Fagdeildir innan Leiðsagnar

skrifað 28. jún 2017

Í lögum Leiðsagnar - félags leiðsögumanna er kveðið á um að innan félagsins starfi fagdeildir fyrir einstaka hópa innan þess eftir starfssviðum, menntun o.fl. sem vinni að áhugamálum og hagsmunamálum viðkomandi hóps. Lögin gera ráð fyrir að stjórn félagsins setji almennar reglur um fagdeildirnar, skilyrði fyrir stofnun þeirra og tengsl og samskipti þeirra við félagið o.fl. Innan þessa ramma ákveða fagdeildirnar sjálfar hvernig þær haga innra starfi sínu en þær hafa einnig bein áhrif á starf félagsins með tilnefningu fulltrúa í trúnaðarráð þess sem fer með samninga- og kjaramál fyrir þess hönd en er einnig stjórn félagsins til ráðgjafar í málefnum félagsins.

Stjórn Leiðsagnar hefur að undanförnu unnið að reglum um fagdeildir sem setja munu almennan ramma um starfsemi þeirra, tengsl þeirra við félagið, fjármál o.fl. Drög að þessum reglum hafa verið birt á heimasíðunni og eru opin til umsagnar.

Á aðalfundi Leiðsagnar var einnig samþykkt ályktun þess efnis að stofnuð skuli fagdeild fyrir með aðild allra þeirra sem áður höfðu fagfélagsaðild að Félagi leiðsögumanna. Stjórn Leiðsagnar hefur í samræmi við ályktunina staðfest stofnun þessarar fagdeildar. Stjórn Leiðsagnar mun innan tíðar boða til fundar í þessari fagdeild með það fyrir augum að hún kjósi sér stjórn og undirbúi starfsemi sína með því að setja sér starfsreglur o.fl. og tilnefni fulltrúa í trúnaðarráð Leiðsagnar.

Í ályktun aðalfundarins var gert ráð fyrir að fleiri fagdeildir yrðu stofnaðar og segir svo í henni:

Félagsfundur ákveður stofnun fagdeildir innan félagsins fyrir félagsmenn óski tilskilinn fjöldi félagsmanna eftir stofnun slíkrar deildar. Fagdeildir má stofna um ýmis sérsvið eða menntun í leiðsögn, réttindi svo sem a) almenna ferðaleiðsögn etv. fleiri en ein deild eftir menntun eða sérsviðum, b) gönguleiðsögn, c) fjalla- og jöklaleiðsögn, d) svæðis- og borgaleiðsögn, e) ökuleiðsögn, f) sjó- og vatnaleiðsögn, g) sérfræðileg leiðsögn, h) einyrkja, i) fararstjórn og hópstjórn eða annað það sem snertir starf að leiðsögn ferðamanna. Skal þess getið í fundarboði að tillaga um stofnun slíkrar deildar liggi fyrir og stjórn félagsins mæli með slíkri deildarstofnun.

Verði stofnun fagdeildar ákveðin á félagsfundi, skal stjórn félagsins samþykkja starfsemi hennar og starfsreglur.
Stofnfélagar fagdeildar skulu aldrei vera færi en 10. Fagdeildir setja sér inntökuskilyrði í samræmi við sérsvið sitt og setja deildinni starfsreglur. Þeir sem óska eftir aðild að fagdeild skulu senda fagdeildinni skriflega umsókn þar um. Umsókn skal fylgja staðfesting á prófi frá skóla um menntun í ferðaleiðsögn eða öðrum sviðum og/eða staðfesting stofnunar á réttindum eða öðru því sem umsóknin miðast við.

Formaður fagdeildar eða annar sem tilnefndur er af henni situr í trúnaðarráði félagsins sem fer með í umboði félagsins til að gera kjarasamninga.

Fagdeildirnar skulu vera samstarfsvettvangur fyrir þá sem í þeim eru og gæta sérhagsmuna þeirra. Fagdeildarfélagar kjósa sér þriggja manna stjórn sem skipuleggur starfsemi deildarinnar og kemur fram fyrir hennar hönd gagnvart stjórn félagsins.
Fagdeild hefur aðstöðu í húsnæði félagsins og nýtur þjónustu skrifstofu félagsins.

Stjórn félagsins beinir því þeirra sem áhuga hafa á stofnun fagdeilda fyrir afmarkaða hópa að hafa samband við félagið. Mun hún taka afstöðu til slíkra beiðna og aðstoða við undirbúning þeirra eftir föngum. Stefnt er að því að efna til félagsfundar um stofnun og starfsemi fagdeild í haust og er mikilsvert að óskir eða hugmyndir umfagdeildir komi fram með nokkrum fyrirvara.