30.4.2019 -Aðalfundur fundargerð

Aðalfundur Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna

Aðalfundur 30. apríl 2019

Fundargerð.

Fundurinn var haldinn í salarkynnum Félags eldri borgara, Stangarhyl 4. Var boðið upp á fjarfundabúnað fyrir fjarstadda leiðsögumenn eins og gert hefur verið undanfarin ár. Fundurinn hófst kl. 20.

1. Setning, kosning fundarstjóra og fundarritara.

Indriði H. Þorláksson, formaður Leiðsagnar bauð fundarmenn velkomna, setti fundinn og flutti stutt ávarp þar sem hann tilkynnti fundargestum að hann myndi ekki sækjast eftir áframhaldandi formennsku. Þá bar hann upp tillögu um Jakob S. Jónsson sem fundarstjóra og var hann kjörinn með lófataki. Jakob þakkaði traustið og tók við fundarstjórn.

Fundarstjóri bar upp tillögu um Sigríði Guðmundsdóttur, ritara Leiðsagnar, sem fundaritara og var hún samþykkt. Þá kynnti fundarstjóri Valdimar Leó framkvæmdastjóra Leiðsagnar fyrir félagsmönnum og greindi frá að hann hefði hafið störf fyrir félagið í nóvember s.l. Fundarstjóri lagði til að Valdimar Leó yrði varafundarstjóri þar sem fundarstjóri hyggðist víkja sæti vegna eigin framboðs í trúnaðarstöður Leiðsagnar og var engin athugasemd gerð við það. Fundarstjóri bar undir fundargesti hvort löglega hefði verið til fundarins boðið; var gerð grein fyrir fundarboði, sem hafði farið fram samkvæmt lögum félagsins og samþykktu fundarmenn að löglega hefði verið til fundarins boðið.

Lögð voru fram tvö erindi undir liðnum önnur mál, ályktun frá Borgþóri Kjærnested og skýrsla um raunfærnimat sem Marta B. Helgadóttir tók að sér að kynna fyrir hönd Fagdeildar Leiðsagnar.

2 Skýrslur um störf félagsins á liðnu starfsári.

2.1 Formaður Leiðsagnar, Indriði H. Þorláksson, bar fram skýrslu stjórnar. Sjá má skýrsluna í viðhengi við þessa fundargerð.

2.2 Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu. Framkvæmdastjóri fór yfir helstu kennitölur reikninga félagsins, sem og sjúkra- og endurmenntunarsjóðs. Sjá má endurskoðaða reikninga félagsins í viðhengi við skýrslu þessa.
Fundarstjóri þakkaði formanni og framkvæmdastjóra og opnaði fyrir umræðu.

Bryndís Kristjánsdóttir spurði hver er skipting félagsgjalda milli Leiðsagnar og fagdeildar leiðsögumanna.
Formaður svaraði því til að skipting milli verkefna Leiðsagnar og fagdeildar, væri skv. gildandi lögum Leiðsagnar og að ekki gengið frá neinum frekari tillögum á síðasta aðalfundi. Nú væri gert ráð fyrir að leggja fram tillögu um nákvæmari tilhögun þeirrar skipingar og yrði rætt betur síðar þegar tillagan um lagabreytingu yrði borin fram. Formaður ítrekaði að umsýsla fagdeildar væri á höndum skrifstofu Leiðsagnar.

Í skýrslu stjórnar kom fram að fagdeild kínverskumælandi leiðsögumanna hefði verið stofnuð á árinu og spurði Lovísa Birgisdóttir úr hvaða skóla kínverskumælandi leiðsögumenn koma.
Formaður svaraði því að ekki lægi fyrir, svo hann vissi til, hvaða menntun þeir hafa. Félag leiðsögumanna væri opið öllum sem starfa við leiðsögn, ekki sett skilyrði um menntun og undir vinnuveitendum komið hvort menntunar er krafist eða ekki. Skv. Lögum félagsins hafa allir sem starfa við leiðsögn rétt til að vera í stéttarfélaginu. Formaður áréttaði að lögum hafi verið breytt aðalfundi 2017.

Þóra Ragnheiður Björnsdóttir spurði hver væri munurinn á fagdeild og Leiðsögn.
Formaður svaraði því til að uppbygging félagsins væri sú að þetta sé eitt félag með eina kennitölu og aðild að því geta átt allir þeir sem vinna að leiðsögn á Islandi. Innan félagsins megi stofna fagdeildir. Þegar lögunum var breytt 2017 var fagdeild faglærðra leiðsögumunna stofnuð og er það er undir hinum einstöku fagdeildum komið hvaða skilyrði þær setja sér.

Pétur Gunnarsson, spurði af hverju framkvæmdastjóri hefði verið ráðinn til félagsins og hvað það kostaði.
Formaður svaraði því til að stjórn Leiðsagnar hafi ákveðið um mitt síðasta ár að breyta fyrirkomulagi á skrifstofunni. Fyrir hafi verið tveir starfsmenn. Framkvæmdir ákvarðana stjórnar voru áður í höndum formanns eða stjórnar og var því ákveðið að ráða til starfa mann sem tæki að sér framkvæmd verkefna. Leitað var til ráðningaskrifstofu. Stjórn átti viðtal við fimm aðila og valdi Valdimar til starfsins. Launin voru ákveðin með hliðsjón af samningi VR og hliðstæðum störfum.

Sigurður Albert Alfreðsson steig í pontu, færði fráfarandi formanni þakkir fyrir vel unnin störf og ræddi vítt og breytt um skýrslu stjórnar. Nokkrum fundargestum fannst ekki fara vel á því og töldu Sigurð Albert vera að halda framboðsræðu. Fundarstjóri áréttaði að þarna væri vettvangur fyrir umræður, fyrirspurnir og athugasemdir.

Hanna Carlotta Jónsdsdóttir steig þvínæst í pontu og kom með nokkrar athugasemdir um skýrslu stjórnar, stöðu félagsins og fjármál. Hún taldi ekki vera eðlilega skiptingu á milli þeirra sem greiða í fagdeild og stéttarfélag og að fagdeild fengi ekki umráð yfir fagdeildargjöldum. Hún gerði einnig athugasemd við stofnun kínverskumælandi fagdeild og hversu opin skilyrðin væru. Hún ræddi stuttlega um mismunandi merki félagsins, þ.e. gamla merkið sem nú tilheyrir fagdeild og hið nýja merki stéttarfélagsins Leiðsagnar. Hún taldi vera misræmi í lögum félagsins varðandi notkun merkjanna. Að lokum minntist hún á að bagalegt hefði verið að tveir stjórnarmeðlimir hefðu horfið frá störfum á miðju starfstímabili án þess að almennum félagsmönnum væri tilkynnt um það og einnig að ekki hefði verið tilkynnt um fyrirhugaða ráðningu framkvæmdastjóra, fyrr en eftir ráðningu hans.

Fundarstjóri gaf leyfi fyrir því að Bryndís Kristjánsdóttir varpaði fram spurningu áður en stjórn tæki til svara og var hún svohljóðandi: Þeir sem óska inngöngu í fagdeildina, t.d. nýútskrifaðir. Vandamál við inngöngu. Þarf að fylla út tvær umsóknir. Fær stjórn fagdeildar umsóknirnar til að meta hvort fólk geti gengið í fagdeild?

Formaður svaraði spurningu Bryndísar með vísun í heimasíðu Leiðsagnar, þar sem er að finna eitt umsóknareyðublað þar sem menn haka við ef þeir óska þess að vera í fagdeild og að ákvörðun um hverjir fá inngöngu í fagdeild sé í höndum stjórnar viðkomandi fagdeildar. Einnig ítrekaði hann að leiðsögustarfið sé margþætt og grundvöllur í lögum félagsins sé sá að fagdeidir skuli stofnaðar af þeim sem telja sig hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta innan félagsins.

Formaður svaraði einnig athugasemdum Hönnu Carlottu og benti á að tekjur af almennum félagsgjöldum nærri því að vera tveir þriðju hlutar tekna félagsins, sem væri þónokkur breyting frá því sem áður var og hluti félagsmanna sem standa utan fagdeildar fari vaxandi með hverju árinu.

Formaður benti á að engin ákvæði í lögum félagsins um varamenn, þannig að þegar sú staða kom upp að tveir stjórnarmenn sögðu sig frá störfum, var ekki hægt að bregðast við með öðrum hætti en að halda áfram með þeim sem eftir voru. Formaður benti á að ein þeirra lagabreytinga sem liggja fyrir fundinum muni taka á þessu, þ.e. er að kosnir verði tveir varamenn í stað þeirra sem ekki komast á fund. Formaður sagði einnig að varðandi merkin tvö, væri annars vegar um nýtt merki Stéttarfélagsins Leiðsagnar að ræða og svo merki fagdeildar sem væri borið af þeim sem til þess hafa uppfyllt skilyrði fagdeildar.

Auður Herdís Sigurðardóttir spurði hver laun framkvæmdastjóra væru og hvað stjórnin áætlaði að það leiddi til mikillar hækkunar yfir árið og var henni svarað að það kæmi fram í liðnum drög að fjárhagsáætlun

Að síðustu tók Vilborg Anna til máls og útskýrði að merkin tvö hefðu ólíkan tilgang. Nýja merkið væri merki stéttarfélagsins og að á næstu mánuðum yrðu stéttarfélagsskírteini tilbúin. Vilborg Anna kom því einnig á framfæri að hún hefði ekki talið sér skylt að tilkynna einum né neinum frá afsögn sinni úr stjórn, hún hefði talið slíka tilkynningu mál formanns og stjórnar.

Að umræðu lokinni var skýrsla stjórnar borin undir fundargesti til samþykktar sem gekk eftir með einu mótatkvæði.

Næst tóku við umræður um reikninga félagsins.

Júlía Hannam bað um útskýringar á því af hverju svo mikil hækkun væri á styrkjum vegna námskeiða Endurmenntunarsjóðs milli ára. Henni var svarað að það kæmi til vegna hækkunar á styrkfjárhæð og mikillar aukningu umsókna og að greitt væri samkvæmt reglum Endurmenntunarsjóðs.

Harpa Björnsdóttir kom með ábendingu um framkvæmd og útfærslu ársreiknings. Hún mæltist til þess að stjórn tæki til skoðunar sundurliðun launaliða á næsta ári.

Bergsteinn Harðarson spurði hvort að félagið veitti gleraugnastyrk og var svarað af stjórn að svo væri.

Kristján Kristjánsson kom með athugasemd um prentvillu í ártali á síðu tvö í ársreikningum, undirritun skoðunarmanna, þar sem stæði 2017 í stað 2018.

Að umræðum loknum bar fundarstjóri reikninga félagsins undir félagsfund og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.

3 Tillögur um lagabreytingar.

3.1. Formaður kynnti tillögur til lagabreytinga, sem áður höfðu verið kynntar á heimasíðu félagsins.

Formaður kynnti að auki eftirfarandi viðbótarlagabreytingu sem lögð var fram á fundinum, en henni var hafnað þar sem tímarammi kynningar var ekki virtur.

Við 21. grein bætist svohljóðandi málsgrein:
Atkvæðarétt og kjörgengi á aðalfundi hafa þeir sem eru félagar í Leiðsögn í lok síðasta heils almanaksmánaðar, fjórum vikum fyrir boðaðan aðalfund og uppfylla aðildarskilyrði skv. 3. og 4. gr. með þeim takmörkunum sem þar greinir.

Eftirfarandi lagabreytingar höfðu verið kynntar samkvæmt lögum félagsins og fengu því umfjöllun á fundinum.

I. Þriðja málsgrein 3. greinar orðist svo:
Þeir sem hafa verið félagsmenn óslitið í 3 ár áður en þeir láta af störfum við leiðsögn geta verið félagsmenn áfram gegn greiðslu lágmarksfélagsgjalds skv. 6. gr. og átt aðild að fagdeildum félagsins gegn greiðslu fagdeildargjaldsins. Þeir eru án atkvæðisréttar um kjarasamninga. Fagdeildargjaldið má lækka um helming þegar félagsmaður nær 67 ára aldri. Þessi lagabreyting var samþykkt mótatkvæðalaus.

II. Fyrri málsgrein 12. greinar verði svohljóðandi:
Stjórn félagsins skal skipuð sjö aðalmönnum, formanni og sex öðrum, auk tveggja varamanna, kosnum á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn, en aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til þriggja ára - tveir í senn. Varamenn eru kosnir til eins árs. Stjórn kýs félaginu varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta fundi eftir aðalfund.

III. 18. grein verði svohljóðandi:
18. gr. Fastanefndir
Innan félagsins starfa tvær fastanefndir, fræðslu- og kynninganefnd og fagráð, hvor skipuð fimm félagsmönnum. Einn nefndarmaður skal tilnefndur af stjórn en fjórir skulu kosnir til tveggja ára í senn á aðalfundi. Nefndirnar kjósa sér formann og skipta með sér verkum.

Fræðslu- og kynninganefnd annast fræðslustarfsemi fyrir leiðsögumenn, efnir til fræðslufunda og kynnisferða fyrir þá og birtir fræðsluefni og hagnýtar upplýsingar á heimasíðu félagsins.

Fagráð vinnur að stefnumótun í menntunar- og réttindamálum leiðsögunmanna og, kemur afstöðu félagsins í þeim á framfæri. Það annast samstarf við skóla sem kenna leiðsögn ferðamanna og annast skipulagningu námskeiða fyrir félagsmenn og fer með málefni sem varða starfsþjálfun og hefur umsjón með raunfærnimati.

Nefndir þessar starfa í nánu samstarfi við stjórn Leiðsagnar og skilar henni yfirliti yfir starf sitt svo oft sem þurfa þykir.

Ákvæði til bráðabirgða: Fyrst skal kosið skv. grein þessari á aðalfundi 2019 og skulu þá kosnir tveir fulltrúar til eins árs og tveir til tveggja ára.

IV. Á 22. grein verði þessi breyting:
Í 6. tölulið komi orðið fastanefndir í stað orðanna “fræðslu- og skólanefnd”

V. Þriðja málsgrein 29. greinar verði svohljóðandi:
Til þess að lagabreytingar nái fram að ganga skulu þær hljóta samþykki 2/3 hluta gildra atkvæða.

Af fimm lagabreytingum, kom fram frávísunartillaga á þriðju og fjórðu, 18. Og 22. grein og var frávísunartillaga samþykkt með tveggja atkvæða mun 21-19.

Aðrar lagabreytingar voru samþykktar skv. tillögu stjórnar með þorra atkvæða, mótatkvæðalaust.

Nokkrar athugasemdir komu frá félagsmönnum varðandi tillögur að lagabreytingum. Sigrún Ragnheiður Ragnarsdóttir sagði starf skólanefndarhlutans lítið, ekki mikið samstarf við skólanefnd MK og ekki boðað á fundi. Við raunfærnimatsvinnu á liðnu sumri hafi verið haldnir tveir fundir með nefndinni. Hún gerði athugasemd við að lagabreytingar skuli lagðar fram án nokkur samráðs við nefndarmenn og lagði fram frávísunartillögu, sem eins og fyrr segir var samþykkt. Formaður svaraði því til að fræðslu- skólanefnd hafi unnið skýrslu um menntun leiðsögumanna, sem sé bæði mikilvægt og merkilegt plagg. Það eitt út af fyrir sig sýni þörf á áframhaldandi vinnu. Formaður sagði einnig að lagabreytingar hafi verið lagðar undir formann nefndarinnar Tryggva Jakobsson. Sigrún dró það í efa en formaður sagði segir ekki, tölvupósta liggja fyrir því til sönnunar og að Tryggvi Jakobsson hafi mælti stranglega með þessum breytingum.

Vilborg Anna Björnsdóttir ræddi aðeins um gr. 2. Fyrir nokkrum árum hafi verið kosnir varamenn, síðar talið óþarft og breytt breytt fyrir 4-5 árum. Þessi breyting hafi þótt góð og til bóta. Vilborg taldi kosningu varamann ekki samræmast lögum félagsins, þ.e. gildandi lögum, eða gildandi lögum eftir að fundi er lokið? Aðalfundur hefur alltaf æðsta vald, Vilborg Anna áréttaði það og spyr félagsmenn sem samsinna. Bryndís Kristjánsdóttir tók undir með Vilborgu Önnu og reifaði einnig ástæður fyrri breytinga. Vilborg Anna taldi að ekki væri mögulegt að kjósa varamenn inn fyrr en að ári.

Guðjón Jensson spurði í því samhengi hvenær lagabreyting ætti að taka gildi. Lagabreyting er á undan kosningu, meðan enginn fyrirvari er á gildistíma breytingar, hlýtur að eiga að kjósa eftir þeirri breytingu sem orðin er. Vísar í að þetta tíðkist í félagarétti.

Indriði kom með athugasemd varðandi þetta athugasemd Guðjóns. Aðalfundur hefði ákvörðunarvald og ef ekki væru í lögum félagsins ákvæði sem skilyrða gildistöku lagabreytinga taki þær gildi á aðalfundi, sbr. dæmi af fyrri fundum. Ekkert ákvæði sem mælir mót þessu og ASÍ gerir enga athugasemd við þetta, þ.e. að lagabreytingar öðlist þegar gildi.

Fundarstjóri áréttaði að aðalfundur réði hvernig kosið skyldi í stjórn

Fundarstjóri lagði til að yrði tillagan samþykkt yrði kosið samkvæmt henni. Var breytingin samþykkt 37-4 og því var kosið skv. breytingu síðar á fundinum.

Vilborg Anna minnist í þessum umræðum einnig á starf fagdeilda. Öll stjórn fagdeildar leiðsögumanna hefði sagði af sér fyrir skemmstu og væri allt í uppnámi hvað það varðar. Hún lýsti áhyggjum af því að starf nefnda minnki og að hún teldi mikilvægt að fleiri hafi þræði í hendi sér.

Þórey Anna Matthíasdóttir tók til máls og bað fólk sem gefur kost á sér í abyrgðarstöðu fyrir Leiðsögn að sinna störfum sínum og hvatti fólk einnig til samstöðu.

Spurt var hvort fagdeild ynni sé með menntamálaráðuneytinu? Að lokum gerði Marta B. Helgadóttir athugasemd við umræðu fundarins, þar sem fjöldi fyrirspurna beindist að efni fyrirhugaðs erindis hennar um starf fagdeildar og raunfærnimat og hún hefði ekki enn fengið tækifæri til að leggja það fyrir fundinn.

Fundarstjóri lýsti því yfir að lagabreytingum væri lokið. Í framhaldi fékk Marta B. Helgadóttir, fulltrúi fagdeildar að gera stuttlega grein fyrir starfi fagdeildar.

4 Drög að fjárhagsáætlun lögð fram og tillaga um félagsgjald og fagdeildargjald.

4.1 Fráfarandi formaður gerði gerir grein fyrir tillögu um fagdeildar- og félagsgjöld.
Fráfarandi formaður gerði gerir grein fyrir tillögu um fagdeildar- og félagsgjöl sbr. fylgiskjal. Lagt var til að fagdeildargjöld yrðu kr. 9000 fyrir árið 2020 og þau væru enn þriðjungur af heildartekjum. Vinna vegna fagdeildar væri umfangsmikil á skrifstofu. Einnig var lagt til að fagdeildir fái ¼ hluta gjalda til eigin ráðstöfunar og ákvarðanir um nýtingu fjármuna verði ákveðnar af fagdeild en fjárhagsleg umsýsla hjá félaginu.

4.2 Framkvæmdastjori gerir grein fyrir fjárhagsáætlun.
Tillaga um fjárhagsáætlun fyrir 2019, sbr. fylgiskjal. Fráfarandi formaður vakti athygli á nýjum lið, lögfræðikostnaði, sem tengdist vinnustaðaeftirliti, framkvæmd kjarasamninga og úrvinnslu á vangreiddum launakröfum sem liggja fyrir.

Báðir liðir voru bornir undir atkvæði aðalfundar. Voru 41 meðmæltir og eitt mótatkvæði.

5 Kosning formanns Leiðsagnar eða lýsing formannskjörs.

Fundarstjóri, Jakob S. Jónsson, vék sæti þar sem hann var í farmboði í trúnaðarstöður og Valdimar Leó tók við fundarstjórn.

Aðeins Pétur Gauti Valgeirsson hafði boðið sig fram í embætti formanns Leiðagnar og var því sjálfkjörinn formaður við dynjandi lófaklapp.

6 Kosning til stjórnar og trúnaðarráðs og kosning fulltrúa í fræðslu- og skólanefnd og aðrar trúnaðarstöður.

Á fundinum kom fram nýtt framboð til stjórnar til viðbótar þeim sem áður höfðu verið auglýst á heimasíðu félagsins og samræmist það lögum félagsins. Vilborg Anna Björnsdóttir tilkynnti að hún gæfi kost á sér til stjórnarsetu.

Nokkur æsingur varð þegar ganga átti til kosninga og frambjóðendur sem ekki höfðu haft tækifæri til að kynna sig lýstu óánægju sinni. Ritara varð það á að grípa inn í starf fundarstjóra og hlutast til um kynningar frambjóðenda. Ritara var bent á það af fundarstjóra að þetta væri ekki við hæfi og lét eftir það alla tilburði til fundarstjórnar vera.

Þeir frambjóðendur til stjórnar sem viðstaddir voru fundinn fengu í framhaldi tækifæri til að kynna sig og stefnumál sín. Að því loknu var gengið til kosninga.

Í kjöri til stjórnar voru:
Eiríkur Hreinn Helgason
Guðný Margrét Emilsdóttir
Indriði H. Þorláksson
Jakob S. Jónsson
Óskar G. Kristjánsson
Sigurður Albert Alfreðsson
Svanbjörg H. Einarsdóttir
Vilborg Anna Björnsdóttir
Þorsteinn Svavar McKinstry

Atkvæði voru talin og niðurstaða var sú að 43 atkvæði voru gild, tvö ógild og skiptust atkvæði á eftirfarandi hátt:
Þorsteinn Svavar McKinstry 32 atkvæði, Vilborg Anna Björnsdóttir 30 atkvæði, Guðný Margrét Emilsdóttir 25 atkvæði, Indriði H. Þorláksson 23 atkvæði, Svanbjörg H. Einarsdóttir 22 atkvæði, Óskar G. Kristjánsson 15 atkvæði, Eiríkur Hreinn Helgason 12 atkvæði, Jakob S. Jónsson 9 atkvæði, Sigurður Albert Alfreðsson 4 atkvæði.

Kosingu í stjórn var lokið og skipað í stöður aðal- og varamanna eftir atkvæðafjölda.

Kosningu hlutu Þorsteinn Svavar McKinstry og Vilborg Anna Björnsdóttir, sem aðalmenn í stjórn til þriggja ára, Guðný Margrét Emilsdóttir, aðalmaður í stjórn til tveggja ára, aðalmaður í stjórn til eins árs Indriði H. Þorláksson og varamenn til eins árs voru kosin Svanbjörg H. Einarsdóttir og Óskar G. Kristjánsson.

Þar næst var gengið til kosninga til trúnaðarráðs. Kjósa þurfti í sex sæti aðalmanna og sex sæti varamanna. Framboð voru jafnmörg sætum og því sjálfkjörið í trúnaðarráð. Var trúnaðarráðmönnum falið það af aðalfundi að skipa sér sjálf í stöðu aðal- og varamanna.

Birna Imsland
Bjarni Sigtryggsson
Bryndís Kristjánsdóttir
Eiríkur Hreinn Helgason
Elísabet Brand
Hlíf Ingibjörnsdóttir
Jakob S. Jónsson
Júlíus Freyr Theodórsson
Kári Jónasson
Örvar Már Kristinsson
Valva Árnadóttir
Þórey Anna Matthíasdóttir, varamaður

Næst kom að kosningu fulltrúa í Fræðslu- og skólanefnd og var þar sami háttur hafður á og með trúnaðarráð, sjálfkjörið í nefnd. Eftirfarandi félagsmenn fengu kosningu.

Guðný Margrét Emilsdóttir
Lovísa Birgisdóttir
Petrína Rós Karlsdóttir
Sigrún Ragnarsdóttir
Tryggvi Jakobsson

7 Kosning tveggja félagsjörinna skoðunarmanna reikninga til tveggja ára.

Að síðustu var kosið um skoðunarmenn reikninga og þar voru einungis tvö framboð í tvær stöður og voru því samþykktir mótatkvæðalaust.

Bergur B. Álfþórsson
Snorri Ingason

8 Önnur mál

Ályktun frá Borgþóri Kjærnested, sbr. meðfylgjandi skjal, var borin undar fundarmenn og samþykkt með þorra atkvæða mótatkvæðalaust.

Guðrún Helga Sigurðardóttir tók til máls og lagði fram spurningu til stjórnar varðandi erindi sem hún sendi í vetur, vegna ummæla ferðamálaráðherra í vetur s.l. Guðrún Helga hafði lagt það til við stjórn að hún bæði um fund leiðsögumanna með ráðherra ferðmála. Guðrún Helga sagði sér ekki hafa borist neitt svar og innti eftir svörum um leið og hún ítrekaði ósk sína um fund leiðsögumanna með ráðherra.
Fráfarandi formaður, Indriði H. Þorláksson, svaraði fyrir hönd fyrrvenndi stjórnar. Hann sagði það stjórn ekki til hróss að málið hefði ekki verið afgreitt, en að hann taldi ekki miklar líkur á því að hægt sé að fá ráðherra til fundarhalda af þessum toga, eða ef svo væri þyrfti að afmarka málið frekar. Eðlilegt að ný stjórn taki á málinu og taki ákvörðun í framhaldinu.

Guðrún Helga sagðist ekki telja að það sé ekki hlutverk Leiðsagnar að ákveða hvort slíkur fundur sé mögulegur og ítrekar að Leiðsögn, sem stéttarfélag leiðsögumanna, leiti svara hjá ráðherra og krefji svara og fái umræðu.

Guðjón Jensson steig því næst í pontu og rakti fyrir fundarmönnum hvernig sjúkrasjóður Leiðsagnar hafi reynst honum haldreipi þegar hann átti í erfiðum veikindum og færði sjóðnum og félaginu kærar þakkir sínar.

Bergsteinn Harðarson tók til máls og greindi frá því að öll stjórn fagdeildar leiðsögumanna hefði sagt af sér og hefðu það verið viðbrögðum vegna svara sem þau fengu frá frá stjórn Leiðsagnar vegna vinnu fagdeildar við raunfærnimat.

Örvar Már Kristinsson bætti örstutt inn undir lok fundar að Guðrún Helga Sigurðardóttir hafi fyrir nokkrum árum komið með tillögu um könnun á menntun leiðsögumanna. Örvar sagðist telja að tími væri kominn til að gera slíka könnun aftur. Nauðsynlegt sé að gera þetta reglulega og síðasta könnun hafi verið gerð í samstarfi við Háskólann á Hólum.

Sigurður Albert Alfreðsson kom einnig í pontu og lýsti yfir megnri óánægju með framkomu sumra fundargesta í sinn garð, sagði þá ráðast opinberlega á fólk og sýna því óvirðingu, með því að virða ekki fundarsköp og mannasiði.

Pétur Gauti Valgeirsson, nýkjörinn formaður Stéttarfélagsins Leiðsagnar, kom að síðustu í fundarstól og flutti örstutta ræðu þar sem hann lagði aðaláherslu á að við leiðsögumenn værum ímynd Íslands og framundan væri verk fyrir okkur að vinna. Að því loknu sleit hann aðalfundi.

Fundi slitið 23:59
Fundarritari Sigríður Guðmundsdóttir