Ályktun stjórnar Leiðsagnar um öryggi og gæði í íslenskri ferðaþjónustu

skrifað 13. mar 2018
Tourist Guide merki

Leiðsögn - félag leiðsögumanna hefur barist fyrir því að fagleg leiðsögn ferðamanna verði tryggð með lögverndun starfsheitisins eða að með öðrum hætti verði tryggt að það sé ekki notað í auglýsingum og einkenningu ferða nema uppfyllt séu skilyrði um menntun og starfsundirbúning. Tilgangur þeirri kröfu er að tryggja gæði ferðaþjónustu og öryggi ferðamanna sem kaupa ferðir hér á landi og að koma í veg fyrir að ófullnægjandi þjónusta sé í boði undir fölsku yfirskyni.

Leiðsögn beinir þeim tilmælum til stjórnvalda á sviði ferðamála, umhverfismála og samgöngumála og fyrirtækja í ferðaþjónustu að taka þegar saman höndum og grípa til úrbóta sem skylda innlenda og erlenda aðila sem selja hópferðir hér á landi til að hafa í ferðum faglega leiðsögn með þekkingu á staðháttum og að öryggi farþega sé gætt sem unnt er sbr. greinargerð hér á eftir. Leiðsögn er reiðubúin til samstarfs við þessa aðila við mótun og undirbúning slíkra ráðstafana.

Greinargerð.

Hlutverk leiðsögumanna
Hlutverk leiðsögumanna og fagleg leiðsögn er skilgreind í flestum vestrænum löndum og víðar um heim. M.a. hefur Staðlaráð Evrópu sett staðal um menntun og starfsundirbúning leiðsögumanna. Sá staðall var innleiddur hér á landi sem ÍST EN 15565:2008 og öðlaðist gildi en ekkert hefur verið gert til að framfylgja honum. Staðallinn byggir á því að verkefni leiðsögumannsins sé að fjalla um náttúru landa eða landssvæða, sögu, menningu, lífshætti og lýðfræðileg einkenni þjóða og að glæða skilning ferðamanna á sérstöðu og einkennum landsins og áfangastaða þeirra og stuðla með því að verndun og sjálfbærni þeirra.

Auk þess að vera talsmaður náttúru, menningar og sögu gagnvart gestum, sem hingað sækja, ber leiðsögumönnum einnig að tryggja eftir föngum öryggi þeirra í ferðum. Í því ganga þeir erinda ferðasala og stjórnvalda sem bera mikla í ábyrgð þessum efnum. Til að sinna því hlutverki þarf leiðsögumaður að hafa hlotið undirbúning í viðbrögðum við óhöppum og slysum, þekkja á staðahætti og skipan öryggismála, geta haft samskipti við þá sem aðstoða í slysatilvikum og kunna að miðla upplýsingum.

Víti til varnaðar og vaxandi vandamál
Á síðustu misserum hefur þeim tilvikum fjölga mjög þar sem augljóst er að framangreindum atriðum var ábótavant, leiðsögn ekki til staðar eða gæði hennar ófullnægjandi. Viðbrögð á slysstöðum hafa verið ómarkviss, samskipti fararstjórnar við aðra takmörkuð og upplýsingamiðlun til farþega og annarra verið ófullnægjandi. Án leiðsögumanns sem fulltrúa ferðasala skapast óvissa sem getur komið niður á öryggi ferðamanna.

Erlendir ferðasalar stunda það í æ ríkara mæli að hafa þarlenda hópstjóra með í ferðum sem þeir selja en ráða ekki innanlands menntaða eða viðurkennda leiðsögumenn. Oftar en ekki er undirbúningur erlendra hópstjóra ófullnægjandi, þekking þeirra á staðháttum engin og samskipathæfni þeirra takmörkuð. Svo virðist sem stórir ferðasalar á Vesturlöndum ætli í auknum mæli að feta í fótspor Asíuríkja og bjóða hér ferðir án leiðsögumanna með staðarþekkingu.

Íslenskir ferðasalar eru flestir meðvitaðir um gildi leiðsagnar og leggja áherslu á góða þjónustu á því sviði en það er ekki algilt. Í alltof mörgum tilvikum sniðganga þeir menntaða leiðsögumenn og ráða fólk til leiðsagnar, sem ekki hefur forsendur til að gegna því starfi. Í sumum tilvikum kann skortur á menntuðum leiðsögumönnum að ráða en oftast virðist kostnaður ráða för. Ekki er óalgengt að þeir sem þannig eru ráðnir njóti ekki kjara og réttinda skv. kjarasamningum og sé jafnvel meinað að gerast aðila að stéttarfélagi leiðsögumanna og að leita réttar síns. Þá hefur heyrst að innlendir ferðasalar undirbúi það að taka upp vélræna leiðsögn á ákveðnum ferðaleiðum.

Hópferðir án faglegra leiðsagnar er óviðunandi landkynning almennt en ekki síst í þjóðgörðum landsins þar sem metnaður í þessum efnum þyrfti að vera meiri svo og á öðrum friðlýstum svæðum þar sem ábyrgð ríkisins á verndun og öryggi er ríkust.

Hnignun ferðaþjónustu
Ef fram heldur sem horfir mun gæðum ferðaleiðsagnar hraka og öryggi ferðalanga ekki vera tryggt. Hvort tveggja kemur niður á orðspori íslenskrar ferðaþjónustu og gæti orðið henni og landinu til álitshnekkis og fjárhagslegs skaða. Innlend ferðaþjónusta gæti og farið hallloka fyrir erlendri samkeppni vegna undirboða á grundvelli afsláttar í gæðum og í öryggi. Það er hagsmunir okkar allra, landsins og þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem starfa við ferðaþjónustu að sporna við þessari þróun og tryggja gæði og öryggi í ferðaþjónustu.