*Jólabókakvöld Leiðsagnar 5. des

5. desember

skrifað 27. nóv 2019

Nú er komið að því að Fræðslu- og skólanefnd Leiðsagnar bjóði til jólabókakvölds félagsins þar sem tækifæri býðst til að slaka á í amstri daganna og eiga saman notalega stund. Bókakvöldið verður fimmtudaginn 5. desember kl. 20 í Cinema2, í verbúð 2 að Geirsgötu 7b (efri hæð). Félagið býður upp á léttar veitingar í anda aðventunnar. Að þessu sinni verða kynnt fjögur verk sem með einum eða öðrum hætti ættu að höfða til leiðsögumanna. Bækurnar sem kynntar verða eru:

Reykholt í ljósi fornleifanna eftir Guðrúnu Sveinbjarnardóttur. Bókin greinir frá niðurstöðum fornleifarannsókna sem höfundur stjórnaði á bæjar- og kirkjustæðinu í Reykholti og bregður ljósi á þróun búsetu á staðnum frá upphafi. Höfundur kynnir.

Öræfahjörðin – Saga hreindýra á Íslandi eftir Unni Birnu Karlsdóttur. Í bókinni er rakin saga hreindýra á Íslandi frá upphafi til okkar daga. Sagt er frá harðri lífsbaráttu á hreindýraslóðum, æsilegum veiðiferðum og tilraunum til hreindýrabúskapar. Sumarliði Ísleifsson sagnfræðingur kynnir.

Our Land – Food and Photography eftir Hauk Snorrason og Höddu Björk Gísladóttur. Bókin skiptist í þrjá hluta. Fyrst er fjallað um Hrífunes þar sem höfundar reka ferðaþjónustu, víkingagrafir og gosið í Eyjafjallajökli. Annar hlutinn geymir 40 mataruppskriftir frá Hrífunesi og síðasti hlutinn 80 stórbrotnar ljósmyndir Hauks af íslenskri náttúru. Haukur Snorrason kynnir.

Höpp og glöpp – Sjálfshól og svaðilfarir eftir Ólaf B. Schram. Höfundur hefur um árabil verið leiðsögumaður erlendra ferðamanna og víða farið. Í bókinni segir frá ýmsum ferðum og svaðilförum sem kryddaðar eru gamansögum og sögum af samferðafólki. Höfundur kynnir.

Bækurnar verða til sölu á afsláttarkjörum.

Fræðslu- og skólanefnd