Andsvar við ásökun um valdníðslu FL

skrifað 07. apr 2016
Tourist Guide merki

Félag leiðsögumanna (FL) er rúmlega 40 ára gamalt félag sem starfað hefur að hvers konar málum sem snerta starf leiðsögumanna, ekki síst þeim sem snúa að kjara- og menntunarmálum. Félagið, eins og önnur félög hinna ýmsu starfsstétta á Íslandi, starfar að sínum málum án þess að blanda öðrum en félagsmönnum í þau; síst af öllu fjölmiðlum. Á undanförnum vikum hafa birst í Fréttablaðinu greinar um starfsemi félagsins eftir Jakob S. Jónsson, sem er félagsmaður FL, þar sem hann sér félaginu margt til foráttu - nú síðast fundarsköp á aðalfundi félagsins (Fréttablaðið 6.4.2016). Í greininni ýjar hann að því að stjórn félagsins hafi beitt valdníðslu á fundinum og því sér stjórn FL sig knúna til að svara þessari síðustu grein.

Umræður fari fram á milli félagsmanna
Í stuttu máli er því til að svara að aðalfundur er æðsta vald félagsins og fundurinn samþykkti, með 90% atkvæða, tillögu um að fella af dagskrá aðalfundarins lagabreytingatillögu þá sem Jakob ræðir um. Undir liðnum önnur mál gafst öllum fundarmönnnum tækifæri til að tjá sig um hvaðeina sem snertir málefni félagsins en enginn óskaði eftir að taka til máls um lagabreytingatillöguna. Enginn fór fram á að framhaldsaðalfundur yrði haldinn og löglegum aðalfundi félagsins var slitið þegar dagskrá var tæmd. Þar sem stjórn FL telur að ekki þurfi að fjalla um þetta mál frekar í fjölmiðlum, verður hér látið staðar numið en að sjálfsögðu eru öll málefni leiðsögumanna til umræðu á fundum sem boðað er til í nafni félagsins.

Stjórn Félags leiðsögumanna