Félagsfundur og nýr heiðursfélagi

skrifað 01. jún 2017
20170531_210706 (2)

Leiðsögn - félag leiðsögumanna hélt almennan félagsfund miðvikudaginn 31. maí í húsakynnum félagsins að Stórhöfða 25. Tilefnið var að minnast 45 ára afmælis félagsins og að fagna nýjum heiðursfélaga. Fundurinn var vel sóttur af eldri félögum sem nýliðum.

Dagskrá fundarins var
a) ávarp Sigríðar Guðmundsdóttur stjórnarmanns í tilefni af afmæli félagsins,
b) greinargerð Indriða H. Þorláksson formanns félagsins um breytingar á lögum þess og verkefni sem unnið er að og
c) útnefning Jóns R. Hjálmarssonar sem heiðursfélaga.

Sigríður rakti þróun félagsins frá fyrstu tíð, samhengið í sögu þess og verkefnum sem enn væru að mörgu þau sömu og í upphafi þrátt fyrir miklar breytingar sem ferðaþjónustan hefur gengið í gegnum. Indriði fór yfir helstu breytingar sem gerðar voru á lögum félagsins fyrir skömmu og þau verkefni sem stjórn og trúnaðarmenn félagsins vinna nú að. Helstu efnisatriðin má sjá á glærum hér meðfylgjandi neðar á síðunni.

Meginefni fundarins var útnefning Jón R. Hjálmarssonar sem heiðursfélaga Leiðsagnar. Af því tilefni hafði fyrri heiðursfélögum og fyrrum formönnum félagsins verið boðið sérstaklega til fundarins. Af eðlilegum ástæðum gátu ekki allir þekkst það boð. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi Forseti Íslands og heiðursfélagi Leiðsagnar sendi fundinum og félaginu kveðjur sínar og bað fyrir sérstakar kveðjur og þakkir til hins nýja heiðursfélaga. Kveðjur bárust einnig frá Kristbjörgu Þórhallsdóttur heiðursfélaga Leiðsagnar, sem ekki náðist að greina frá á fundinum, en er nú bætt úr.

Formaður félagsins ávarpaði nýjan heiðursfélaga og afhenti honum heiðursskjal og blóm. Í framhaldi af því flutti Jón R Hjálmarsson tölu þar sem hann þakkaði félaginu þann heiður sem það sýndi honum og rakti að hætti góðs leiðsögumanns eftirminnileg atvik úr starfi sínum sem slíkur og þau áhrif sem leiðsögustarfið hafði haft á feril hans og ritstörf. Hann sagði það vera hlutverk leiðsögumanna að kynna öðrum þjóðum landið, sögu þess, menningu og náttúru og vel megi segja að leiðsögumenn séu sendiherra þjóðar sinnar, lands og menningar.

Gerður var góður rómur að máli Jóns og útnefningu hans sem heiðursfélaga fagnað af ýmsum sem kvöddu sér hljóðs og meðal fundarmanna almennt. Að fundi loknum áttu gestir ánægjulega samverustund yfir kaffi og kökum.