Formannspistill

skrifað 17. feb 2014
317602_10152135064030403_1754294727_n

Fleiri ferðamenn og færri landverðir, rétt þróun?

Á sama tíma og spár um fjölda ferðamanna á þessu ári gera ráð fyrir að allt að 900 þúsund útlendingar leggi leið sína til Íslands, berast þær fréttir frá Umhverfisstofnun að skera eigi niður fjárveitingar til landvörslu og þar með að draga úr starfsemi landvarða á mörgum viðkvæmum stöðum á landinu. Við leiðsögumenn sperrum að sjálfsögðu eyrun við slíkum tíðindum, því í okkar augum þyrfti frekar að auka landvörslu á hálendinu og á vinsælum ferðamannastöðum heldur en að draga úr þeirri starfsemi. Við hörmum því að ekki sé betur hlúð að þeirri gullgæs sem ferðaþjónustan er. Hlutverk landvarða eru af ýmsum toga eins við höfum kynnst í starfi okkar. Það getur verið töluverður munur á því hvort um er að ræða störf þeirra á láglendi nálægt byggð eða uppi á öræfum. Hjá Umhverfisstofnun starfa um 80 manns, og viðfangsefni starfsmanna eru bæði fjölbreytt og mikilvæg. Undanfarin ár hafa yfirleitt verið ráðnir um 20 starfsmenn yfir sumarið til að sinna starfi landvarða, og þeir eru ráðnir til þriggja eða fjögurra mánaða. Landvarsla er því hlutfallslega mjög lítill hluti af starfsemi stofnunarinnar. Nú stefnir í að aðeins 10 landverðir verði ráðnir til starfa, en það er þó bót í máli að ekki verður fækkað á starfsstöðvum stofnunarinnar, þar sem starfsmenn vinna allt árið. Þessar starfsstöðvar eru á 9 stöðum á landinu og allar í byggð, þannig að það virðist sem starfsemin dragist mest saman á hálendinu, þar sem þyrfti helst að efla hana. Á ýmsum stöðum á hálendinu eða í óbyggðum þar sem landverðir hafa starfað eru skálar á vegum Útivistar, Ferðafélags Íslands eða deilda þess. Í öllum þessum skálum eru skálaverðir, sem ýmist eru launaðir eða í sjálfboðavinnu. Þá eru skógarverðir eða starfsmenn Skógræktar ríkisins eða skógræktarfélaga víða að störfum yfir sumarið. Hálendisvakt Landsbjargar verður sífellt umfangsmeiri á hálendinu yfir sumarið og nýjustu fregnir herma að lögreglan muni hafa meiri viðbúnað á hálendinu sunnan heiða í sumar en áður. Allir þessi hópar, auk glöggra leiðsögumanna eru einskonar landverðir, en það gerir ekki sama gagn og landverðir í fullu starfi. Það blasir því við að þörf er á því að Umhverfisstofnun haldi úti starfsmönnum við landsvörslu yfir sumarið, og þá ekki síst í ljósi „Rauðlistaskýrslunnar“ svokölluðu sem kom út í fyrra og lýsti ástandinu á mörgum vinsælum ferðmannastöðum á landinu. Stofnunin hefur til umráða rösklega einn milljarð króna í almennan rekstur samkvæmt fjárlögum ársins og gróft reiknað má gera ráð fyrir að þeir 10 starfsmenn sem ekki er gert ráð fyrir í sumar kosti um 20 miljónir króna, þannig að það er eins og dropi í hafið miðað við margt annað hjá Umhverfisstofnun. Er þetta þá spurning um áherslu í starfi stofnunarinnar frekar en fjársvelti? Um það skal ekki fullyrt hér. Svo áfram sé haldið á þessum nótum, þá er drjúgur hluti gjaldeyristekna landsmanna nú orðið tilkominn vegna erlendra ferðamanna. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að ferðaþjónustan færði okkur meiri gjaldeyristekjur en sjálfur sjávarútvegurinn. Ferðaþjónustan er því að skila miklum fjármunum í ríkissjóð og ætti Umhverfisstofnun að njóta hluta þess fjár. Því ætti ekkert að koma í veg fyrir ráðningu nokkurra landvarða á ferðamannastöðum í sumar.
Við leiðsögumenn leggjum áherslu á „Landinu virðing - lífinu hlýja„ sem eru einkennisorð Félags leiðsögumanna og góð umgengni um landið á að vera öllum töm vetur, sumar, vor og haust. Og það tryggjum við til dæmis með góðri landvörslu! Örvar Már Kristinsson Formaður Félags leiðsögumanna