Áhættumat fyrir ferðamannastaði

skrifað 04. des 2013
thingvellir

Lögð hefur verið fram þingsályktunartillöga um að fela innanríkisráðherra að koma því til leiðar að ríkislögreglustjóri geri áhættumat fyrir Ísland með tilliti til ferðamennsku, eftir atvikum í samstarfi við Ferðamálastofu, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Umhverfisstofnun og aðra aðila á vettvangi ferðamála, öryggis- og björgunarmála og náttúruverndar. Í framhaldi af því verði kannað og metið hvort ástæða þyki til að setja sérstakar reglur um ferðir á þeim svæðum sem falla í efsta áhættuflokkinn. Erlendum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og á sama tíma hefur teygst nokkuð úr hinum hefðbundna ferðamannatíma sumarmánaðanna inn á haust og vetur. Íslendingar ferðast einnig um landið á öllum árstímum. Mest er um óbyggðaferðir að sumarlagi en þær tíðkast einnig á öðrum tímum árs. Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að fækka slysum og óhöppum ferðamanna í óbyggðum og utan alfaraleiða. Með því yrði dregið úr þjáningum einstaklinga af völdum slysfara og hrakninga og kostnaði samfélags og einstaklinga vegna leitar- og björgunarstarfa.