Áramótaspjall stjórnar

skrifað 18. jan 2018

Stjórn Leiðsagnar - félags leiðsögumanna, þakkar félagsmönnum samstarfið og sendir þeim óskir um velgengni á komandi ári. Fyrsta almanaksár eftir miklar breytingar á lögum félagsins og breytingar á starfsemi þess í samræmi við þau er á enda. Af því tilefni vill stjórnin gera félagsmönnum í stuttu máli grein fyrir nokkrum atriðum úr starfsemi félagsins á liðnu ári en ítarlegri umfjöllun um þau verður á aðalfundi félagsins síðar á árinu.

Á árinu flutti félagið í ný húsakynni að Stórhöfða 25 þar sem það hefur skrifstofur fyrir starfsmenn og fundarherbergi auk aðgangs að stærri fundarsal fyrir fjölsótta viðburði. Stjórn félagsins skipa Indriði H. Þorláksson formaður, Júlía Hannam, Kári Jónasson, Pétur Gauti Valgeirsson, Sigríður Guðmundsdóttir, Vilborg Anna Björnsdóttir og Þorsteinn McKinstry. Starfsmenn félagsins eru Donna Kristjana Peters og Ingibjörg Ósk Birgisdóttir. Fyrsti viðburður á vegum félagsins í nýjum húsakynnum var að afhenda Jóni R Hjálmarssyni heiðursfélaga skjal og þakka honum mikil og farsæl störf í þágu ferðamennsku og leiðsagnar.

Aðalfundur félagsins á vormánuðum samþykkti stofnun fagdeildar fyrir þá félaga sem áður voru í Fagfélagi leiðsögumanna. Stjórn Leiðsagnar samdi drög að reglum um starfsemi fagdeilda sem birtar voru á heimasíðunni. Á haustmánuðum leitaði stjórnin eftir fólki til að leiða vinnu við mótun framangreindrar fagdeildar og þau sem gáfu sig fram voru skipuð í starfshóp undir stjórn Mörtu B. Helgadóttur sem vinnur nú að þessu máli og munu tillögur starfshópsins vel á veg komnar.

Aðalfundurinn samþykkti einnig ályktun um menntun leiðsögumanna, m.a. með hliðsjón af evrópskum og íslenskum staðli um það efni. Skipaður var starfshópur með fulltrúum félagsins, Ferðamálastofu og SAF til að vinna að þeim málum og hafa m.a. í því augnamiði samráð við þær stofnanir sem hafa á boðstólum nám fyrir leiðsögumenn. Hópurinn hefur verið að störfum frá haustinu og eru bundnar miklar vonir við starf hans sem hafa mun áhrif á mörgum sviðum. Tryggvi Jakobsson formaður fræðslunefndar leiðir þetta starf, sem gengið hefur vel.

Þótt kjarasamningar séu ekki á alnæsta leiti eru kjaramál ætíð uppi á borði félagsins. Trúnaðarráð félagsins kaus kjaranefnd á fyrsta fundi sínum til þess að sinna því verkefni og hefur hún borið hitann og þungann af þeim kjaratengdu málum sem upp hafa komið og séð um undirbúning kjarasamninga. Formaður hennar er Jakob S. Jónsson. Verkefni sem hann og nefndin hafa haft á sinni könnu eru m.a. starfsemi trúnaðarmanna á vinnustöðum, gæsla réttinda leiðsögumanna við aðilaskipti (sameiningu fyrirtækja o.s.frv.), könnun á lögmæti frávika frá kjarasamningum sem upp hafa komið og vinnustaðaeftirlit. Við þessi mál svo og við undirbúning að gerð næstu kjarasamninga hefur kjaranefnd verið í samstarfi við Alþýðusambandið, Starfsgreinasambandið og fleiri stéttarfélög. Er ráðgert að greina nánar frá þessum málum á næstunni.

Félagið hefur á árinu beitt sér fyrir því að auka samningshlítni á ýmsum sviðum, m.a. reynt að tryggja að félagsgjöld séu greidd til Leiðsagnar vegna allra sem við leiðsögn vinna eins og skylt er samkvæmt lögum og kjarasamningum. Félagið sendi þeim launagreiðendum leiðsögumanna, sem það hafði tiltækar upplýsingar um, bréf þar sem vakin var athygli á skyldum þeirra að greiða leiðsögumönnum að lágmarki skv. kjarasamningum félagsins og því að greiða gjöld til félagsins og sjóða þess. Báru þessar bréfaskriftir nokkurn árangur og verður þeim fylgt eftir.

Stjórn félagsins hefur einnig fjallað um mál sem snúa að starfsemi erlendra “leiðsögumanna” hér á landi og annarra sem ekki hafa forsendur til að sinna því starfi svo vel sé. Stjórnin fundaði með SAF og Ferðamálastofu um þessi mál sem tóku vel í áframhaldandi samstarf í því augnamiði að tryggt verði að í boði sé fagleg leiðsögn hjá þeim fyrirtækjum sem skipuleggja og selja ferðir hér á landi. Stjórnin áformar að ræða þessi mál á næstunni við fleiri aðila sem fara með stjórnsýslu ferðamála og kanna leiðir til úrbóta.

Leiðsögumenn sem starfa sem einyrkjar hafa rétt til að vera í félaginu. Stjórnin vill vinna að hagsmunum þessara félagsmanna sem annarra og ákvað fyrir nokkru að fela starfshópi að greina stöðu einyrkja og þau vandamál sem þessu fyrirkomulagi fylgir og koma með tillögur um það sem félagið gæti gert til úrbóta. Enn fremur að kanna með hvaða hætti félagið getur bætt þjónustu við þennan hóp félagsmanna. Stjórnin ákvað að óska eftir þátttöku félagsmanna í þessari vinnu. Nokkrir félagar hafa gefið kost á sér til þessa verkefnis sem hefjast mun innan tíðar.

Á árinu bættist öflugur hópur leiðsögumanna við félagið. Fulltrúar félagsins voru m.a. viðstaddir útskriftir leiðsögumanna úr þeim menntastofnunum sem óskuðu eftir því. Að þessu sinni voru það Endurmenntun Háskóla Íslands þar sem 27 leiðsögumenn útskrifuðust, Háskólinn á Akureyri, sem útskrifaði 21 leiðsögumann og Leiðsöguskólinn í Kópavogi, sem útskrifaði 51 leiðsögumann. Frá þessum skólum útskrifuðust því 99 leiðsögumenn sem flestir gengu þegar í félagið. Eru þá ótaldir þeir sem stunduðu leiðsögunám í öðrum stofnunum.

Að venju gengst félagið fyrir ýmsum atburðum yfir vetrarmánuðina. Í lok júní var farið í heimsókn í Lava centre á Hvolsvelli og í Raufarhólshelli og á haustmánuðum var boðið upp á menningarferð um Grandann og heimsókn í Austurbæ með góðri þátttöku sem og hefðbundið jólabókakvöld sem tókst mjög vel. Síðari hluta vetrar verður ýmislegt á dagskrá sem nánar verður kynnt innan tíðar.

Unnið er að ýmsum málum sem snerta félagsstarfið. Meðal þess er að koma upp félagsskrá sem nær til allra þeirra sem í félaginu eru, endurskoða alla texta á heimasíðu félagsins, endurskoða og gefa út upplýsingabækling um félagið og semja efni sem nota má til kynningar á félaginu.