Fjölmennur félagsfundur

skrifað 21. nóv 2013
Fundur 20

    Félagið hélt fund á Kaffi Reykjavík miðvikudagskvöldið 20. nóvember þar sem fjallað var um væntanlega kjarasamninga og síðan kom Ómar Smári Ármannsson, fornleifafræðingur og aðstoðaryfirlögregluþjónn, og fræddi fundargesti um Reykjanesskagann.

     Í upphafi fundar sagði Örvar Már Kristinsson, formaður félagsins, frá niðurstöðum „þjóðfundar“ Félags leiðsögumanna sem haldinn var fyrir nokkru. Þar gátu félagsmenn lagt fram hugmyndir sínar varðandi kjaramál og starfsemi félagsins almennt. Kjaranefnd vann síðan úr þessum niðurstöðum Capacent þegar hún samdi kröfur félagsins í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir. Þar kom mjög greinilega fram hverjir eru áherslupunktar félagsmanna varðandi framangreind atriði.

    Síðan tók Berglind Steinsdóttir, formaður kjaranefndar, við og sagði frá kröfum félagsins í samningunum. Margir félagsmenn létu í ljós skoðun sína bæði um niðurstöður „þjóðfundarins“ og kröfugerðina.

    Á síðari hluta fundarins leiddi Ómar Smári fundarmenn svo um Reykjanesskagann með myndum, uppdráttum og frásögnum af einstökum stöðum á svæðinu. Var gerður góður rómur að innleggi hans og opnaði það mörgum sýn á það hve margt Reykjanes - við þröskuld höfuðborgarinnar og nágrannabyggða - hefur að geyma.

Ljósm. og texti: Kári