Sérsveit gegn skipulagðri brotastarfsemi

frétt af RÚV

skrifað 01. feb 2019

Aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ segir brýnt að stjórnvöld komi á fót sérsveit sem hefur það eina verkefni að berjast gegn skipulagðri brotastarfsemi á vinnumarkaði. Hann segir stjórnvöld hafa sýnt ótrúlega þolinmæði gagnvart brotum á vinnumarkaði. Félagsmálaráðherra bindur miklar vonir við að málið komist í formlegan farveg hjá stjórnvöldum.

Sinnuleysi stjórnvalda
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, var gestur Morgunútvarpsins í morgun. Hann sagði ótrúlegt hversu lengi skipulögð brotatarfsemi hafi viðgengist á íslenskum vinnumarkaði.

„Það hefur verið alveg ótrúleg þolinmæði stjórnvalda og sinnuleysi gagnvart þessum hlutum. Að mörgu leyti hafa aðilar skellt skollaeyrum við því sem við höfum verið að segja og upplýsa. Sérstaklega varðandi kennitöluflakkið. Þar sem við erum að tala um að ríkissjóður verður af milljarðatugum á hverju ári vegna þess að aðilar eru einfaldlega að nota hlutafélög og einkahlutafélög til þess að ræna peningum af samfélaginu,” sagði Halldór.

Félagsmálaráðherra vill aðgerðir
Halldór var hluti af starfshópi félagsmálaráðherra um undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði sem birti tillögur sínar í gær. Mikilvægast er að sporna gegn kennitöluflakki til að brotamenn geti ekki byrjað upp á nýtt eftir að brot eru upplýst og skilið skuldirnar eftir. Hann vill koma á fót sérsveit, skipaða fólki frá lögreglunni, Ríkisskattstjóra, Vinnueftirlitinu og Vinnumálastofnun, sem hefur það eina markmið að hafa eftirlit með vinnumarkaðnum og grípa inn í. Slík sveit er starfrækt í Noregi.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra skipaði hópinn á sínum tíma og segist binda miklar vonir við að tillögurnar fari í þann farveg að fara í formlegt samtal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.