Fagmennska ferðaþjónustunnar

skrifað 20. ágú 2015
Bryndís Kristjánsdóttir

Því betri innri uppbygging ferðaþjónustunnar á Íslandi því meiri gæði. Í sumar hafa væntanlega komið fleiri ferðamenn til landsins en nokkru sinni fyrr og að sama skapi hefur umræðan um hvers konar þætti ferðaþjónustunnar sjaldan verið meiri. Oftar en ekki hefur umræðan snúist um það sem miður hefur farið – bæði hjá ferðamönnunum sjálfum og innri uppbyggingu í ferðaþjónustunni.

40 ára fagmennska Leiðsögumenn hafa starfað sem stétt innan ferðaþjónustunnar í rúm 40 ár en Félag leiðsögumanna var stofnað árið 1972, að frumkvæði leiðsögumanna sem unnið höfðu við starfið um árabil. Starfið og stéttin hefur gengið í gegnum súrt og sætt en þó jafnt og þétt verið að vaxa og eflast. Nám leiðsögumanna hefur sömuleiðis þróast í áranna rás, í samræmi við kröfur ferðaþjónustunnar, og er í stöðugri þróun. Nú er svo komið að þrír skólar bjóða leiðsögunám þar sem kennt er samkvæmt námskrá menntamálaráðuneytisins: Leiðsöguskóli Íslands sem staðsettur er í MK, Endurmenntun HÍ og Endurmenntun HA, og í vor hafa væntanlega útskrifast rúmlega 100 nýir leiðsögumenn. Að loknu námi í þessum skólum geta nemendur gengið í Félag leiðsögumanna en við aðild að fagfélaginu öðlast þeir rétt til að bera merki félagsins, sem sýnir að þar er um fagmenntaðan leiðsögumann að ræða en eingöngu slíkir fá að bera merkið. Allir sem starfa innan ferðaþjónustunnar geta síðan gengið í stéttarfélag félagsins, sem fer með samningsrétt fyrir hönd félagsmanna og semur um laun sem að lágmarki skal greiða fyrir störfin.

Eingöngu fagmenntaða Allir ferðaþjónustuaðilar sem vilja tryggja sem best gæði í ferðum sem þeir bjóða eru með fagmenntaða leiðsögumenn í ferðum sínum, enda kveða kjarasamningar leiðsögumanna á um að það sé gert. Í áranna rás hefur sú saga komist á kreik að ekki sé til nægur fjöldi leiðsögumanna til að anna leiðsögn í landinu. Því er til að svara að á skrá félagsins eru rúmlega 900 leiðsögumenn – en mun fleiri fagmenntaðir leiðsögumenn hafa þurft að snúa sér að öðrum störfum því aðrir hafa verið ráðnir í þeirra stað. Rútubílstjórar eru hafsjór þekkingar á því hvaða vitleysur og undarlegu uppákomur eiga sér stað þegar „hver sem er” leiðsegir í ferð um Ísland. Stundum eru það útlendingar sem hafa aldrei komið til Íslands áður eða Íslendingar sem eru tilækir þá stundina og geta talað viðkomandi tungumál!

Fagmenntaðir leiðsögumenn leiðsegja þannig að ferðamenn fá sem réttasta mynd af landi og þjóð. Þeir hafa lært það helsta sem snýr að öryggismálum og slysavörnum, og þeir sem fara með ferðamenn í óbyggðir læra enn meira, þeir þekkja innviði landsins og fylgjast með fréttum. Allt þetta, og meira, tryggir betur en ella að koma megi í veg fyrir að erlendir ferðamenn fari sér að voða – eða skaði landið. Það sjá því allir að það er ekkert nema ávinningur af því að engir nema leiðsögumenn fagmenntaðir á Íslandi leiðsegi í hópferðum um Ísland – og síðan má nýta sér fagþekkingu þeirra á ýmsan máta til að leiðbeina ferðamönnum sem kjósa að ferðast á eigin vegum.

Höfundur Bryndís Kristjánsdóttir.