Tillögur FL um náttúrupassa

skrifað 03. mar 2014
Geysir

Eftirfarandi eru tillögur FL um náttúrupassa og minnispunktar fulltrúa FL eftir 3. fund samráðshóps Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um náttúrupassa.

Fræðsla - verndun - aðgengi - öryggi Viðhald og uppbygging ferðamannastaða á Íslandi.

Innheimta gjalds - valfrjálst viðbótarframlag - úthlutum styrkja - forgangsröðun verkefna – stjórnun og sýnileiki verkefna og þjónustu

Ekki liggur fyrir nein heildar uppbyggingaráætlun fyrir ferðamannastaði á Íslandi. Ekki liggur heldur fyrir nein heildar samantekt á þörfinni fyrir endurnýjun eða frekari uppbyggingu. Óhætt er þó að fullyrða að fjárþörf til uppbyggingar, viðhalds og reksturs er til staðar og er veruleg og aðkallandi. Allir innviðir ferðaþjónustunnar eru veikir og miðaðir við mun minni umsvif og umferð en raunin er enda má nánast tala um sprengingu hvað varðar fjölgun ferðamanna síðustu misseri.

Verðlagning náttúrupassans þarf á einhvern hátt að endurspegla þjónustuna sem gestir njóta vegna passans og þörfina fyrir gjaldtökuna. Mikilvægt er að gjaldið sé í senn sanngjarnt og hóflegt en skapi jafnframt mikilvægan og öflugan sjóð sem sækja má í fé til endurbóta og uppbyggingar á ferðamannastöðum. Framlög úr sjóðnum séu vel sýnileg t.d. með merkingum á þeim stöðum sem njóta styrkja og gestir upplifi hið hækkaða þjónustustig í sýnilegum öryggisráðstöfunum, betri upplýsingum og bættu aðgengi að fjölbreyttari og fleiri ferðamannastöðum.

Við úthlutanir þarf að hafa í huga að víða er langvarandi uppsöfnuð þörf fyrir úrbætur og nýframkvæmdir sem aðkallandi er orðið að takast á við. Þarf því að áfangaskipta mörgum verkefnum og etv. beita alútboðs aðferðum við lausnir þannig að úthlutanir fyrstu árin fari ekki meira og minna í hönnunarkostnað og undirbúning verkefna þegar nauðsynlegt er að hefja ný verkefni en jafnframt að ljúka mörgum verkefnum sem nú þegar eru hafin og hafa jafnvel strandað vegna fjárskorts.

Svigrúm þarf að vera í regluverki til aðlögunar og breytingar á áherslum við úthlutanir úr náttúrupassasjóðnum þannig að fella megi reglur að reynslu og upplýsingum sem safnast á fyrstu árum kerfisins og í framtíðinni.

Tekjur:

Gjald náttúrupassans mætti innheimta með lendingagjöldum líkt og önnur flugvallagjöld eða með fyrirfram skráningu á netinu líkt og ESTA gjald BNA. Með skráningu á netinu má bæta við valkvæðum greiðslumöguleika sem eykur á þjónustu passakerfisins og gefur gestum tækifæri til að undirstrika sínar áherslur og áhuga með auknu framlagi. Auka mætti vöruframboð með passanum komi fram áhugaverðar hugmyndir sem henta aðferðinni og fellur að hugmyndinni um náttúrupassa.

Gjaldtöku má hefja strax á miðju ári 2014 þannig að þær ferðaskrifstofur sem sannanlega hafa gengið frá sölu á ferðum fyrir einhvern viðmiðunardag fái kóða til úthlutunar til gesta sem geta “greitt” náttúrupassann með því að slá inn tillagðan kóða þannig að líti út fyrir að passinn sé innifalinn. Þannig mætti ýta þessu verkefni úr vör sem fyrst og hafa af því tekjur strax ásamt hugsanlegum frjálsum framlögum í valkvæða hlutanum.

Verðmætt samband næst við gestinn í gegnum netskráningu sem má nota við gerð áætlana, viðhorfskannana og til að meta væntingar og koma upp öflugum gagnagrunni um þá er velja að heimsækja Ísland. Þannig mælir margt með netskráningarleiðinni umfram gjaldtöku í höfnum.

Í þeim tilfellum sem gestir koma sem farþegar á skemmtiferðaskipum greiði hver gestur einungis gjaldið í fyrstu höfn (eða einhverri tiltekinni höfn til hagræðis fyrir kerfið) enda er heimsóknin samfelld og skipið yfirgefur ekki landhelgi Íslands þó siglt sé á milli landshluta/hafna. Þar sem heimsóknir ferðamanna sem koma á skemmtiferðaskipum eru um margt ólíkar öðrum heimsóknum þarf etv. að finna aðferð til að greiða fyrir náttúrupassann með hópskráningu þannig að skipafélögin og umboðsmenn þeirra hér á landi geti séð um skráninguna og greiðslu gjaldsins ef það þykir hentugra en einstaklingsskráning.

Náttúrupassinn kosti Kr 3000,- pr. einstakling er náð hefur 18 ára aldri og er miðað við fæðingarár. Hver valmöguleiki kostar aukalega. Gesturinn velur sér upphæð og fjölda verkefna/málaflokka sem hann vill styrkja. Gildistími náttúrupassans er frá komu til brottfarar.

Ef samanlagður fjöldi náttúrupassa íslendinga og erlendra gesta verður 1.200.000 greiðandi einstaklingar á ári þá yrðu tekjurnar Kr. 3.600.000.000,- fyrir utan valkvæða hluta gjaldsins.

Hugmyndir að valkvæðum styrkjum gæti litið þannig út: Valkvætt viðbótargjald til: a) Landgræðslu b) skógræktar c) endurheimtu votlendis d) friðun eyja og skerja (uppkaup á nytjarétti eigenda hlunninda) e) umhverfis/náttúrumenntunar barna og ungmenna f) sjálfbærnirannsókna á sviði orkumála g) verndunar á viltum Íslenskum dýrum (t.d. verndun landspendýra, fugla og uppkaupa á netarétti) h) friðunar sjávarspendýra i) norðurljósarannsókna j) jöklarannsókna k) eldfjallarannsókna l) höggunarrannsókna m) loftslagsrannsókna n) eflingar starfs þjóðgarða o) eflingar sjálfboðastarfs Landsbjargar p) eflingar sjálfboðastarfs erlendra ungmenna í friðlöndum og ferðamannastöðum á Íslandi Valkvæða viðbótargjaldið renni í aðgreindan sjóð sem deilt yrði úr skv. eyrnamerki framlags að frádregnum kostnaði vegna umsýslu.

Gjöld/úthlutanir: Rétt til að sækja um og þiggja styrki úr náttúrupassasjóði hefðu allir er gerast aðilar að náttúrupassakerfinu og uppfylla nokkur einföld atriði sem skilgreinir þá sem réttmæta ábyrgðaraðila ferðamannastaða t.d. eigendur/umráðaaðilar lands - hvort heldur um er að ræða einkaaðila, fyrirtæki/félög eða sveitafélög/ríki. Einnig væri gert ráð fyrir að hluti úthlutana sjóðsins færi beint í þjónustutengd verkefni s.s. öryggismál ferðamanna.

Ferðamannastaðir geta verið náttúrulegir staðir eða manngerðir staðir í náttúru Íslands sem eru nú þegar þekktir viðkomustaðir ferðamanna eða nýir slíkir staðir sem áform eru um að opna eða eru í uppbyggingu. Hér að neðan er hugmynd að skiptingu verkefna náttúrupassasjóðsins í flokka sem fjármunum er skipt eftir og deilt út skv. umsóknum og mati sjóðsstjórnar. Hlutfall skiptingar úthlutaðra styrkja milli flokka þyrfti að endurskoða á 3-5 ára fresti háð reynslu og eftirspurn. Í þessari hugmynd er gengið út frá því að styrkir standi undir 100% kostnaðar framkvæmda enda uppfylli þær skilyrðin sem sett yrðu um úthlutanirnar. Eins mætti bjóða hlutfallslega styrki þar sem það þætti frekar eiga við t.d. þar sem framkvæmdir og eða rekstur sem eru styrktar af öðrum sjóðum eða félögum.

Eftirfarandi er hugmynd að hlutfallslegri skiptingu úthlutana í upphafi verkefnisins eftir eðli verkefna og málaflokka:

A 45% Meginverkefni sjóðsins yrði úthlutanir vegna; 1) reksturs, 2) uppbyggingar, 3) viðhalds, 4) endurnýjunar og endurbóta 5) breytinga og 6) öryggismála á núverandi aðstöðu á ferðamannastöðum. Undanskilin eru hönnunarverkefni önnur en þau er innifalin eru í alútboðum. Úthlutanir væru í samræmi við ásókn sem mæld yrði t.d. með sjálfvirkri ítölu auk talningu og mati eftirlitsaðila náttúrupassasjóðsins.

B 5% Sérstakt verkefnatengt framlag til þjóðgarða. Undir þennan flokk falla 1) mannaflafrekar tímabundnar framkvæmdir og 2) gerð varanlegra mannvirkja. Undanskilin eru hönnunarverkefni önnur en þau er innifalin eru í alútboðum. 3) Framleiðsla kynningarefnis ætlað gestum. Starfsfólki þjóðgarða og starfsmönnum í ferðaþjónustu og 4) námskeiðahald ásamt 5) námsgagnagerð. (ganga þarf þannig frá málum að styrkir úr náttúrupassasjóð skerði ekki framlög ríkis til þjóðgarða)

C 15% Úthlutun vegna 1) nýrra staða, 2) hugmynda- og hönnunarvinnu (utan alútboða), 3) rannsókna- og þróunarverkefna væri ákveðið hlutfall úthlutunar sjóðsins á hverju tímabili til að safna upplýsingum og hvetja til nýbreytni og aukinnar fjölbreytni við uppbyggingu ferðamannastaða.

D 5% Ákveðin hluti úthlutunar sjóðsins verði neyðarúthlutun vegna bráðaðkallandi verkefna þar sem komið er yfir þolmörk staða eða aðstaða orðin hættuleg eða skyndileg hætta skapast t.d. vegna náttúruhamfara sem trekkja að ferðamenn.

E 5% Stjórn sjóðsins geti að eigin frumkvæði eða eftir ábendingum veitt styrki til "munaðarlausra" staða og svæða þ.e. svæða sem eigendur sinna ekki og hafa etv. ekki hag af heimsóknum ferðamanna en eru engu að síður viðkomustaðir ferðamanna í einhverjum mæli og þeir velkomnir.

F 10% Arðgreiðsla til landeigenda (viðurkenndra/skráðra/auðkenndra) ferðamannastaða sem ekki njóta annarskonar arðgreiðslna eins og t.d. afgjalds vegna leigu og rekstrar veiðiáa, vatna og eða skotveiðilenda þar sem aðgangur almennings er takmarkaður eða þar sem seldur er aðgangur enda rekið fyrir eigið aflafé. Þetta undanskilji þó ekki þá landeigendur sem hugsanlega njóta afgjalds vegna hefðbundinna hlunninda ef almenningi er veittur frjáls aðgangur að ferðamannastöðum á sömu landareign. (Hér þarf hugsanlega að huga sérstaklega að réttindum og skyldum /ábyrgð landeigenda)

G 10% Landsbjörg, hjálparsveitir landsins fái hlutdeild í sjóðnum til að standa undir kostnaði vegna þjónustu þeirra við ferðamenn, útköll, eftirlit og fræðslu.

H 5% Rekstur og umsýsla hverskonar þ.m.t. kostnaður við innheimtu náttúrupassa-gjalds og kynningarmál. Undir þennan flokk fellur kostnaður vegna ítölu og eftirlits vegna framvindutengdrar útgreiðslu styrkja, ásamt úrvinnslu upplýsinga úr skráningakerfi náttúrupassans.

Sjóðfé er ekki gengur út skv. skilyrðum náttúrupassasjóðsins yrði skipt upp á til helminga milli þeirra er eiga rétt á arðgreiðslum skv. flokki F og í safnsjóð sem deilist niður á alla flokka nema F í samræmi við hugsanlega tímabundna aukna eftirspurn í flokkum A,B,C og G eða þörf vegna flokka D og E skv. mati úthlutunarnefndar sjóðsins. T.d. Gætu lögregluembætti svæða og eða björgunarsveitir sótt í þennan hluta sjóðsins vegna tímabundina óvæntra útgjalda skv. flokki D til að mæta óvæntum kostnaði við aukið mannahald eða sérhæfðra tækjakaupa sem nýtast í verkefnum tengdum þjónustu náttúrupassans.

Ábyrgðar-menn / aðilar ferðamannastaða geti sótt um verkefnatengda eða reglulega rekstrarstyrki úr sjóðnum. Þeir aðilar er þiggji styrki úr sjóðnum til viðhalds og uppbyggingar skuldbinda sig til að tryggja almenningi/ferðamönnum aðgang a.m.k. út umsaminn afskriftatíma verkefna / mannvirkja.

Ferðamannastaðir, sýningar og söfn sem selja ferðamönnum aðgang ættu ekki rétt á styrk úr sjóðnum enda rekið fyrir eigið aflafé. (Rýrir þó ekki rétt landeigenda til arðgreiðslu skv. F né rétt til styrkja vegna framkvæmda sem standa utan lokaðs svæðis og uppfyllir skilyrði um skilgreiningu ferðamannastaða og svæða og öllum er heimill aðgangur að)

Í tillögum FL er stiklað á stóru er varðar hugmyndir um stjórn sjóðsins og starfsmenn. Vanda þarf til regluverks og vinnubragða svo að ekki komi upp staða þar sem hagsmunaaðilar eru setttir í þá aðstöðu að þurfa afgreiða styrki til sjálfs sín. Þannig séu það starfsmenn sjóðsins sem meti verkefnin og umsókninar og geti kallað til sérfræðiaðstoð við matið sé þess þörf en stjórnin sem skipuð er hagsmunaðilum í ferðaþjónustu samþykki eða hafni tillögunum en geti ekki haft áhrif á umsóknina að öðru leiti.

Stjórn sjálfseignafélagsins um náttúrupassa yrði skipuð fulltrúum þeirra aðila sem sitja samráðsfundina eða/og annara sem málefni náttúrupassans varða og þannig tryggður góður þverskurður hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnin myndi ráða nauðsynlega starfsmenn til reksturs náttúrupassans. Úthlutunarnefd tæki á móti / mæti verkefni og forgangsröð umsókna og mælti með eða á móti þeim er þær væru lagðar fyrir stjórnina til samþykktar eða synjunar. Að öðru leiti væru málefni stjórnar og starfsmanna eftir skilyrðum stofnsamþykta sjálfseignastofnunarinnar og reglum skv. þeim.

Launakostnaður stjórnar fyrsta árið sem fellur annars undir flokk H verði greiddur af þeim aðilum sem standa að baki fulltrúum samráðshópsins og yrði þannig óendurkræft framlag stofnaðila til náttúrupassans. Stefnt yrði að því að náttúrupassasjóðurinn hafi komið upp eigin skrifstofu og starfsliði fyrir lok 2014 og sé þannig að fullu starfhæf í upphafi árs 2015. Fyrstu úthlutanir færu fram í lok fyrsta ársfjórðungs 2015 og svo á þriggja mánaða fresti eftirleiðis. Allar útgreiðslur vegna úthlutana væru framvindutengdar og háðar úttekt stjórnar náttúrupassans.

Auglýsa þarf amk. Árlega eftir umsóknum um framlög úr náttúrupassasjóði. Í fyrsta sinn fyrir síðasta ársfjórðung 2014. Nýta má þekkingu og reynslu þeirra leiðsögumanna sem heimsækja ferðamannastaði um land allt við mat á þörf til úrbóta og forgangsröðun verkefni. Þannig gætu leiðsögumenn haldið einfalda dagbók í formi meginlegrar könnunar um ástand viðkomustaða sem myndi byggja upp gagnagrunn upplýsinga sem bera mætti saman við gagnagrunn starfsmanna náttúrupassans og starfsmanna í ferðaþjónustu heima í héraði.

Hannað yrði merki náttúrupassans sem myndi auðkenna alla staði, svæði og mannvirki sem nytu styrkja náttúrupassans þannig að ferðamenn verði þess áþreifanlega áskynja að andvirði náttúrupassans renni til góðra verka, uppbyggingar og verndunar til hagsbóta fyrir þá og náttúruna.

Málefni náttúrupassa / náttúrupassasjóðs. Gerð áætlana, umsagnir-, úttektir- og eftirlit- fagaðila. Stjórnun, gjaldtöku og ráðstöfun tekna

Í framhaldi af þriðja fundi samráðshóps um náttúrupassa leggur fulltrúi Félags leiðsögumanna fram eftirfarandi athugasemdir og tillögur:

Þó óumdeilt sé að málefni náttúrupassa eðli síns vegna eigi að mörgu leiti heima í umhverfisstofnun þarf að gæta vandlega að uppbyggingu og stjórn kerfisins sem kemur til með að annast allt utanumhald náttúrupassasjóðs.

Til að tryggja sjálfstæði og hlutleysi náttúrupassasjóðs er eðlilegt og nauðsynlegt að skilja að með greinilegum hætti verkefnið og stofnunina sem mun veita álit, umsagnir og ýmis leyfi ásamt því að annast eftirliti og úttektir með verkefnum náttúrupassasjóðs.

Gerð heildar áætlunar um verndun og nýtingu ferðamannastaða og svæða á vissulega heima hjá umhverfisstofnun og ætti stofnunin að sjálfsögðu rétt á fé úr náttúrupassasjóð til verksins þar sem það á við og önnur fjármögnun er ekki fyrir hendi ef tekið er mið af tillögum Félags leiðsögumanna sem liggja fyrir.

Það getur þó tæplega talist eðlilegt að einn og sami aðilinn geri langtíma-grunnáætlanir, einstaka verkáætlanir, sjái um tekjuöflun, útdeili styrkjum, meti umsóknir um styrki þ.m.t. til sjálf sín, og annist eftirlit með sjálfri sér og útektum á verkum sínum? Þannig gæti umhverfisstofnun lent í einhverskonar samkeppni við aðila sem eru undir reglugerðarvaldi stofnunarinnar settir og eru háðir úttektum og eftirliti sömu stofnunar. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra og þykir eflaust ekki góð stjórnsýsla.

Þess vegna er nauðsynlegt að náttúrupassasjóður hafi sjálfstæða stjórn er vinni eftir lögum og samþykktum um sjálfseignarstofnunina um náttúrupassa. Eykur það trúverðugleika og gegnsæi verkefnisins og tryggir að tekjur sjóðsins fari óskiptar til þeirra verkefna sem sjóðnum er ætlað að vinna.

Þess vegna yrði einnig mikilvægt að auðkenna verkefnin vel þannig að jafnt Íslendingar sem erlendir gestir væru ekki í neinum vafa um að andvirði náttúrupassans renni óskipt til fræðslu, bætts aðgengis, aukins öryggis, verndunar og nýtingar náttúrunnar á ferðamannastöðum og svæðum en ekki til rekstur ríkistofnunnar sem hefur mörg önnur verkefni á sínu forræði.

Leggur Félag leiðsögumanna til að tekinn verði af allur vafi um með hvaða hætti verkefninu verði stjórnað og hver verði fjárvörsluaðili. Þá er tímabært að undirbúa almenna kynningu á verkefninu innanlands sem utan, þar sem stiklað yrði á stóru um tilgang og þau verkefni sem náttúrupassanum er ætlað að leysa. Þannig vinnst tími til að fínstilla þau atriða sem ófrágengin eru og hefja gjaldtöku sem fyrst. Umræða um náttúrupassann í fjölmiðlum hefur verið á villigötum og tímabært að fræða almenning um hvað hugmyndin snýst. Eyða þannig ótímabærum áhyggjum um skerðingu almannaréttar um ferðafrelsi og höft. Með fræðslu sýna fram á að náttúrupassinn getur nýst til að stýra umferð um viðkvæm lokuð svæði þar sem hægt væri að gera viðeigandi nauðsynlegar ráðstafanir til verndar. Þannig fari ávallt saman verndun og nýting. Draga þannig fram hagsbót greiðenda náttúrupassans sem nýtur bætts aðgengis að stöðum og svæðum sem gætu opnast eða þarf ekki að loka. Einnig t.d. í viðhaldi göngustíga, akfærra fáfarinna slóða, reiðvega, fjölgun áningastaða með nestis og salernisaðstöðu, betri og fleiri upplýsingaskilta auk ýmissa annarra úrbóta.

Félag leiðsögumanna tekur undir mikilvægi þess að gerðar verði vandaðar áætlanir fram í tímann og sér fyrir sér að rammaáætlun þar sem meginstefnan er mótuð yrði lögð fram af umhverfisstofnun innan tveggja til þriggja ára. Þangað til yrði unnið skv. bráðabyrgðaáætlun sem miðaði við að bregðast við hnignun staða og svæða. Ásamt minni verkefnum sem bæta úr brýnni eða aðkallandi þörf á endurbótum, nýframkvæmdum eða breytingum öryggis vegna eða til að bæta aðgengi, ástand og ásýnd staða þannig að bregðast megi við vaxandi eftirspurn og umferð.

Reynt verði að sætta sjónarmið landeigenda og hugmyndina um náttúrupassasjóð og sýna fram á að samhliða náttúrupassakerfinu geti einkaaðilar, ríki og sveitafélög rekið staði þar sem seldur er aðgangur og sé þannig reknir fyrir eigið aflafé en njóti þá ekki styrkja úr náttúrupassasjóði nema skv. þeim takmörkunum sem t.d. koma fram í tillögum Félags leiðsögumanna. Þessar tvær aðferðir eiga að geta gengið árekstralaust saman. skv. framlagðri áðurnefndri tillögu. Í tillögunum kemur einnig fram hugmynd um arðgreiðsur til landeigenda / ábyrgðaraðila ferðamannastaða og svæða sem gæti hentað landeigendum sem valkostur fremur en að selja aðgang.