þær viðræður síðar þegar annar hvor aðila legði fram tillögur að honum. Haldnir hafa verið tveir formlegir samningafundir. Viðræðunefnd Leiðsagnar lagði til að byrjað yrði á því að ræða ráðningarfyrirkomulag, veikindarétt og orlofsrétt og hafði undirbúið tillögur um þessi efni sem lagðar voru fram og voru þær reifaðar á fundunum. Í framhaldi af fyrstu samningafundunum var fámennari vinnuhópi falið að fara yfir tillögur Leiðsagnar. Eftir fund vinnuhópsins svaraði SA/SAF tillögum Leiðsagnar þar sem sumu var hafnað en annað samþykkt. Ennfremur lagði SA/SAF fram hugmyndir að breytingum á samningsákvæðum um vinnutíma og dagvinnutímabil með það að markmiði að auka sveigjanleika í skipulagningu vinnu. Leiðsögn svaraði því til að hún sé til viðræðna um þessi atriði að settum ákveðnum skilyrðum. Í svari sínu lagði Leiðsögn einnig fram hugmyndir um að punktakerfið yrði lagt niður en í stað þess tekið upp starfsaldurskerfi svipað því sem er í flestum kjarasamningum. Yrði það grunvöllur fyrir ávinnslu veikindaréttar og orlofsréttar og launahækkana vegna reynslu í starfi. Þá var SA/SAF kynnt hugmynd að nýju launaflokkakerfi sem byggt er á skilgreiningu á eðli starfa og starfsundirbúning. Um tillögur Leiðsagnar sem þannig hafa verið lagðar fyrir viðsemjendur er fjallað nánar hér á eftir. Samningaviðræður annarra stéttarfélaga þar sem hliðstæðar breytingar voru ræddar m.a. hafa dregist mjög á langinn og hefur það leitt til hægagangs í viðræðum við Leiðsögn um þessi atriði, önnur almenn atriði samningsins og að sjálfsögðu um launaliðinn þar sem Leiðsögn getur vegna smæðar sinnar ekki haft frumkvæði. Með tilliti til stöðu viðræðna og þeirra kvaða sem á samninganefndum hvíla um trúnað er ekki unnt að opinbera kröfugerðir félagsins og tillögur viðsemjenda eða viðbrögð þeirra eða ræða þær í smáatriðum en hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim að því marki sem unnt og því tilefni og rökum sem að baki liggja.

Ráðningarfyrirkomulag: Tillögur Leiðsagnar miðast við það að ráðning starfsmanna verði að því marki sem unnt er í samræmi við almennar reglur á vinnumarkað í þessum efnum með það að markmiði að leiðsögumenn geti verið með ótímabundna eða tímabundna fastráðningu í fullt starf eða starfshluta í meira mæli en nú er. Ýmis réttindi, svo sem veikindaréttur og orlofsréttur er meiri hjá fastráðnum en ferðaráðnum. Ennfremur var lagt til að kjör ferðaráðinna yrðu færð eins nálægt kjörum fastráðinna eins og unnt er, m.a. að þeir fái viðmiðun í launaflokk og hækkanir skv. starfsaldri eins g þeir og bættan veikindarétt og orlofsrétt. Af hálfu SA/SAF var þessum tillögum ekki tekið illa og almennt viðhorf þeirra var að æskilegt væri að færa samning Leiðsagnar í svipað horf og almennt er á vinnumarkaði þar sem það á við. M.a. kom fram það viðhorf að lausráðningar leiðsögumanna væru nú tíðkaðar í meira mæli en almennar reglur segja til um.

Veikindaréttur og orlofsréttur. Í þessum efnum var lagt upp með samræmingu við það sem almennt er á vinnumarkaði en nokkuð vantar á að félagar í Leiðsögn njóti sambærilegs réttar, einkum þeir sem eru ferðaráðnir en einnig hinir fastráðnu m.a. vegna skorts á upplýsingum um starfsaldur og skilyrðis um samfelldan vinnutíma. Kemur þetta niður á félagsmönnum í veikindum og eykur álag á sjúkrasjóð félagsins. Afstaða SA/SAF er enn óljós einkum hvað varðar ferðaráðna en nokkur bót yrði af því ef fastráðnum fjölgar og eins með upptöku starfsaldurskerfis.

Starfsaldurskerfi. Leiðsögn kynnti viðsemjendum tilögur um nýtt starfsaldurskerfi í stað núverandi punktakerfis. Við undirbúningi kjaranefndar hafði komið fram, m.a. í tillögum fagdeildar að leggja ætti punktakerfið niður enda þjónar það litlum tilgangi, er erfitt í framkvæmd og hefur leitt til þess að starfsaldurshækkanir leiðsögumanna, einkum hinna fagmenntuðu eru minni en dæmi eru um hjá öðrum starfsstéttum. Tillögur Leiðsagnar tóku mið af algengum reglum í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði og gera ráð fyrir hækkunum á nokkurra ára fresti á fyrstu árum í starfi við leiðsögn og að auki hækkun vegna langs starfstíma hjá sama vinnuveitanda. Í tillögunum er gert ráð fyrir að þau stig sem safnast hafa verði umreiknuð til starfsaldurs og nýtist þannig. Ekki voru á þessu stigi gerðar tillögur um bil milli starfsaldurþrepa en gert ráð fyrir að það verði rætt samhliða launaliðum. SA/SAF hefur tekið vel í afnám stigakerfisins en ekki tekið afstöðu til tillagnanna að öðru leyti.

Launaflokkakerfi og skilgreining starfsheita. Viðræðunefndin samdi tillögur um nýja skipan launaflokka og skilgreiningar á starfsheitum og sendi þær viðsemjendum félagsins eftir umræður og samþykki trúnaðarráðs. Starfsheitin og skilgreiningar á þeim í tillögunum eru byggð á Evrópustaðli um hugtakanotkun í starfsemi ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda og ná til þeirra sem koma að leiðsögn ferðamanna frá tour escort (hópstjóri, fylgdarliði), tour manager (fararstjóri) til tourist guide (leiðsögumaður) en þeir sem vinna þessi störf hafa rétt til aðildar að Leiðsögn sbr. lög félagsins frá 2017. Í tillögunum er með skilmerkilegum hætti greint á milli starfa leiðsögumanna og annarra og girt fyrir að þau verði notuð til að greiða laun undir taxta leiðsögumanna. Í tillögum um launaflokkaskipan er auk þess byggt á Evrópustaðli um menntun leiðsögumanna og störfunum raðað í launaflokka eftir því hvort eða að hve miklu leyti starfsmenn uppfylla þær kröfur sem þar eru gerðar svo og einnig tekið tillit til sérmenntunar umfram það. Er í þessu efni að nokkru fylgt núgildandi samningi sem einnig gerir mun á launaflokkum með hliðsjón af menntun þótt sá munur hverfi fljótt vegna áhrifa stigakerfisins en hann mun samkvæmt tillögunum haldast með starfsaldurskerfinu en með tilkomu raunfærnimats gætu menn færst á milli launaflokka. Ástæður fyrir þessum tillögum eru margvíslegar. Tillögur þessar byggjast á og eru í samræmi við vinnu félagsins í menntunarmálum stéttarinnar. Með því að færa þann grundvöll inn í kjarasamninga og fá viðurkenningu viðsemjenda á honum batnar staða félagsins til að fá verndun starfsréttinda viðurkennda með einhverju hætti og gæti opnað fyrir möguleika á samkomulagi við þá og eftir atvikum stjórnvöld um að gera kröfur um faglega leiðsögn t.d. í ferðum um þjóðgarða og aðrar náttúru- og menningarminjar. Samkvæmt lögum Leiðsagnar eiga allir sem starfa við leiðsögn ferðamanna rétt á að vera í félaginu m.a. fararstjórar og hópstjórar. Auk þess er í félaginu fjöldi manna í störfum við leiðsögu ferðamana sem falla illa að hefðbundinni skilgreiningu hugtaksins leiðsögn og krefjast annars konar undirbúning en hún. Má þar nefna störf við fjalla- og jöklaferðir, köfun, flúðasiglingar, hestaferðir, hvalaskoðun og einnig leiðsögu um afmörkuð svæði eða borgir. Allur háttur er á um nafngift þessara starfa í ráðningarsamningum. Ætla má að hlutur þessara starfa í félagaskrá Leiðsagnar skipti tugum prósenta. Það er réttur þessara félaga að Leiðsögn geri kjarasamning fyrir þeirra hönd og gæti réttar þeirra sem annarra félagsmanna og um leið er það hagsmunamál Leiðsagnar og annarra félagsmanna að félagið hafi kjaralega lögsögu yfir þeim. Ásókn í störf félaga í Leiðsögn með félagslegum undirboðum erlendra og innlendra fyrirtækja er vaxandi vandamál sem ógnar starfsöryggi þeirra. Helsta birtingarmynd þessara undirboða er að ferðahópar eru leiddir af einhverjum undir starfsheitum, sem ekki eiga sér stað í neinum samningum og þessum starfsmönnum er annað hvort ekki greitt skv. samningum eða eru skráðir í stéttarfélög sem ekki hafa slík starfsheiti og veita þeim enga þjónustu eða aðstoð. Virðast sumir ferðaþjónustuaðilar leitast með skipulögðu við að fara þessa leið. Með afdráttarlausum ákvæðum kjarasamnings um þessi störf er lögsaga félagsins undirbyggð og réttur þess til afskipta á vettvangi Vinnumálastofnunar og í vinnuataðaeftirliti tryggður en án hans er félagið dæmt til að vera á hliðarlínunni. Með ótvíræðri félagsaðild fólks í öllum störfum við leiðsögu ferðamanna og valdi yfir kjarasamningsbundnum kjörum þeirra er staða félagsins gagnvart samkeppni við fólk á lægri launum úr öðrum stéttarfélögum betri en ella. Félagið getur þá haft ráðandi áhrif á launamun milli mismunandi starfa og starfsmanna með mismunandi starfslegar forsendur. Samningsstaða félagsins er veik ef vinnuveitendur vita að þeir geta sótt starfsmenn í önnur félög eða til útlanda í skjóli lélegra eða engra skilgreininga á störfum og engra ákvæða í kjarasamningum um laun fyrir störfin. Tillögur Leiðsagnar um skilgreiningar á starfsheitum og launaflokkakerfið hafa ekki enn verið ræddar á samnngafundi með SA/SAF eða verið svarað af þeim en fram hafði komið að þeir vildu sjá tilhögun starfsheita sem tæki mið af kröfum til starfa og ábyrgðar. Tillögur Leiðsagnar taka mið af þessum þáttum og verður því vonandi vel tekið.

Vinnutímamál. Af hálfu SA/SAF hafa verið lagðar fram tillögur um breytingar á fyrirkomulagi vinnutíma. Virðast þær vera í samræmi við það sem verið hefur í viðræðum í öðrum kjarasamningum að því er fréttir herma. Leiðsögn hefur ekki tekið endanlega afstöðu til þessara tillagna en mun gera það m.a. með hliðsjón af því sem fram vindur í öðrum samningum.

Mikil óvissa er um framvindu kjarasamninga í heild og viðræður við Leiðsögn munu væntanlega líða fyrir það á næstunni. Óskum um fund hefur ekki verið sinnt um nokkurt skeið væntanlega vegna anna SA við önnur verkefni.