Ásta Sigurðardóttir er látin

skrifað 07. sep 2013
Candle-300x234

Einn af stofnfélögum Félags leiðsögumanna, Ásta Sigurðardóttir, er fallin frá. Ásta hóf störf sem leiðsögumaður eftir nám á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins árið 1969 og starfaði sem slíkur þar til ekki alls fyrir löngu. Í viðtali í 40 ára afmælisblaði félagsins árið 2012, sagði Ásta að námið hafi verið mjög skemmtilegt og að eftir að hún hafi verið búin að fara í fyrstu tvær dagsferðirnar sem leiðsögumaður hafi ekki verið aftur snúið.

Frá stofnun Félags leiðsögumanna hefur Ásta verið afar virkur félagsmaður og lagt fram mikla og ómælda vinnu í þágu félagsins. Hún hefur alltaf látið sig hag þess varða, eins og kom glögglega í ljós í umræddu viðtali. Þar segir hún að félagið okkar hafi alltaf haft þau tvö hlutverk að efla fagkunnáttu og hæfni félagsmanna og að starfa sem stéttarfélag með samningsrétt. Samkvæmt hennar reynslu hafi alltaf verið erfitt að reka stéttarfélagið vegna smæðarinnar og að erfitt hafi verið að fá fólk í endalaus ólaunuð stjórnunarstörf – en þar lá hún sjálf svo sannarlega ekki á liði sínu.
Hún hafði alltaf skoðanir á því hvað bæta mætti í starfi félagsins og nefndi þar t.d. að auka þyrfti frétta- og upplýsingamiðlunina, sem ætti að vera auðvelt núna með nútíma samskiptum. Einnig hvað bæta mætti í starfinu og nefndi þar helst meiri samvinnu milli félagsmanna og ferðaskrifstofa við undirbúning ferða; þannig yrði starfið auðveldara fyrir alla og ánægja ferðamannannanna meiri. 

 

Ásta var ein af þessum leiðsögumönnum sem allir þekktu, enda fáir með jafn langa reynslu að baki. Það er mikill missir að þessum mæta félagsmanni og Ásta á miklar þakkir skildar fyrir sín góðu og óeigingjörnu störf í þágu Félags leiðsögumanna. Aðstandendum Ástu eru sendar innilegar samúðarkveðjur.