Breytt lög, ný stjórn, mörg verkefni og nýr heiðursfélagi

skrifað 25. apr 2017

Aðalfundur Félags leiðsögumanna var haldinn 29. mars með framhaldsaðalfundi 10. apríl 2017.

Auk venjulegra aðalfundarverkefna lá fyrir fundinum tillaga að heildarendurskoðun á lögum félagsins. Tillagan, sem unnin var af starfshópi stjórnar félagsins tók mið af þeim breytingum sem orðið hafa á starfsvettvangi leiðsögumanna á síðustu árum og hugmyndum sem fram hafa komið innan félagsins, fól í sér allróttæka breytingu á formlegri lagaumgerð félagsstarfsins en byggði þó á þeim markmiðum félagsins að vera vettvangur fyrir hagsmuni leiðsögumanna en standa jafnframt vörð um að fagleg leiðsögn fyrir erlenda ferðamenn byggist á þekkingu og virðingu fyrir náttúru landsins, menningu og sögu þjóðarinnar. Tillagan var samþykkt á fundinum með 40 atkvæðum en sex voru á móti.

Kosnir voru fjórir nýir stjórnarmenn í stað þeirra sem gengu úr stjórn skv. reglum félagsins og ekki gáfu kost á sér að nýju. Stjórnin er nú þannig skipuð: Indriði H. Þorláksson formaður, Júlía Hannam, Kári Jónasson, Pétur Gauti Valgeirsson, Sigríður Guðmundsdóttir, Vilborg Anna Björnsdóttir og Þorsteinn McKinstry. Þá voru kjörnir fulltrúar í nýstofnað trúnaðarráð félagsins, sem fara mun með kjarasamninga o.fl. fyrir þess hönd, svo og fulltrúar í skóla- og fræðslunefnd.

Stjórnin og félagið mun á næstunni vinna að þeim málefnum sem fjallað er um í lögum þess og áhersla var lögð á við undirbúning lagabreytinganna. Í fyrsta lagi að styrkja félagslegt starf og fjárhag félagsins með því að fá til virkrar þátttöku alla sem starfa að leiðsögn og tryggja að vinnuveitendur þeirra virði kjarasamninga félagsins og greiði félagsgjöld til þess eins og þeir og landslög kveða á um. Í öðru lagi að koma á fót fagdeildum innan félagsins fyrir þau fjölmörgu sérsvið leiðsagnar sem þörf er á í fjölbreyttri ferðaþjónustu. Í þriðja lagi að vinna að gæðamálum leiðsagnar í samvinnu við fyrirtæki í ferðaþjónustu og í fjórða lagi að starfsundirbúningur leiðsögumanna verði í samræmi við íslenska og evrópska staðla um menntun leiðsögumanna.

Á aðalfundinum var samþykkt að gera Jón R. Hjálmarsson að sjötta heiðursfélaga Leiðsagnar - félags leiðsögumanna. Jón var einn af stofnendum félagsins 1972. Hann er víðkunnur og fjölfróður leiðsögumaður og höfundur ritverka sem eru mikils metin af leiðsögumönnum.