Kynferðisleg áreitni í starfi leiðsögumanna

skrifað 11. jan 2018

Yfirlýsing stjórnar Leiðsagnar - félags leiðsögumanna

Í nóvember sl. sendi Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Bandalag háskólamanna frá sér sameiginlega yfirlýsingu, Rjúfum þögnina, í tilefni af #metoo hreyfingunni og alþjóðadegi Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Leiðsögn - félag leiðsögumanna, tekur heils hugar undir yfirlýsingu þessa sem lesa má undir tenglinum: http://www.asi.is/um-asi/utgafa/frettasafn/almennar-frettir/rjufum-thognina/

Eins og fram kemur í yfirlýsingunni hefur Reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum (https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/velferdarraduneyti/nr/19859) verið í gildi frá árinu 2015. Samkvæmt henni skulu atvinnurekendur gera áætlanir um forvarnir og aðgerðir til að koma í veg fyrir kynbundna áreitni og þær aðgerðir sem grípa skuli til ef talið er að slík hegðun hafi átt sér stað. M.a. skulu þeir tafarlaust bregðast við kvörtunum eða ábendingum um slíka hegðun.

Starfsaðstæður leiðsögufólks eru oft þannig að þær auðvelda kynferðislega áreitni af hálfu samstarfsfólks eða annarra og lítil starfsfesta veldur þvi tregðu til að leita réttar síns. Engu að síður hafa félaginu borist nokkur erindi með upplýsingum um alvarlega kynferðislega áreitni í tengslum við störf leiðsögumanna. Efni þeirra benda til þess að kvörtunum hafi ekki verið sinnt og ákvæði reglugerðar þessarar brotin. Eru erindin nú í ferli hjá félaginu.

Leiðsögn hvetur félagsmenn sína til að gæta réttar síns á þessum vettvangi og ganga eftir því að launagreiðendur þeirra uppfylli ákvæði framangreindrar reglugerðar, m.a. þau að taka kvartanir og ábendingar alvarlega og tryggja réttláta málsmeðferð. Félagið er reiðubúið til að aðstoða leiðsögumenn sína með ráðgjöf og milligöngu eftir því sem félagið hefur tök á.