Aðalfundur Leiðsagnar 2018

Leiðsögn – Stéttarfélag leiðsögumanna

Aðalfundur 12. Apríl 2018

Fundargerð

Fundurinn var haldinn í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6 og var boðið upp á fjarfundabúnað fyrir fjarstadda leiðsögumenn; Aðeins ein ósk hafði þó borist fyrir fundin um afnot fjarfundarbúnaðar.

Fundurinn hófst kl. 19:30.

1. Setning, kosning fundarstjóra og fundarritara.
Indriði H. Þorláksson, formaður Leiðsagnar bauð fundarmenn velkomna og setti fundinn. Þá bar hann upp tillögu um Jakob S. Jónsson sem fundarstjóra og var hann kjörinn með lófataki. Jakob þakkaði traustið og tók við fundarstjórn.

Fundarstjóri bar upp tillögu um Þorstein S. McKinstry sem fundaritara og var hún samþykkt með lófataki. Þá tilkynnti fundarstjóri að hann bæði Tryggva Jakobsson um að vera varafundarstjóri ef kæmi til þess að fundarstjóri þyrfti að víkja úr sæti og var engin athugasemd gerð við það.

Fundarstjóri benti á að dagskrá þessa aðalfundar væri viðamikil og bað fundarmenn að taka tillit til þess til að tryggja góðan árangur fundarins. Hann bar þvínæst upp spurningu um hvort löglega hefði verið boðað til fundarins; var gerð grein fyrir fundarboði, sem farið hafði fram samkvæmt lögum félagsins og var samþykkt að löglega hefði verið til fundarins boðað.

Fundarstjóri kynnti dagskrárlið utan dagskrár, sem var minning látinna félaga. Formaður Leiðsagnar minntist látinna félaga, þeirra Kristbjargar Þórhallsdóttur heiðursfélaga FL og Björgúlfs Ólafssonar.

2. Skýrslur um störf félagsins á liðnu starfsári.
2.1. Formaður Leiðsagnar, Indriði H. Þorláksson, bar fram skýrslu stjórnar; í lok framsögu sinnar færði Indriði sérstakar þakkir til þeirra stjórnarmanna sem ganga úr stjórn og öðrum stjórnarmönnum fyrir vel unnin störf á árinu. Skýrslan er viðhengi við þessa fundargerð.
2.2. Formaður Fræðslu- og skólanefndar, Tryggvi Jakobsson, bar fram skýrslu nefndarinnar. Skýrslan er viðhengi við þessa fundargerð.
2.3. Formaður Kjaranefndar, Jakob S. Jónsson, bar fram skýrslu nefndarinnar. Skýrslan er viðhengi við þessa fundargerð. Fundarstjóri tók aftur við fundarstjórn að lokinni skýrslugjöf og þakkaði Tryggva Jakobssyni.
2.4. Skýrsla stjórnar og skýrslur Fræðslu- og skólanefndar og Kjaranefndar voru bornar upp til samþykktar og voru samþykktar einróma með lófataki.

3. Nýtt félagsmerki, kynning.
Formaður bað fundarmenn samþykkja afbrigði frá dagskrá, svo unnt væri að taka 10. lið til umfjöllunar þegar í stað, en aðrir liðir myndu færast til í dagskrá samkvæmt því. Var það samþykkt mótatkvæðalaust.

Vilborg Anna Björnsdóttir kynnti nýtt merki Leiðsagnar. Umræður urðu nokkrar; til máls tóku Sólveig Lind Ásgeirsdóttir, Indriði H. Þorláksson, Börkur Hrólfsson og Valva Árnadóttir og var athugasemdum þeirra og fyrirspurnum svarað jafnóðum. Nýtt merki Leiðsagnar – stéttarfélags leiðsögumanna verður nú lagað að ýmissi notkun og verður það verkferli í umsjá stjórnar.

4. Reikningar félagsins.
4.1. Gjaldkeri Leiðsagnar, Júlía Hannam, kynnti Ársreikninga félagsins reikninga Endurmenntunarsjóðs og reikninga Sjúkrasjóðs. Engar fyrirspurnir urðu að lokinni framsögu um reikninga félagins og reikninga endurmenntunarsjóðs, en Borgþór Kærnested gerði nokkrar athugasemdir varðandi rétt félaga sem hætt hafa starfi en ættu áfram rétt til styrkja úr sjúkrasjóði. Hann kallaði eftir endurskoðun á réttindum; formaður Leiðsagnar varð til svara og benti á að væntanlegar lagabreytingar um sjóði myndu koma til móts við athugasemdir Borgþórs.
4.2. Reikningar félagsins, reikningar Endurmenntunarsjóðs og reikningar Sjúkrasjóðs voru þvínæst bornir upp til samþykktar og voru þeir samþykktir með öllum greiddum atkvæðum, mótatkvæðalaust.

Var nú gert 20 mínútna kaffihlé og fundarmenn nutu glæsilegra veitinga í boði félagins.

5. Tillögur um lagabreytingar.
5.1. Formaður kynnti tillögur til lagabreytinga, sem áður höfðu verið kynntar á heimasíðu félagsins (sjá viðhengi).
5.2. Lagabreytingar samþykktar skv. tillögu stjórnar með þorra atkvæða, mótatkvæðalaust.

6. Tillögur til breytinga á reglugerðum sjóða félagsins.
6.1. Kynntar voru tillögur til breytinga á reglugerð um Sjúkrasjóð. Umræður.
6.2. Tillögur um breytingar á reglugerð á Sjúkrasjóð bornar upp til samþykktar. Samþykktar með þorra atkvæða, mótatkvæðalaust.
6.3. Kynntar voru tillögur til breytinga á reglugerð um Endurmenntunarsjóð. Umræður.
6.4. Tillögur um breytingar á reglugerð á Endurmenntunarsjóð bornar upp til samþykktar. Samþykktar með þorra atkvæða, mótatkvæðalaust.

7. Drög að fjárhagsáætlun og tillaga um félagsgjald og fagdeildargjald
7.1. Gjaldkeri mælti fyrir tillögu um fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár.
7.2. Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár borin upp til samþykktar og samþykkt með þorra atkvæða, mótatkvæðalaust.

Ekki lágu fyrir tillögur um breytingar á félagsgjaldi eða breytingar á fagdeildargjaldi.

8. Kosning fulltrúa í stjórn
8.1. Lýsing framboðs. Fundarstjóri lýsti því yfir að fjögur framboð hefðu borist til stjórnar og að kosið yrði, þar sem einungis skyldi kosið í þau tvö sæti í stjórn sem losna að loknu kjörtímabili Júlíu Hannam og Kára Jónassonar.

Kosið var um tvö sæti í stjórn leynilegri kosningu.

8.2. Kosningu hlutu Helga Snævarr Kristjánsdóttir og Rósa Margrét Sigursteinsdóttir.

9. Kosning 6 aðalmanna og 6 varamanna í trúnaðarráð.
9.1. Lýsing framboðs. Fundarstjóri lýsti því yfir að 17 framboð hefðu borist til til trúnaðarráðs; þó félli burt nafn Rósu Margrétar Sigursteinsdóttur, enda hefði hún hlotið kjör til stjórnar og ætti því sjálfkrafa sæti í Trúnaðarráði. Eftir stæðu 16 framboð, sem kjörið yrði um leynilegri kosningu, fyrst um sex sæti aðalmanna, síðan um sex sæti varamanna.

Var nú frambjóðendum gefinn kostur á að kynna sig stuttlega, atkvæðaseðlum dreift og þvínæst kosið um 6 sæti aðalmanna í Trúnaðarráði.

9.2. Kosningu hlutu Elísabet Brand, Guðný Margrét Emilsdóttir, Jakob S. Jónsson, Kári Jónasson, Marta B. Helgadóttir og Sigrún Stefánsdóttir.

9.3. Kosið um 6 varamenn í Trúnaðarráð.

9.4. Kosningu hlutu Bjarni Sigtryggsson, Hlíf Ingibjörnsdóttir, Júlíus Freyr Theodórsson, Ólöf Erna Adamsdóttir, Valva Árnadóttir og Þórey Anna Matthíasdóttir.

10. Stofnun fagdeilda. Formaður kynnti stofnreglur Fagdeildar almennrar leiðsagnar, tilgang hennar og hlutverk. Þakkaði hann starfshópnum, sem samið hafði reglurnar fyrir gott starf hans og tilkynnti að fljótlega yrði boðaður stofnfundur Fagdeildar almennrar leiðsagnar í samræmi við hinar nýju reglur. Þá tók hann fram að vænta mætti þess að stofnaðar yrðu fleiri fagdeildir í samræmi við að gerðir leiðsagnar væru nú orðnar margvíslegar og mismunandi og að eðlilegt væri að leiðsögumenn tækju á kjörum sínum og faglegu málum í samræmi við það. Allar myndu þó fagdeildirnar starfa undir merkjum Leiðsagnar, sem væri sameiginlegur vettvangur allra leiðsögumanna.

11. Önnur mál.
Steinar Frímannsson ræddi um raunfærnimat og hæfni leiðsögumanna og réttindi. Var máli hans vísað til stjórnar.

Kári Jónasson bar upp tillögu til ályktunar um öryggis-, gæða- og verndunarmál, sem og um önnur hagsmunamál leiðsögumanna og ferðaþjónustu á Íslandi. Var ályktunin samþykkt með þorra greiddra atkvæða, mótatkvæðalaust.

Rósa Margrét Sigursteinsdóttir nefndi að Leiðsögn ætti að hafa fjölmiðlafulltrúa. Þá ræddi hún öryggismál í rútum og urðu nokkrar umræður útfrá máli hennar.

Lovísa Birgisdóttir gerði eineltis- og öryggismál að umræðu; þá ræddi hún einnig að bregðast þyrfti við flóði erlendra leiðsögumanna og koma í veg fyrir að erlendir leiðsögumenn tækju störf frá innlendum, menntuðum leiðsögumönnum. Var erindi hennar vísað til stjórnar.

12. Fundarslit.
Formaður þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og fráfarandi stjórnarmönnum þeirra störf í þágu félagsins um leið og hann bauð nýja trúnaðarmenn velkomna til starfa.
Formaður sleit fundi 23:45.

Fundarritari:
Þorsteinn Svavar McKinstry.