Félagsaðild

Til leiðsögumanna

skrifað 06. feb 2019

Um félagsaðild leiðsögumanna og sniðgöngu kjarasamninga

Í viðræðum félagsins við samninganefnd SAF/SA kom til umfjöllunar vanræksla margra vinnuveitenda á að skrá leiðsögumenn í Leiðsögn og skila félagsgjöldum þangað eins og lög bjóða og bundið er í samningum. Ekki er ágreiningur um það að vinnuveitendum beri að greiða leiðsögumönnum samkvæmt samningum félagsins en þrátt fyrir það hafa vinnuveitendur með stuðningi SA að engu ákvæði kjarasamnings um skil á félagsgjöldum. Bera þeir því við að þeir skili ekki félagsgjöldum til Leiðsagnar nema þess sé óskað af starfsmanni.

Með þetta að yfirvarpi, sem Leiðsögn telur brot á samningum og lögum, iðka margir vinnuveitendur það að skrá leiðsögumenn í önnur stéttarfélög, Eflingu, VR o.fl., sem ekki fara með samningsumboð fyrir leiðsögustörf. Þegar á bjátar og menn þessir leita réttar sín vegna meintra brota á kjarasamningum vísa þessi félög leiðsögumönnunum eðlilega frá sér og kemur þá til kasta Leiðsagnar að veita þeim aðstoð.

Leiðsögn lítur svo á að með þessu framferði séu viðkomandi vinnuveitendur að brjóta gegn samningum og lögum í þeim tilgangi að hindra starfsmenn í að gæta réttar síns og koma í veg fyrir að þeir leiti til stéttarfélags sem veitt geti þeim aðstoð. Auk þess að skaða starfsmenn sína valda þeir félaginu tjóni og draga úr fjárhagslegu bolmagn þess til að veita leiðsögumönnum aðstoð við að ná rétti sínum.

Í málum, sem borist hafa Leiðsögn þrátt fyrir þessar hindranir, kemur hvergi fram að viðkomandi leiðsögumenn hafa óskað eftir aðild að öðrum stéttarfélögum eða að þeir hafi verið upplýstir um hvaða stéttarfélag færi með samninga leiðsögumanna heldur eru þeir skráðir í önnur stéttarfélög að þeim forspurðum. Afskipti vinnuveitenda af stéttarfélagsmálum starfsmanna er lögbrot.

Af þeim málum sem Leiðsögn hefur borist má draga þá ályktun að fjárhagslegur ávinningur og græðgi búi að baki ákvörðunum vinnuveitenda um að setja starfsmenn skipulega í stéttarfélög sem ekki er í stöðu til að gæta hagsmuna hans. Starfsmönnum þessum er oft greidd laun undir taxta, oft með svokölluðum jafnaðarlaunum, og ekki eru virtar reglur um vinnutíma o.fl. Aðbúnaður starfsmannanna er oft lélegur. Þá eru dæmi þess að leiðsögumenn segja frá því að þeim hafi verið hótað uppsögn ef þeir ganga í félagið og vilja því oft ekki leggja fram gögn vegna ótta um að slíkt verði gert. Auk þess að vera brot á kjarasamningum leikur vafi á um hvort þessar ráðstafanir samræmist lögum um vinnumarkað og skattalögum.

Leiðsögn beinir því til félaga sinna að hafa vakandi auga fyrir þessu, vekja athygli leiðsögumanna, samstarfsmanna sinna sem annarra, á skyldu þeirra til að vera í félaginu og greiða félagsgjöld þangað og benda þeim á réttindi sem því fylgir m.a. þau að fá aðstoð félagsins ef á þarf að halda ef til ágreining við vinnuveitanda kemur. Ennfremur, verði þeir varir við að vinnuveitendur þeirra virða ekki kjarasamninga gagnvart öðrum leiðsögumönnum að þessu leyti, sem einnig kann að stafa af vankunnáttu eða röngum upplýsingum, veki þeir athygli þeirra á þessari skyldu þeirra. Með því leggja þeir lið baráttu gegn mansali, launasvikum og vinnuníðslu.

Starfandi leiðsögumönnum sem ekki eru þegar í Leiðsögn og greiða félaginu ekki félagsgjöld, sem stafa kann af skorti á réttum upplýsingum eða aðgátarleysi vinnuveitanda, er sérstaklega bent á að kanna sín mál og beina því til vinnuveitandans að gera leiðréttingu þar á og hefja skil á félagsgjöldum og iðgjöldum til Leiðsagnar þegar í stað. Með því sýna þeir þann félagsþroska og efla þá samstöðu meðal leiðsögumanna sem þarf til að félagið nái árangri í störfum.

Indriði H. Þorláksson formaður