8.11.2017 - Stjórnarfundur

Leiðsögn - Stjórnarfundur
Dags: 8.11. 2017 kl. 17:00 - 18:30
Staðsetning: Stórhöfða 25

Fundinn sátu Indriði, Kári, Júlía og Sigríður

Dagskrá:
1. Félagsaðild
Eftirfylgni bréfa sumarsins. Athugun á þróun félagsaðildar og mat á því hvort bréfin til ferðafyrirtækjanna skiluðu sér í bættri skráningu félagsmanna. Ræða þarf leiðir til eftirfylgni. Fyrirtæki sem ekki skila félagsgjöldum. Af fyrstu tölum um fjölda þeirra sem skilað hafa félagsgjöldum að dæma hefur orðið nokkur fjölgun milli ára. Ætla má að það megi að einhverju leyti rekja til aðgerða félagsins en þó má ætla að mikið vanti upp á að skilin séu nægilega góð. Samþykkt var að farið verði yfir skilagreinar og valin verði 5 - 10 fyrirtæki sem líklegt er að ekki hafi skilað félagsgjöldum af leiðsögumönnum og þeim sent bréf og óskað skýringa og úrbóta.

2. Erlendir leiðsögumenn/ leiðsögn fyrir erlend fyrirtæki
Málið rætt. Ljóst er að í því eru mörg atriði sem þarfnast athugunar svo sem hvort kjarasamningar Leiðsagnar gilda um starfsmenn erlendra fyrirtækja þ.á m. forgangsréttarákvæðið, hvort “verktaka” sé raunveruleg eða ekki, hvort farið sé að skattalögum. Þá er á að líta hvort leiðsögumenn þessir uppfylla faglegar kröfur eða hvort verið sé að undir bjóða innlend fyrirtæki sem eiga að láta fagmenntaða leiðsögumenn njóta forgangs. Ákveðið var að óska eftir fundi með SAF og Ferðamálastofu til að kynna málið og leita eftir samstarfi við þau. Sjá einnig dagskrárlið 7.2.

3. Kvörtun um kynferðislega áreitni hjá íslensku ferðamálafyrirtæki.
Greint frá stöðu máls, samþykkt ASÍ fylgiskjal 3
Leiðsögn hefur borist erindi erlendra leiðsögukvenna þar sem greint er frá meintri kynferðislegri áreitni sem þær telja sig hafa orðið fyrir af hálfu erlends leiðsögumanns sem starfað hefur hjá einu (eða fleiri) íslensku ferðafyrirtæki. Þær segja þessi fyrirtæki ekki hafa sinnt kvörtunum þeirra með nokkrum hætti og þannig gert viðkomandi kleift að brjót ítrekað af sér með hörmulegum afleiðingum. Félagið hefur gert viðkomandi leiðsögumönnum grein fyrir því að félagið geti ekki haft afskipti af hugsanlegum sakaþætti málsins og bent þeim á að leita til lögreglu með hann. Lögreglan í Frakklandi hefur að sögn þeirra mál hins meinta brotlega til rannsóknar vegna hliðstæðra mála í öðrum löndum. Félagið hefur hins vega tjáð þeim að hér á landi sé í gildi reglugerð um kynferðislega áreitni á vinnustað og að vinnuveitendur mannsins kunnu að vera brotlegir gagnvart henni með því að sinna ekki kvörtunum og ábendingum með þeim hætti sem reglugerðin kveður á um. Ákveðið var að félagið kanni það frekar.

4. Kjaramálaþing SGS 6. og 7. des.
Starfsgreinasambandið hefur boðið Leiðsögn að taka þátt í Kjaramálaþingi sambandsins framan greinda daga. Fyrri dagur þess mun fjalla um kjarasamninga almennt og gerð þeirra en á síðari deginum verður fjallað um kjaramál í ferðaþjónustunni sérstaklega. Stjórnin samþykkti þátttökuna og ákvað að kjaranefnd félagsins sjái um málið og velji þingfulltrúa í samráði við stjórn Leiðsagnar.

5. Starfshópur um merki félagsins og merki leiðsögumanna.
Þorsteini hafði verið falið að undirbúa málið. Var ekki á fundi og máli frestað til næsta fundar

6. Atburðadagskrá
Atburðir sem félagið gengst fyrir á vetrarmánuðum.
Samþykkt var að félagið gengist fyrir atburði fyrir félagsmenn í hverjum mánuði vetrarins. ræddir voru atburðir eins og bókakvöld eins og haldin hafa verið undanfarin ár, kjaramálafundur, umræður með utanaðkomandi aðilum um stefnumótun í ferðaþjónustu o.fl. Samþykkt var að óska eftir því við fræðslu og skólanefnd félagsins að undirbúa og sjá um framkvæmd í samvinnu við stjórn.

7. Samningshlítni
1. Vinnustaðaeftirlit o.fl.
Félagið tekur þátt í vinnustaðaeftirliti stéttarfélaga á Norðurlandi og Vesturlandi og stendur væntanlega til boða að gera það einnig á höfuðborgarsvæðinu. Ákveðið var að halda slíku samstarfi áfram en að kannað verði hvort beita megi eftirlitinu á þann veg að til viðbótar við samningshlítni almennt sé kannað hvort þau fyrirtæki sem könnuð eru standi skil á félagsgjöldum til Leiðsagnar af launum þeirra sem starfa við leiðsögn. Erindi vinnueftirlitsfulltrúa á Vesturlandi verði svarað með ábendingum á þau fyrirtæki á svæðinu sem æskilegt væri að hann heimsæki.
2. Erindi leiðsögumanna hjá Íslensku ferðaþjónustufyrirtæki.
Nokkrir leiðsögumenn hjá íslensku ferðaþjónustufyrirtæki hafa sent félaginu erindi þar sem þeir finna að því að félagið virði ekki forgangsréttarákvæði kjarasamninga varðandi ráðningu í störf. Benda þeir á að það að ráða ólærðar og óreynda menn til leiðsögu hljóti að hafa áhrif á þá þjónustu sem verið er að veita og að slík fyrirtæki geti illa skreytt sig gæðastimplum. Óttast þeir m.a. að breiðist þetta út og það spyrjist það út í fjölmiðlum að fyrirtæki hér séu ekki með faglærða leiðsögumenn verði það álits hnekkir fyrir viðkomandi fyrirtæki og greinina alla. Ákveðið var að setja málið á dagskrá á þeim fundi sem óskað verður efir með SAF og Ferðamálastofu sbr. dagskrárlið 2.

8. Endurskoðun texta á heimasíðu Leiðsagnar
Ákveðið var að Indriði og Kári sjái um verkið og fái sér reynda menn ttil aðstoðar.

9. Verkefni og samningur við lögfræðing fyrir Leiðsögn
Rætt verður við VM o.fl. stéttarfélög um heppilegt fyrirkomulag og kannað nánar.

Næsti stjórnarfundur var ákveðinn 22. nóvember kl. 17:00

Síðasti stjórnarfundur ársins til afgreiðslu sjúkrasjóðsmála o.fl. var ákveðinn 13.desember. 2017