Eru laun leiðsögumanna of há?

skrifað 10. sep 2018

Í frétt í Morgunblaðinu 8. sept. 2018 er greint frá erfiðleikum í rekstri fyrirtækis í ferðaþjónustu og má skilja það á talsmanni þess að aðalorsökin sé há laun íslenskra leiðsögumanna. Er látið að því liggja að lausnin kunni að vera sú að ráða evrópska leiðsögumenn í stað íslenskra. Fullyrt er að þá megi fá fyrir helming eða þriðjung af launum íslenskra leiðsögumanna. Ekki er vitnað í heimildir fyrir þessum staðhæfingum umfram það að laun samkvæmt vísistölu hafi hækkað um 70% síðan 2011.

Það er áhyggjuefni ef rekstur íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja gengur ekki vel og skiljanlegt að reksturinn sé þá endurskoðaður. Er þá mikilvægt að ástæður lélegrar afkomu séu rétt greindar og vandað sé til þeirra ráðstafana sem gerðar verða til úrbóta.

Í því sambandi skal bent á eftirfarandi. Hækkun launa almennt í landinu frá 2011 til 2017 skv. launavísitölu Hagstofunnar var um 62%. Hækkun launa leiðsögumanna var ekki umfram almennar hækkanir enda eru föst mánaðarlaun fastráðinna leiðsögumanna nú á bilinu 303.926 kr. upp í 337.255 kr. á mánuði eftir menntun og starfsreynslu, 1 - 10% hærri en lágmarkslaun í landinu.

Sú staðhæfing að laun evrópskra leiðsögumanna séu helmingur eða minni hluti launa íslenskra kollega þeirra er einfaldlega röng. Til þess að hún fengi staðist yrðu laun leiðsögumanna í Evrópu að vera lægri en þau lágmarkslaun sem lögbundin eru í mörgum Evrópulöndum (Þýskaland, England, Írland, Holland, Luxemborg, Frakkland, Belgía) að ekki sé talað um lönd eins og Norðurlöndin þar sem ekki er löglegt að greiða laun undir umsömdum launatöxtum stéttarfélaga.

Vonandi á ekki að skilja orð talsmanns félagsins á þann veg að það hyggist ástunda félagsleg undirboð, sem því miður hefur borið á hér á landi, þegar fyrirtæki ráða erlenda starfsmenn, greiða þeim laun undir samningsbundnum launum og virða ekki heldur ákvæði kjarasamninga um vinnutíma, aðbúnað o.fl. Slíkt er brot á kjarasamningi og lögum, sem ekki verður liðið auk þess sem það er ótrúlegt metnaðarleysi að ætla að bjóða gestum sem hingað koma upp á leiðsögn einhverra, sem enga þekkingu hafa á landi og þjóð.

Laun íslenskra leiðsögumanna eru ekki há og eru ekki skýringa á slakri afkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu. Fyrirtæki, sem ekki geta greitt starfsmönnum sínum lögbundin lágmarkslaun, eiga tæpast rétt á sér. Í stað þess að skipa sér í flokk með þeim innlendu og erlendu aðilum sem brengla samkeppni og brjóta á launþegum með félagslegum undirboðum ættu fyrirtæki í ferðaþjónustu að taka höndum saman við stéttarfélög sem krefjast úrbóta í þessum efnum og vinna með þeim að bættum reglum og virku eftirliti.