Ferðin með Hjálmari Sveinssyni

skrifað 11. feb 2015
Hjálmar Sveinsson

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, slóst í för með mér um miðborgina þriðjudaginn 10. febrúar í framhaldi af grein sem birtist í Fréttablaðinu í byrjun febrúar. Tilgangur ferðarinnar var að sýna Hjálmari hvernig fyrirtæki í ferðaþjónustu sækja farþega á leið í flug og dagsferðir og skila þeim aftur og útskýra auðvitað í leiðinni hvernig þessi þjónusta virkar, hvar þarf að stoppa og hvar er stoppað. Megintilgangur ferðarinnar var auðvitað að opna augu borgarfulltrúans fyrir því hversu gríðarlegt skipulagsleysi ríkir í umferðarmálum í borginni, sérstaklega fyrir utan gististaði, bæði gamla og nýja, stóra jafnt sem litla, þar sem oftast er ekki nokkur leið fyrir ferðaþjónustufyrirtækin að stoppa til að taka upp farþega eða skila þeim af sér án þess að fara upp á gangstéttir eða stoppa á miðri götu og valda þannig umferðarstíflu við mismikla hrifningu annarra bílstjóra og jafnvel núningi við íbúa miðborgarinnar sem hafa takmarkaðan skilning á því að ferðaþjónustubílar stoppi á miðri götu eða uppi á stéttum.

Farið víða
Farið var að Reykjavík Lights hóteli við Suðurlandsbraut og framhjá Hótel Íslandi í Ármúlanum, upp og niður Hverfisgötu þar sem allar stoppi- og sleppistöðvar vantar og engin útskot eru við gististaði, niður Laugaveginn þar sem heldur ekki er auðvelt að stoppa. Hjálmar fékk að sjá hvernig vöruflutningabílar, bílaleigubílar og ferðaþjónustubílar stoppa á aðreininni á horni Laugavegs og Klapparstígs, að eini möguleikinn til að stoppa við Rey Apartments á Grettisgötu er með því að fara upp á gangstéttina fyrir framan hótelið. Við keyrðum líka framhjá Hótel Óðinsvéum, tókum upp farþega við gistiheimilið Sunnu, stoppuðum við Aðalstrætið og svo mætti lengi telja.

Óhjákvæmilegur núningur
Í ferðinni kom einnig fram að það skapast óhjákvæmilega núningur við þessar aðstæður. Aðeins örfá ferðaþjónustustæði eru í miðborginni og þau eru oft notuð fyrir vöruflutninga og bílaleigubílar standa þar gjarnan þegar að er komið. Ef vel ætti að vera þyrftu stæði að vera fyrir utan alla gististaði og stæði fyrir fleiri en eina rútu við stóra gististaði. Hverfisgatan þyrfti að hafa minnst tvo, jafnvel þrjá staði þar sem stærri bílar geta stoppað og hleypt út fólki og sömuleiðis þyrfti að endurskipuleggja umferðina um Þingholtin með tilliti til þjónustu við erlenda ferðamenn og íslenska reyndar líka ef því er að skipta. Auðvitað þyrfti líka að skoða svæðið í kringum Hlemm þar sem þrjú risastór hótel munu opna á næstunni, tvö þeirra með ekkert bíla- eða rútustæði. Það bætist við þá flóru sem þar er fyrir og er vandinn nægur nú þegar. Borgaryfirvöld vilja að ferðamenn gangi meira um miðborgina og það er auðvitað gott, sérstaklega á sumrin, en það leysir ekki vandann. Íbúar miðborgarinnar þurfa þá að sætta sig við að hlusta á ferðatöskurnar dregnar eftir gangstéttum á öllum tímum sólarhringsins. Og ekki er víst að bílaumferðin minnki nokkuð því að ferðamennirnir kaupa sér þá bara far með leigubílum. Þá er það auðvitað hlýleg og persónuleg þjónusta að sækja fólk svona heim á gististað, fylgja því eftir alla dagsferðina og skila því svo aftur heim á hótel að ferðinni lokinni.

Sátt er lykilorðið
Þjónusta ferðaþjónustufyrirtækjanna er fyrir hendi, vaxandi eftirspurn er eftir þessari þjónustu og hún er atvinnuskapandi. En ferðaþjónustan og borgarbúar þurfa að lifa og starfa í sátt og samlyndi. Það má ekki ganga um of á þolinmæði íbúa miðborgarinnar. Þess vegna þurfa skipulagsyfirvöld að átta sig á þeirri þjónustu sem fyrirtækin í borginni veita og hverjar þarfir fyrirtækjanna eru. Það þarf að skoða skipulagið og umferðina og það þarf að skylda gististaði að hafa stæði eða sjá til þess að þeir fái ekki byggingar- og starfsleyfi án þess að aðstaða ferðaþjónustufyrirtækja til að sækja hópa verði sómasamleg. Rökin að ekki sé hægt að þvinga hótel til að hafa bíla- eða rútustæði eru bara ekki gild og borgin getur hæglega breytt reglunum þannig að aðgengi verði viðunandi.

Sátt er auðvitað lykilorðið í þessu öllu saman og Hjálmar tók undir það. Nauðsynlegt er að farið verði í samráð við ökuleiðsögumenn, bílstjóra og stjórnendur í ferðaþjónustunni ásamt borgarbúum til að finna lausn á þessu máli. Það var ánægjulegt að fara með Hjálmari um borgina, sýna honum aðstöðuna og starfsemina og ræða málefni borgarinnar. Við viljum öll hag höfuðborgarinnar sem mestan þannig að það er engin ástæða til að ætla annað en að borgaryfirvöld skoði þessi mál. Ferðaþjónustan er jú stærsta atvinnugrein þjóðarinnar.
Guðrún Helga Sigurðardóttir