Félagsaðild - Bréf frá formanni

skrifað 24. júl 2017
indridi_h_thorlaksson_hofundur

Með bréfi dags. 12. júlí 2017 og sent var á póstfang allra launagreiðenda leiðsögumanna sem félaginu var kunnugt um var athygli þeirra vakin á þeim skyldum sem þeir hafa að lögum og samningum um að greiða eigi lægri laun en samrýmast kjarasamningi Leiðsagnar fyrir leiðsögumenn svo og að þeim beri að greiða iðgjöld til sjóða félagsins og halda eftir félagsgjöldum og greiða þau til Leiðsagnar.

SA og SAF gerðu athugasemd við bréf þetta og vísuðu með gamalkunnum hætti til félagafrelsis. Virðast þau hafa litið fram hjá þeim ákvæðum laga Leiðsagnar að starfandi leiðsögumaður getur óskað eftir því að standa utan félagsins og er orðið við henni. Slíkt breytir þó engu um skyldur launagreiðandans til að virða kjarasamninginn og fara eftir honum og skýrum ákvæðum starfskjaralaga.

Leiðsögn hefur af þessu tilefni með bréfi dags 24. júlí 2017 ítrekað ábendingu sína frá 12. júlí til launagreiðenda og lýst framangreindri afstöðu sinni til athugasemda SA og SAF með tilvísun í gildandi starfskjaralög.

Tilefni bréfs Leiðsagnar voru m.a. vísbendingar þess efnis að leiðsögumönnum, einkum nýliðum og erlendum borgurum en einnig reyndum leiðsögumönnum, væru boðin óviðunandi kjör sem ekki eru í samræmi við kjarasamninga og að ekki væru greidd iðgjöld til sjóða svo sem sjúkrasjóðs og ekki staðin skil á félagsgjöldum til Leiðsagnar. Þ.e. þeir eru sviptir réttindum sínum og varnað þess að geta leitað til stéttarfélags. Ekki er sjáanlegt að tekið verði fyrir þetta nema með öflugu starfi félagsins og að allir sem að leiðsögn starfa sameini krafta sína. Það vekur nokkra furðu að SA og SAF skuli í máli þessu taka afstöðu sem er til þess eins að slá skjaldborg um þá launagreiðendur leiðsögumanna - sem betur fer undantekningar - sem nota sér uppgang í ferðaþjónustu með þessum hætti. Auk þess að brjóta á réttindum starfsmanna brengla þeir samkeppnisstöðu á markaði sér í vil m.t.t. hinna sem fara að lögum og samningum.

Stjórn Leiðsagnar lítur þessi mál alvarlegum augum og mun beita sér gegn þessum vinnubrögðum. Hún hvetur félagsmenn til að kynna sér efni framangreindra bréfaskrifta sem nálgast má á tenglum hér á eftir og eins að vekja athygli leiðsögumanna sem ekki eru í félaginu á þessu og hvetja þá til inngöngu í félagið.

Indriði H. Þorláksson
formaður Leiðsagnar - Félags leiðsögumanna