Greiðsla yfirvinnu

skrifað 24. mar 2017
1530_norðurljós___rafn_sig_

Þegar unnir hafa verið 173,33 tímar (vinnuskil) í sama mánuði greiðist öll vinna þar umfram sem yfirvinna. 

Leiðbeiningar vegna kjarasamnings leiðsögumanna
Samstarfsnefnd Félags leiðsögumanna og SAF/SA hittist á tveimur fundum í lok sumars 2016 til að ræða álitamál sem tengjast greiðslum fyrir vinnu umfram 173,3 tíma á mánuði.

Aðilar voru sammála um að í öllum tilfellum ber að greiða yfirvinnulaun fyrir alla vinnu sem er umfram 173,3 tíma á mánuði. Þetta á bæði við um þá sem skila sinni fullu vinnuskyldu á dagvinnutímabili og einnig þá sem skila vinnu sinni á mismunandi tímum og fá að hluta til greidd laun með álagi. Allir tímar umfram 173,3 tíma eru greiddir á yfirvinnutaxta.

Dæmi 1 (dagvinnustarfsmaður)
Starfsmaður er ráðinn til 100% vinnu og skilar sinni vinnu milli 8-17 alla daga. Öll vinna starfsmanns eftir kl. 17 og fyrir kl. 8 er greidd með yfirvinnu. Þegar vinnuskil hans hafa náð 173,3 tímum greiðast allir tímar umfram það með yfirvinnukaupi.

Dæmi 2 (vaktavinnustarfsmaður)
Starfsmaður er ráðinn til 100% vinnu í vaktavinnu. Hann fær dagvinnu á dagvinnutímabili en vaktaálag fyrir vinnu þess utan. Þegar vinnuskil hans hafa náð 173,3 tímum greiðast allir tímar umfram það með yfirvinnukaupi.

Dæmi 3 (tímabundið ráðinn starfsmaður)
Starfsmaður er ráðinn tímabundið til einnar ferðar í 10 daga (10*11 klst. =110 tímar). Í sama mánuði er hann ráðinn aftur af sama vinnuveitanda í aðra 10 daga ferð (110 tímar). Samtals skilar hann því 220 klst. þann mánuð hjá sama vinnuveitanda. Á sama hátt og starfsmenn í fyrri dæmum fær hann greidda yfirvinnu fyrir alla tíma eftir að 173,3 tímum er náð.

Rétt er að benda á að ef að það er viðvarandi einhvern tíma að starfsmenn sem eru tímabundið ráðnir í stakar ferðir skili fullri eða meira en fullri vinnu hjá sama vinnuveitanda þá getur verið eðlilegra að þeir séu ráðnir í starfshlutfall. Það getur engu að síður og eftir atvikum verið tímabundin ráðning t.d. í 3 mánuði.