Fjölmennur fundur Leiðsagnar í Iðnó

skrifað 05. nóv 2018
IMG_6650 (002)

Leiðsögn – stéttarfélag leiðsögumanna efndi til morgunverðarfundar í Iðnó, föstudaginn 2. nóvember. Yfirskrift fundarins var Menntun og starfsundirbúningur leiðsögumanna á Íslandi, hver er staðan, hvert stefnir? Á fundinum var greinargerð starfshóps um menntun og starfsundirbúning leiðsögumanna kynnt og efni hennar tengt ýmsu því sem er ofarlega á baugi í málefnum leiðsagnar ferðamanna á Íslandi.

Indriði H. Þorláksson, formaður Leiðsagnar setti fundinn og greindi frá tildrögum greinargerðarinnar og efni kynningarfundarins, en síðan tók Tryggvi Jakobsson formaður starfhópsins við og kynnti meginefni greinargerðarinnar, viðmiðunarreglur um menntun leiðsögumanna og helstu niðurstöður.

María Guðmundsdóttir fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sem sæti átti í starfshópnum, fjallaði um hæfnigreiningu á starfi leiðsögumanna, stefnumörkun á formlegu námi í ferðaþjónustugreinum og sveigjanleika í námi og reynslu, eða raunfærnimat. Snorri Valsson, starfsmaður Vakans, gæðakerfis ferðaþjónustunnar hjá Ferðamálastofu, fjallaði um menntun leiðsögumanna og gæði leiðsagnar sem hluta af gæðakröfum ferðaþjónustunnar. Snorri átti einnig sæti í starfshópnum.

Þá var komið að Einar Torfa Finnssyni, hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum að ræða um umhverfismál og verndun náttúru- og menningarminja af sjónarhóli leiðsögumanna og Jakobi S. Jónssyni, leiðsögumanni sem fjallaði um öryggismál og starfskjör leiðsögumanna í víðu samhengi. Loks ræddi Sólveig Nikulásdóttir frá Iceland Travel um starfsemi erlendra ferðaþjónustufyrirtækja og hópstjóra á Íslandi frá bæjardyrum ferðaskipuleggjenda. Í lokin voru svo fyrirspurnir og almennar umræður. Fundarstjóri var Herdís Hallvarðsdóttir útgefandi og leiðsögumaður.

Fundinn sóttu ríflega 80 manns og þótti hann takast með ágætum.