Eftirlíking af merki FL?

skrifað 26. jan 2016
iceland_travel_guide

Félagi leiðsögumanna barst ábending um að sést hefði fólk, sem var að vinna við leiðsögn, sem bæri merki sem væri nauðalíkt fagfélagsmerkinu okkar. Stjórn FL kannaði málið og sá að ekki var um að villast; umrætt merki er sláandi líkt merki FL. félagsmerkið okkar er skráð hjá Einkaleyfastofu og því ákvað stjórnin að leita álits stofunnar á málinu. Einkaleyfastofa ráðlagði okkur að leita aðstoðar hjá lögfræðingi og í því ferli er merkjamálið nú.

Fagfélagsfólk ber merkið
Eins og fram kemur í lögum FL geta allir sem starfa við leiðsögn á Íslandi gerst félagsmenn í Félagi leiðsögumanna, annað hvort í fagfélagsdeildinni eða stéttarfélagsdeildinni (og margir eru í báðum), með þeim réttindum sem því fylgir að vera félagsmaður. Það eru þó eingöngu þeir sem lokið hafa námi frá skóla þar sem kennt er samkvæmt gildandi námskrá menntamálaráðuneytisins sem fá inngöngu í fagfélagið og þar með rétt til að bera merki félagsins.

Allir sem vinna við leiðsögn geta verið í FL
Það er vissulega gott að það sé eftirsóknarvert að mega bera merkið – og stjórn FL veit að ýmsir eru ósáttir við að allir félagsmenn fái það ekki. En því er til að svara að félagið byggir á grunni félagsmanna sem voru stofnfélagar og síðan þeim sem lokið höfðu námi frá Leiðsöguskóla Íslands (skólanum í Kópavogi). Það var langt í frá sátt um það á sínum tíma þegar félagið var opnað fyrir öllum sem starfa við leiðsögn – burtséð frá því hvort þeir höfðu menntað sig í faginu eða ekki - og því var fundin sú lausn að skipta félaginu í tvær deildir. Eins og fram kemur í lögunum þá hafa félagsmenn í báðum deildum sömu réttindi – nema hvað þeir sem aðeins eru í stéttarfélaginu hafa ekki rétt til að fjalla um menntunarmál félagsins og fá ekki að bera merki félagsins.

Fleiri fái aðgang að fagfélaginu?
Stjórn félagsins er fullkunnugt um að margir, sem ekki uppfylla núverandi skilyrði fyrir inngöngu í fagfélagið, vilja fá þar aðgang. En þeir sem hafa lagt á sig að mennta sig í faginu vilja ekki að menntun þeirra sé gjaldfelld með því að allir geti gengið í fagfélagið. Og þannig standa málin. Þó má geta þess að verið er að skoða hvort hægt sé að vera með einhvers konar stöðumat, þar sem að þeir sem unnið hafa sem leiðsögumenn í ákveðinn lágmarks árafjölda, gætu undirgengist stöðumatspróf og miðað við útkomu þess teldust hafa það sem til þarf til að verða fagfélagsmenn. En þetta er ennþá á frumstigi og í skoðun.

Bryndís Kristjánsdóttir