29.8.2018 - Stjórnarfundur

Stjórnarfundur Leiðsagnar - Stórhöfða 25.
29.8. 2018 kl. 14:00 - 15:30.

1. Átta sjúkrasjóðsumsóknir teknar fyrir, samþykktar og afgreiddar. Fjórar umsóknir úr Endurmenntunarsjóði teknar fyrir, einni synjað og þremur frestað.

2. Samþykkt að ítreka erindi til eftirlitsaðila um helstu reglur um starfsemi erlendra aðila á Íslandi og skilning Leiðagnar á lögum og reglum þar að lútandi.

3. Leiðsögn hefur áhuga á að styrkja aðild Leiðsagnar að vinnustaðaeftirliti á höfuðborgarsvæðinu og koma á formlegu samstarfi við önnur verkalýðsfélög, t.d. Eflingu og Starfsgreinasambandið, þar að lútandi. Einnig hefur verið rætt um að koma á formlegu samstarfi um vinnustaðaeftirlit með verkalýðsfélögum á Suðurlandi. Þessum umleitunum hefur verið vel tekið og er málið sett í farveg.

4. Stefnt er að því að undirbúa fund um skýrslu starfshóps um menntun leiðsögumanna fyrir almennum félagsmönnum í október og er hugmyndin að hafa morgunmálþing. Stjórn samþykkir áframhaldandi undirbúningsvinnu.

5. Samþykkt að boða til trúnaðarráðsfundar í september. Formanni falið að undirbúa hann ásamt starfsfólki skrifstofu.
a. Samþykkt að leggja fyrir fundinn að skipa viðræðunefnd fyrir komandi kjarasamninga, sem myndi vinna að sjálfri samningagerðinni í umboði stjórnar og félagsins.
b. Samþykkt var að félagið komi upp vinnuaðstöðu viðræðunefndar í húsnæði félagsins.

6. Stjórn fer þess á leit að fagdeild um almenna leiðsögn setji sér almennar matsreglur um menntun og starfsreynslu þeirra sem ekki hafa lokið námi úr skólum sem fagdeild viðurkennir og sækja um inngöngu í deildina.

7. Umsókn um stofnun fagdeildar mandarínmælandi leiðsögumanna á Íslandi. Þessari umsókn var vísað áfram til frekari skoðunar.

8. Félaginu barst tillaga frá félagsmönnum á Norðurlandi þar sem lagt er til að vorferð 2019 verði um Norðurland og vill stjórn styðja það og vinna að undirbúningi þess.

9. Stjórn telur nauðsynlegt að á vegum Leiðsagnar verði unnið að upplýsingabæklingum um almenna félagsaðild, hvað í henni felst og fengið er með henni, einnig er þörf á upplýsingabæklingum um skráningar og leyfisveitingar ýmsar sem tengjast störfum leiðsögmanna og þurfa þeir að vera til á ensku og íslensku. Einnig þarf að undirbúa kynningar- og upplýsingabæklinga fyrir þá aðila sem eru sjálfstætt starfandi við leiðsögn.
Formaður ætlar að taka eitthvað af þessari vinnu að sér og varaformaður að vinna að umbroti.

10. Vilborg Anna, varaformaður, hefur samþykkt að taka að sér endurhönnun heimasíðu Leiðsagnar og mun hefja vinnu við það nú á haustmánuðum.

11. Stjórn samþykkti að Leiðsögn hafi forgöngu um að kynna fyrir félagsmönnum forrit og þjónustu sem gæti auðveldað sjálfstætt starfandi leiðsögumönnum að halda utan um skilagreinar og reikningagerð.

12. Upp kom umræða um auglýsingar á heimasíðu Leiðsagnar og samþykkti stjórn óbreytta stefnu, þ.e. að ekki séu beinar auglýsingar á síðu og en áfram séu birtar kynningar á efni sem á erindi við félagsmenn.

Fundi lauk kl. 17.

Fundarritari Sigríður Guðmundsdóttir.