Ferðamálaþing, ræða formanns FL

skrifað 22. okt 2013
Fulltrúar á ferðamálaþingi

   Ferðamálaþing var haldið á Selfossi 2. október 2013 og var yfirskrift þingsins  Ísland - alveg milljón - skipulag, fyrirhyggja og framtíðarsýn í íslenskri ferðaþjónustu. Þingið var samstarfsverkefni Ferðamálstofu og Skipulagsstofnunar. Á þriðja hundrað manns sótti þingið úr þessum tveimur starfsgeirum og þar á meðal voru nokkrir leiðsögumenn.

  Örvar Már Kristinsson, formaður Félags leiðsögumanna, var meðal frummælenda á þinginu og var yfirskrift ræðu hans einkunnarorð félagsins, Landinu virðing – lífinu hlýja.

   Örvar Már minnti í upphafi máls síns á að leiðsögumenn eru sú stétt sem sem er í nánastri snertingu við þá erlendu ferðamenn sem koma hingað til lands og því skiptir miklu að leiðsögumaðurinn sé góður fulltrúi landsins, hvort sem um er að ræða ferð sem aðeins stendur brot úr degi eða margra daga ferð um byggðir og óbyggðir Íslands. Leiðsögumenn upplifa ýmis viðbrögð ferðamanna í störfum sínum og þeir eru yfirleitt mjög hrifnir af landinu, menningunni og fólkinu. Að sögn Örvars Más orðaði einn ferðamaður frá  Miami það svo í rigningarsudda: „Ég ber virðingu fyrir þeim sem búa á þessum  fáránlega stað“ og sagðist hann túlka það sem svo að  það hafi veri upplifun hennar af rigningarsuddanum. „En þarna komum við að kjarna málsins,“ sagði Örvar Már, „við lifum í landi sem er mjög sérstakt og býður tíðum upp á fjölbreyttar og miklar  andstæður þar sem veðurlag  skiptir ótt og títt og við þurfum við ekki annað en að hugsa til baka nokkra daga því að allir hér inni muna eftir storminum í nýliðnum september þegar fjöldi ferðamanna lenti í sandstormi og tjón varð á bílaleigubílum hjá skelfdum ferðalöngum. Það gleymdist hins vegar að tala um alla þá Íslendinga sem einnig keyrðu í gegn og tjónuðu sína bíla. Við erum nefnilega fyrirmyndir!”

  Þá minnti Örvar Már á að við Íslendingar þurfum að vera miklar og góðar fyrirmyndir, að við tökum til dæmis ekki þátt í utanvegaakstri heldur fordæmum hann. Við þurfum líka að sýna náttúrunni virðingu og ganga vel um hana, varðveita mosann okkar fallega og ganga ekki um fallegar mosabreiður sem geta verið mjög viðkvæmar. 

  Auglýsingamyndbönd þar sem spólað er og spýtt um fjörur eða eyðisanda eru varasöm, sagði Örvar, og við vitum að sum þessara myndbanda eru tekin á Sólheimasandi þar sem öldurnar má burt verksummerkin. Það vita ferðamennirnir hins vegar ekki sem sjá fyrir sér að hér megi aka hvar sem er utan vega eins og dæmin sanna á söndunum á Suðurlandi sem allir eru nú markaðir af hringspóli ferðamanna á bílaleigubílum!

  Hann minnti líka á skyldur Vegagerðarinnar við að halda við  malarvegum á vinsælum ferðamannastöðum, bæði vetur, sumar, vor og haust. Lenging ferðamannatímabilsins kallar á aukna þjónustu á vegum landsins, bæði í byggð og óbyggðum.

   Þessi lenging kallar enn fremur á aukna þjónustu á fleiri sviðum, veitingastaðir og söfn verða að laga sig að því, að ekki sé nú talað um að salernum sé haldið opnum yfir allan veturinn nú á tímum. „Leiðsögumaður sem ætlar á Snæfellsnes á þessum árstíma með stóran hóp þarf að huga að þessu þegar lagt er úr bænum. Þá er kannski stoppað við Hyrnuna í Borgarnesi, en næsta klósettstopp er stundum ekki fyrr en á Hellissandi, því að það er oft allt lokað þar á milli. Þetta er auðvitað ófært,“ sagði Örvar Már.