Aðalfundur FL 2017

Aðalfundur Félags leiðsögumanna 2017

Aðalfundur Félags leiðsögumanna 29. mars og 10 apríl 2017.
Haldinn í Sólarsal Rúgbrauðsgerðarinnar, Borgartúni 6 og að Stórhöfða 27.
Ársreikninga má nálgast neðst hér á síðunni

Fundargerð

Félagsmenn Norðurlandsdeildar FL á Akureyri tóku þátt í fyrri hluta fundarins í gegnum Skype-tölvusamband og höfðu aðstöðu í Símey, Þórsstíg 4, 600 Akureyri.

Snorri Ingason, settur varaformaður, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann varpaði fram spurningu um lögmæti fundarins og boðunar hans og var ekki gerð athugasemd við það.

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
Stungið var upp á Jakobi S. Jónssyni sem fundarstjóra og var það samþykkt einróma. Jakob þakkaði traustið, ítrekaði lögmæti fundarins og lagði til að Hlíf Ingibjörnsdóttir yrði ritari fundarins og var það samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri tók fram að hann myndi, ef ekki kæmi fram athugasemd við það, leyfa fundarsetu þeirra sem enn væru ekki félagar í skilningi gildandi laga en gætu orðið það ef það frumvarp til nýrra laga félagsins yrði samþykkt og hefðu þeir málfrelsi, tillögurétt og kjörgengi en ekki atkvæðisrétt. Voru engar athugasemdir gerðar við það.

Þá benti fundarstjóri á að ljúka þyrfti fundi fyrir 22.30 vegna skilmála um afnot af húsnæði.

2. Skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári
Sigurður Albert Ármannsson kvaddi sér hljóðs og spurði hvort skýrslu stjórnar hafi ekki verið dreift til fundarmanna. Því var svarað að svo hafi aldrei verið gert og spratt upp umræða sem fundarstjóri stöðvaði; en bókuð er hér með beiðni Sigurðar um að í framtíðinni verði svo að skýrsla stjórnar verði gefin út fyrir fundinn.

Settur varaformaður, Snorri Ingason flutti skýrslu stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

• Þann 29. nóvember 2016 kynnti Anna Vilborg Einarsdóttir niðurstöður rannsóknar sinnar um félagsmenn FL og unnin var fyrir félagið á vegum Háskólans að Hólum. Þar kom til að mynda fram að hinum almenna félagsmanni þykir sýnileika stjórnar ábótavant og þá sagði hún að komið hafi á óvart að samkvæmt niðurstöðum könnunnarinnar greiðir helmingur starfandi leiðsögumanna ekki stéttarfélagsgjald til Félags leiðsögumanna.
• Snorri sagði frá laganefnd þeirri sem stjórnin skipaði á vordögum og sem nú á þessum aðalfundi leggur fram frumvarp til breytinga á lögum félagsins. Hann rifjaði upp í því sambandi að á félagsfundi sem haldinn var þann 16. febrúar á þessu ári voru hugmyndir Laganefndar FL um ný lög fyrir félagið kynntar. Til þess fundar hafði Magnúsi Nordal, lögfræðingi ASÍ verið boðið, og svaraði hann spurningum um fyrirhugaðar lagabreytingar.
• Kjaranefnd hefur haft það frekar rólegt þetta árið en haldið reglubundna fundi við viðsemjendur um ýmislegt varðandi kjaramál.
• Fræðslunefnd stóð fyrir vorferð sem heppnaðist vel.
• Menntunarmál voru í öndvegi á árinu. Það hefur verið vafamál í nokkurn tíma hvort til sé viðurkennd námskrá um menntun leiðsögumanna þar sem sú sem unnið hefur verið eftir féll úr gildi 2011. Snorri innti eftir viðbrögðum við því frá Menntamálaráðuneytinu og hafði fengið það svar í október 2016 að ef ekki kæmi til ný námskrá í stað þeirrar eldri gilti enn sú sem fyrir væri.
• Þá ítrekaði varaformaður hversu mikilvægt sé að allir starfandi leiðsögumenn borgi til stéttarfélagsins enda skerðir það möguleika félagsins t.d. varðandi verkfallsrétt ef aðeins hluti leiðsögumanna stendur skil á stéttarfélagsgjaldi. Þá er gríðarlegt álag á félaginu að leysa úr málum einnig þeirra sem ekki borga í félagið. Kom fram í kjaraviðræðunum síðustu að við verðum að styrkja baklandið til að eiga möguleika á kjarabótum. Þá var fundarmönnum greint frá því að samkvæmt landslögum skuli greiða í það félag sem gerir kjarasamningana sem viðkomandi vinnur eftir.
• Fundarmenn voru hvattir til að samþykkja það frumvarp til laga sem liggur fyrir fundinum svo félagið standi betur að vígi í kjara- og réttindamálum leiðsögumanna.
• Húsnæði félagsins er orðið of lítið og flytur það í apríl að Stórhöfða 25.
• Þá var nefndum þakkað gott starf á liðnu ári.

3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
Júlía Hannam, gjaldkeri félagsins, fór yfir endurskoðaða reikninga þess, sem og reikninga sjúkra- og endurmenntunarsjóðs.

Tekjur hafa hækkað síðan í fyrra í sjúkra- og endurmenntunarsjóði og eru umfram gjöld svo að hægt er að sækja meira í sjóðinn.

Fundarstjóri þakkaði gjaldkera og opnaði fyrir umræðu.

Borgþór Kjærnested benti á að þegar leiðsögumenn borga í önnur stéttarfélög eiga þau stéttarfélög samkvæmt lögum að skila þeim gjöldum aftur til stéttarfélags leiðsögumanna. Hann spurði hvort sjúkrasjóðurinn væri orðinn einhverskonar sparisjóður og hvort ekki væri hægt að koma þessu fé út til þeirra sem þess þurfa? Hann spurði hvort ekki væri hægt að fá reikninga senda beint frá viðkomandi sjúkrastofnun án viðkomu hjá skattinum. Hann lagði til að þannig yrði það í framtíðinni. Þá sagði Borgþór um endurmenntunarsjóð að hann teldi rétt að reikningar bærust beint til félagsins svo að ekki þyrfti að borga skatt af þeim upphæðum.

Sigurður Albert spurði um Rekstarreikning sjúkrasjóðs varðandi liðinn: „Vextir af tékkareikningi“. Gjaldkeri svaraði að málið yrði skoðað.

Fundarstjóri bar því næst skýrslu stjórnar og rekstrarreikninga sjúkrasjóðsins og félagsins upp til samþykktar í einu lagi og var skýrslan og reikningar samþykkt samhljóða.

4. Tillögur um lagabreytingar ef fyrir liggja
Nokkrar lagabreytingatillögur höfðu borist:
• Frumvarp til laga fyrir LEIÐSÖGN - Félag Leiðsögumanna í ferðaþjónustu - lagt fram af stjórn FL og laganefnd FL. • Breytingartillögur við lög Félags leiðsögumanna, lagðar fram af Sigurði Albert Ármannssyni og Jakobi S. Jónssyni.
• Lagabreytingartillaga við 21. gr. frá Mörtu B. Helgadóttur.

Í upphafi þessa dagskrárliðs drógu Sigurður Albert og Jakob sína breytingartillögu tilbaka í ljósi þess að frumvarp til laga unnið af laganefnd FL og stjórn FL er hliðstætt.

Indriði H. Þorláksson kynnti lagafrumvarp stjórnar og laganefndar grein fyrir grein. Eftir yfirferð hverrar greinar voru fyrirspurnir leyfðar. Margar fyrirspurnir bárust og var svarað; einkum var rætt um merki félagsins og hverjir hefðu rétt að bera það?

Fundarstjóri gaf fundarhlé kl. 22.28 til að fundarmenn gætu gætt sér á ríkulegum veitingum í boði félagsins og hvatti hann um leið fundarmenn til að skrá sig á mælendaskrá fyrir umræður að hléi loknu sem og að leggja fram breytingartillögur ef einhverjar væru.

Að loknu fundarhléi urðu fjörugar umræður. Lýst var áhyggjum um að frumvarpið hefði ekki fengið nógu langan kynningar- og umræðutíma. Bent var á að ný lög þyrftu aðlögunartíma. Varað var við því að lenda í langri umræðu um lögin, félagið væri með nýjum lögum að svara breyttum menntunarkröfum leiðsögumanna, sameina leiðsögumenn undir eitt merki og búa í haginn fyrir kjarabaráttu.
Að lokinni umræðu var frumvarp til laga fyrir Leiðsögn – Félag leiðsögumanna í ferðaþjónustu borið upp til atkvæða ásamt breytingartillögum.
Samþykkt var breytingartillaga frá Petrínu Rós Karlsdóttur við 1. gr.: að í stað orðanna “í ferðaþjónustu” komi “á Íslandi” með 30 atkvæðum gegn 9.

Samþykkt var breytingartillaga frá Sigurði Albert Ármannssyni við 2. efnisgrein 19. greinar um að á eftir orðunum „rökstuddum úrskurði“ komi „í samræmi við almenn fundarsköp“ með öllum greiddum atkvæðum.

Laganefnd og stjórn lagði fram svohljóðandi breytingartillögu við 21. gr. Og mælti Kári Jónasson fyrir henni:

Framboðsfrestur skal vera minnst 7 sólarhringar fyrir aðalfund og skal tillögum skilað til skrifstofu Leiðsagnar innan þess tíma. Framboð verði send út með fundarboði aðalfundar eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund. Kjósa skal stjórn og trúnaðarmannaráð á aðalfundi. Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta fundi eftir aðalfund.

Þá komi eftirfarandi viðbót við 21. gr.:

Heimilt er þó hverjum félagsmanni að koma með breytingartillögur um félaga í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan félaga í trúnaðarstöður næsta kjörtímabil. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á.

Breytingartillagan var samþykkt samhljóða án mótatkvæða.

Sigurður Albert Ármannsson lagði fram eftirfarandi bókun vegna umræðu um 8. gr.:

Skjöldur félagsins – tourist guide – er eingöngu til afnota fyrir félagsmenn sem hafa lokið viðurkenndu leiðsögunámi.

Fundarstjóri ákvað að leita stuðnings fundarins við bókunina og var stuðningur við hana samþykktur með 44 atkvæðum mótatkvæðalaust.

Fundarstjóri bar að lokum upp til samþykktar Frumvarp til laga fyrir LEIÐSÖGN - Félag Leiðsögumanna á Íslandi, með ofangreindum breytingum.
Talningamenn voru Ólafur Tryggvi Magnússon og Guðmundur Björnsson.
Frumvarpið var samþykkt með 40 atkvæðum gegn 6.

Tillaga um breytingu á fjölda nefndarmanna í skólanefnd, lögð fram af Mörtu B. Helgadóttur, var dregin tilbaka, enda samhljóða Frumvarpi stjórnar og laganefndar.

Þar sem ekki tókst að ljúka dagskrá fundarins ákvað fundarstjóri að gert yrði hlé á fundinum og myndi stjórn boða til til framhaldsaðalfundar eins fljótt og auðið yrði. Var tekið fram að í fundarboði kæmi fram að kosið yrði í stjórn og nefndir samkvæmt nýsamþykktum lögum.

Fundarstjóri sleit fundi kl. 23.31
Fundargerð til og með þessa dagskrárliðar ritaði Hlíf Ingibjörnsdóttir.

Fundi var framhaldið 10. apríl í húsnæði félagsins að Stórhöfða 27.
Kári Jónasson setti fundinn sem settur formaður og bauð fundargesti velkomna og bað fundarstjóra um að taka við fundinum.

Fundarstjóri tók sæti og kosinn var nýr fundarritari í fjarveru Hlífar Ingibjörnsdóttur. Stungið var upp á Völvu Árnadóttur og var hún kosin einróma.

Fundarstjóri boðaði frávik frá dagskrá vegna athugasemdar sem borist hafði frá Marion Lerner eftir fyrri hluta aðalfundar vegna framkvæmdar atkvæðagreiðslu, meints vanhæfis fundarstjóra og afdrifa fagdeildar almennra leiðsögumanna sem arftaki fagfélagsins. Vegna athugasemdar Marion um meint vanhæfi fundarstjóra vék fundarstjóri úr sæti og tók Tryggvi Jakobsson við sem fundarstjóri undir þessum lið.

Indriði H. Þorláksson, formaður laganefndar FL, gerði þvínæst grein fyrir afstöðu stjórnar til erindis Marion; stjórn telur að atkvæðagreiðsla hafi farið fram skv. lögum félagsins og athugasemd um meint vanhæfi fundarstjóra eigi ekki við og eins hefði þurft að bera þær upp á fundinum. Stjórnin tók hins vegar undir viðhorf Marion um að óvissu gæti gætt um félagsaðild þeirra leiðsögumanna sem eru einungis meðlimir í fagfélaginu og að stjórnin myndi leggja fram sérstaka tillögu um það undir liðnum önnur mál.

Var þvínæst gengið til dagskrár og fundarstjóri tók við á ný.

5. Drög að fjárhagsáætlun 2018

Kári Jónasson gerði grein fyrir fjárhagsáætlun í fjarveru gjaldkera.

Tvær athugasemdir voru gerðar, önnur vegna Sjúkrasjóðs, þar sem talað er um tékkareikninga, hin vegna félagsgjalda.
Við athugun kom í ljós að orðið tékkareikningur er misritun; þar á að standa bankareikningum og leiðréttist hér með.
Félagsgjöldin voru skýrð sem félagsgjöld FL til ASÍ, Landverndar og Samtaka norræna leiðsögumanna.

Indriði H. Þorláksson benti á að leiðsögumenn greiði stéttarfélagsgjald vegna vinnu sinnar við leiðsögn til Leiðsagnar en ekki annarra stéttarfélaga; skv. lögum ber að greiða stéttarfélagsgjald til þess stéttarfélags sem fer með kjarasamninga.

Bergur Álfþórsson gerði athugasemd við gildi fjárhagsáætlunar í ljósi þess að skv. nýjum lögum verður félagið skilið frá fagdeildum og fagdeildargjaldið heyrir til fagdeildinni. Um þetta spunnust nokkrar umræður sem lauk með þeirri niðurstöðu að stofnun fagdeilda mun eiga sér stað á næstu vikum og verður fjárhagsáætlun leiðrétt í því ferli, enda er hún fyrst og fremst vinnuskjal stjórnar og á að tryggja félagsmönnum möguleika á að ræða fjárhag og gjörðir félagsins.
Stjórn var falið að taka afstöðu til málsins í ljósi umræðunnar.

Fjárhagsáætlun var þessu næst borin upp til samþykktar og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta án mótatkvæða.

Nokkrar umræður urðu um fagdeildargjald og kom að lokum fram tillaga um að það yrði 8 500 kr. fyrir 2018; var sú tillaga samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta.

6. Kosning formanns eða lýsing formannskjörs

Formaður
Indriði H. Þorláksson var einn í framboði og því sjálfkjörinn og var kjör hans samþykkt með lófataki.

7. Kosning til stjórnar og trúnaðarráðs, sem og í aðrar nefndir og trúnaðarstöður

Stjórn
Úr stjórn ganga Bryndís Kristjánsdóttir, Kári Jónasson, Snorri Ingason og Örvar Már Kristinsson. Í framboði eru Elín Árnadóttir, Kári Jónasson, Pétur Gauti Valgeirsson, Sigríður Guðmundsdóttir og Þórey Anna Matthíasdóttir.

Frambjóðendur kynntu sig og kynntir þeir sem fjarverandi voru og staðfest kjörgengi allra.

Í stjórn voru kjörin:
Kári Jónasson,
Pétur Gauti Valgeirsson
Sigríður Guðmundsdóttir.

Áfram sitja í stjórn:
Júlía Hannam,
Vilborg Anna Björnsdóttir
Þorsteinn Svavar McKinstry.

Trúnaðarráð
Trúnaðarráð skipa 6 manns og jafnmargir til vara; í framboði sem aðalmenn voru:
Elísabet Brand,
Guðný Margrét Emilsdóttir,
Hlíf Ingibjörnsdóttir,
Jakob S. Jónsson,
Marta B. Helgadóttir
Valva Árnadóttir.

Í framboði sem varamenn voru:
Elín Agnarsdóttir,
Elín Árnadóttir,
Gísli Sveinn Loftsson,
Jens Rumeny,
Ólöf Erna Adamsdóttir
Þórey Anna Matthíasdóttir.

Ekki bárust fleiri framboð og voru þau því sjálfkjörin.

Fræðslu- og skólanefnd
Eftirtaldir sex manns voru í kjöri: Guðný Margrét Emilsdóttir, Petrína Rós Karlsdóttir, Pétur Gauti Valgeirsson, Sigrún Ragnarsdóttir, Sigurður Albert Ármannsson og Tryggvi Jakobsson.

Við talningu kom í ljós að Guðný Margrét og Sigurður Albert voru jöfn að atkvæðum og var hlutkesti látið ráða.

Kjörnir voru:
Guðný Margrét Emilsdóttir,
Petrína Rós Karlsdóttir,
Pétur Gauti Valgeirsson,
Sigrún Ragnarsdóttir,
Tryggvi Jakobsson.

8. Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmanna reikninga til tveggja ára.

Í framboði voru:
Bergur Álfþórsson,
Snorri Ingason.
Fleiri framboð bárust ekki og teljast þeir því sjálfkjörnir.

9. Önnur mál.

Tillaga að ályktun um reglur um fagdeildir innan félagsins.

Stjórn bar fram tillögu að ályktun um fagdeildir, sem kveður á um stofnun fagdeilda í samræmi við mismunandi menntun og starf leiðsögumanna og verður félagsmönnum frjálst að skipa sér í fagdeildir.

Tillagan var samþykkt einróma og mótatkvæðalaust.

Stofnun fagdeildar fyrir almenna ferðaleiðsögn

Stjórn bar fram tillögu um stofnun fagdeildar fyrir almenna ferðaleiðsögn, svohljóðandi, með eilítilli breytingu:

Aðalfundur félags leiðsögumanna haldinn 29. mars 2017 með framhaldsaðalfundi 10. apríl 2017 ályktar að fela stjórn þess að staðfesta hið fyrsta stofnun fagdeildar fyrir almenna ferðaleiðsögn innan félagsins. Aðild í fagdeild þessari öðlist allir þeir sem höfðu fagfélagsaðild að FL fyrir þær breytingar á lögum félagsins sem samþykktar voru 29. mars 2017. Að öðru leyti setji fagdeildin sér starfsreglur og inntökuskilyrði og kjósi sér stjórn og ákveði fulltrúa til setu í trúnaðarráði félagsins.

Tillagan var samþykkt einróma og mótatkvæðalaust.

Fyrirspurn kom fram um hvort fjölgað yrði í Trúnaðarráði með tilkomu fagdeilda; svarað var að svo yrði.

Tillaga að ályktun um skipan starfshóps um menntun og starfsundirbúning leiðsögumanna.

Stjórn og laganefnd stóð að tillögunni, sem felur í sér skipan starfshóps sem standi að leiðbeinandi viðmiðum um menntun og starfsundirbúning leiðsögumanna; stjórn skipi þrjá fulltrúa, þar af formann hópsins og leiti samráðs við Ferðamálastofu og Samtaka aðila í ferðaþjónustu um skipan eins aðila hvors um sig. Skal hópurinn taka mið af meðfylgjandi Minnisblaði Félags leiðsögumanna frá mars 2017.

Tillagan var samþykkt einróma og mótatkvæðalaust.

Tillaga kom fram frá Guðrúnu Helgu Sigurðardóttur þess efnis að félagið fái lögmann til að kanna hvort atvinnufrelsi leiðsögumanna sé skert með því að meina þeim að velja sér farartæki við ökuleiðsögn. Eftir nokkrar umræður var tillagan samþykkt einróma og mótatkvæðalaust og stjórn falið að hefjast handa við að kanna málið.

Tillaga kom fram frá Borgþóri Kjærnested, Kára Jónassyni, Petrínu Rós Karlsdóttur, Önnu M.Þ. Ólafsdóttur, Tryggva Jakobssyni, Steinunni Harðardóttur og Sigrúnu R. Ragnarsdóttur um að Jón R. Hjálmarsson yrði gerður að heiðursfélaga félagsins.

Var tillagan samþykkt einróma og mótatkvæðalaust.

Áður en fundarstjóri sleit fundi voru bornar fram þakkir til starfsmanns félagsins, Donnu Kristjönu, fyrir frábært starf hennar í þágu félagsins og félagsmanna, þægilega og skjóta þjónustu; voru þakkirnar færðar fram með dynjandi lófataki.

Fundarstjóri þakkaði fundarmönnum fyrir góða fundarspekt og sleit síðan fundi.

Fundarritarar: Hlíf Ingibjörnsdóttir og Valva Árnadóttir.