Alþjóðadagur leiðsögumanna 2019

21. febrúar

skrifað 21. feb 2019

Alþjóðadagur leiðsögumanna er haldinn 21. febrúar ár hvert að frumkvæði Alþjóðasamtaka félaga leiðsögumanna (WFGTA). Á þeim degi er lögð áhersla á að kynna starf leiðsögumanna, eðli og inntak leiðsögustarfsins og stöðu starfsstéttarinnar í hverju landi um sig.

Leiðsögumenn á Íslandi hafa haft með sér skipulagt félagsstarf síðan 1972, þegar stofnað var Félag íslenskra leiðsögumanna, nú Leiðsögn – stéttarfélag leiðsögumanna. Ferðaþjónustan hefur breyst mikið á þeim tíma og leiðsögnin líka, en meginmarkmið félagsins hefur alla tíð verið tvíþætt – að efla menntun og starfsundirbúning leiðsögumanna og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna.

Leiðsögumaðurinn segir frá og túlkar landið, sem ferðast er um og náttúru þess, hann greinir frá þjóðinni sem þar býr og sögu hennar og menningu. Hann glæðir áhuga og skilning ferðamannsins á sérstöðu áfangastaða þeirra og stuðlar að verndun náttúrunnar. En leiðsögumaðurinn tryggir líka öryggi ferðamannanna, hann sér til þess að þeim sé ekki stefnt í hættu og hann veit hvernig bregðast skal við óhöppum. Gæði og öryggi eru megininntak góðrar leiðsagnar.

Leiðsögumaðurinn er einatt sá einstaklingur, sem hinn erlendi ferðamaður kynnist best í heimsókn sinni til Íslands og leiðsögumaðurinn mótar því að verulegu leyti upplifun ferðamannsins af landi og þjóð. Það skiptir því verulegu máli að leiðsögumaðurinn sé vel menntaður fulltrúi lands og þjóðar. Leiðsögn er fag, sem máli skiptir að menn hafi vel á valdi sínu því segja má að hver leiðsögumaður sé sendiherra Íslands gagnvart erlendum gestum okkar. Það er heiðursverkefni, sem leiðsögumenn taka alvarlega.

Það er undir faglegri og góðri leiðsögn komið hvaða upplifun erlendir ferðamenn taka með sér héðan og hvort þeir kjósi að koma aftur. Víðast erlendis eru þjóðgarðar markvisst notaðir til kynningar á sögu, náttúru og menningu viðkomandi lands og áhersla lögð á að sú kynning sé í höndum fagmenntaðra aðila sem auk þess eiga að gætra viðkvæmrar nattúru á þessum svæðum. Hér á landi er því ekki svo farið. Það ætti þó að vera einfalt í framkvæmd með því að gera það að skilyrði að þegar seldar eru hópferðir í þjóðgarða þá skuli ferðin vera undir leiðsögn fagmenntað og staðkunnugs leiðsögumanns.

Leiðsögn – stéttarfélag leiðsögumanna – hefur unnið að því á undanförnum árum að íslensk yfirvöld innleiði þann staðal um menntun leiðsögumanna (ÍST EN 15565:2008) sem Evrópska staðalráðið hefur tekið saman og viðurkenndur var af íslenskum yfirvöldum fyrir áratug. Miklu skiptir að menntun í leiðsögn taki einnig til öryggis, umhverfisverndar og sérstöðu íslenskrar náttúru og er það markmið Leiðsagnar að svo verði.

Á þessu ári, 2019, eru blikur á lofti í íslenskri ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan tekur örum breytingum, kjarasamningar eru lausir og samningaviðræður í gangi. Miklu skiptir að allir sem hagsmuna hafa að gæta vandi til verka og taki höndum saman til að ferðaþjónusta hér á landi eigi farsæla framtíð fyrir höndum. Það gerist ekki nema unnið sé af metnaði og þess gætt að gæði, fagmennska og öryggi sé höfð að leiðarljósi.

Leiðsögn – stéttarfélag leiðsögumanna – leggur sitt af mörkum til þess og treystir því að ferðaþjónustufyrirtæki og yfirvöld geri það líka.

Indriði H. Þorláksson, formaður Leiðsagnar - stéttarfélags leiðsögumanna