Aðalfundur FL 2016

Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn að Stórhöfða 31, þann 29. febrúar 2016 kl. 20
Félagsmenn Norðurlandsdeildar FL á Akureyri tóku þátt í fundinum í gegnum Skype-tölvusamband.
Ársreikninga má nálgast neðst hér á síðunni

Dagskrá:

Formaður, Örvar Már Kristinsson, setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann lagði til að Bergur Álfþórsson yrði fundarstóri og var það samþykkt. Bergur tók við fundarstjórn og lagði til að Bryndís Kristjánsdóttir yrði ritari og var það samþykkt.

Því næst var gengið til dagskrár aðalfundar:

1. Skýrsla félagsstjórnar.
Formaður flutti skýrslu stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
Júlía Hannam, gjaldkeri félagsins fór yfir endurskoðaða reikninga félagsins, sem og reikninga sjúkra- og endurmenntunarsjóðs.
Spurningar bárust úr sal um efnisatriði reikninganna, sem Júlía svaraði.

Þá var opnað fyrir spurningar úr sal um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins.
Spurt var um framkvæmd könnunar á upplýsingum um leiðsögumenn, sem háskólinn á Hólum hefur verið fenginn til að gera. Formaður svaraði spurningunni.

Flutningsmaður tillögunnar á aðalfundi 2015, Guðrún Helga Sigurðardóttir, útskýrði hvað hún hefði meint með tillögunni, þ.e. að aflað væri upplýsinga um alla sem starfa sem leiðsögumenn – ekki einungis félagsmenn FL. Formaður svaraði að félagið gæti illa kannað stöðu annarra en félagsmanna; hefði t.d. ekki upplýsingar um netföng fólks sem er ekki í FL. Guðrún Helga óskaði eftir að fært yrði til bókar að hún lýsti yfir vonbrigðum sínum með framkvæmdina. Jakob Sigurðsson kom í pontu og las upp bókunina um málið frá aðalfundinum 2015.

Fundarstjóri bar því næst upp reikninga félagsins til samþykktar – og voru þeir samþykktir.
Fundarstjóri bar þá upp reikninga sjúkrasjóðsins til samþykktar – og voru þeir samþykktir.

3. Tillögur um lagabreytingar
Lagabreytingatillögur höfðu borist frá félagsmönnum fyrir tilskilinn frest, einnig lagði stjórn fram breytingartillögur. Allar lagabreytingatillögur voru sendar út með fundarboði, auk þess sem fjölrituð eintök lágu frammi á fundinum.

 • Breytingatillaga frá stjórn við 19. lagagrein um ritnefnd.
  Bryndís Kristjánsdóttir kynnti tillöguna.

 • Breytingatillaga frá stjórn við 24. lagagrein um tímasetningu aðalfundar.
  Vilborg Anna Björnsdóttir kynnti breytingatillöguna.
  Spurningar og athugasemdir komu úr sal og sitt sýndist hverjum um breytingu á fundartíma aðalfundar.

 • Breytingatillögur frá stjórn við sjúkrasjóð FL.
  Vilborg Anna Björnsdóttir kynnti breytingatillögurnar og sagði að meginatriði tillagnanna lyti að því að félagsmenn gætu fengið meiri styrki úr sjóðnum. Hún greindi frá því að áður en stjórn lagði fram breytingatillögurnar hefði tryggingastærðfræðingur verið fenginn til að reikna út getu sjóðsins til að standa undir tillögunum. Niðurstaðan var sú að hann taldi að sjóðurinn gæti staðið undir þeim.

Byrjað var á kynningu á breytingum um útfararstyrk – og komu ýmsar ábendingar úr sal, t.d. um orðalag og upphæð.
Vegna þessa ákvað Vilborg að draga tillöguna til baka. Hún yrði yfirfarin og lagfærð, síðan væntanlega lögð fram á ný á næsta aðalfundi.

Þá kynntar breytingatillögur við grein 12.8, a, b, c og d. um styrki vegna heilsueflingar og sjúkrameðferða. Einnig viðbætur við greinina, þ.e. e, f, g, h.
Spurt var út í nokkrar tillagnanna. Einnig hvernig félagsmenn öðluðust rétt til að fá greitt úr sjóðnum og útskýrði starfsmaður skrifstofu það. Þá var spurt hvort félagsmönnum væri neitað um greiðslu úr sjóðnum ef þeir væru of tekjuháir. Svarið við því er að félagsmönnum er ekki neitað vegna tekna.

Breytingatillaga við grein 4.2 um greiðslur vegna stéttarfélagsaðildar var dregin til baka.

Marion Lerner óskaði eftir því við fundarstjóra að hún fengi að koma með dagskrártillögu. Fundarstjóri samþykkti það og bar Marion upp tillögu um að greidd yrðu atkvæði um breytingatillögur stjórnar áður en aðrar breytingatillögur væru bornar upp. Dagskrártillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt en einn var á móti.

19 gr. laganna um ritnefnd var borin upp til samþykktar. Breytingatillagan var samþykkt en 1 var á móti.

24. gr. um tímasetningu aðalfundar var borin upp til samþykktar. Breytingatillagan var samþykkt en tveir voru á móti.

Frambornar breytingatillögur við sjúkrasjóð voru bornar upp og þær samþykktar.

Að því loknu boðaði fundarstjóri kaffihlé og bauð fundarmönnum að njóta veitinga.

Fundarstjóri setti fund á ný eftir hlé, kl. 22:00.

Fyrstar á dagskrá voru lagabreytingatillögur frá Sigurði A. Ármannsyni og Jakobi S. Jónssyni.

Bjarni Ben Arthúrsson óskaði eftir því við fundarstjóra að fá að koma með dagskrártillögu. Hann lagði fram svohljóðandi skriflega tillögu, dagsetta 29. febrúar 2016. Tillagan var undirrituð af honum sjálfum, Vali Valssyni og Eiríki Einarssyni:

Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn mánudaginn 29. febrúar 2016 samþykkir að fella af dagskrá fundarins fyrirliggjandi tillögu um lagabreytingar frá Sigurði A. Ármannssyni og Jakobi S. Jónssyni. Tillagan komi því ekki til frekari umræðu eða afgreiðslu.

Tillagan var borin upp til samþykktar og var hún samþykkt með meginþorra atkvæða. Átta voru á móti.

4. Drög að fjárhagsáætlun

Júlía Hannam, gjaldkeri FL, kynnti drög að fjárhagsáætlun.
Ábending kom úr sal að gott væri að fjárhagsáætlun fyrra árs lægi einnig fyrir um leið og ný fjárhagsáætlun væri kynnt. Þakkaði Júlía fyrir réttmæta ábendingu.
Einnig var lögð fram tillaga að stéttarfélagsgjaldi og fagfélagsgjaldi, þ.e. að gjöldin héldust óbreytt.
Tillagan var borin upp til atkvæðagreiðslu og samþykkt.

5. Kosning formanns eða lýsing formannskjörs.

Formaður, Örvar Már Kristinsson, var kosinn á aðalfundi 2015 til tveggja ára og situr áfram.

6. Kosning til stjórnar og trúnaðarráðs.

Stjórn:
Í stjórn gefur Marion Lerner ekki kost á sér áfram og því þurfti að kjósa stjórnarmann í hennar stað til 1 árs. Snorri Ingason gaf sig fram til stjórnarsetu í 1 ár, í stað Marion Lerner. Enginn annar gaf kost á sér.
Vilborg Anna Björnsdóttir og Þorsteinn McKinstry gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Engir fleiri gáfu kost á sér.
Í stjórn voru því réttkjörin til 3 ára: Vilborg Anna Björnsdóttir og Þorsteinn McKinstry.
Til 1 árs: Snorri Ingason.

Stjórn FL er þannig skipuð:
Örvar Már Kristinsson
Júlía Hannam
Kári Jónasson
Bryndís Kristjánsdóttir
Þorsteinn McKinstry
Vilborg Anna Björnsdóttir
Snorri Ingason

Kosning í nefndir:

Fræðslunefnd - kosin til 2 ára:
Guðný Margrét og Sigrún gáfu kost á sér áfram. Kjósa þurfti einn aðalmann og báða varamenn. Þórdís Erla bauð sig fram sem aðalmaður, Petrína Rós og Börkur Hrólfsson buðu sig fram sem varamenn. Engir fleiri gáfu kost á sér og þau því réttkjörin.

Fræðslunefnd er þannig skipuð:
Aðalmenn:
Guðný Margrét Emilsdóttir
Sigrún Ragnheiður Ragnarsdóttir
Þórdís Erla Ágústsdóttir
Varamenn:
Petrína Rós Karlsdóttir
Börkur Hrólfsson

Ritnefnd
Kjósa þurfti einn í ritnefnd í stað Guðrúnar Helgu Sigurðardóttur, sem setið hefur í 2 ár og gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Pétur Eggerz Pétursson gaf kost á sér í ritnefnd. Engir fleiri gáfu kost á sér og Pétur því réttkjörinn.

Ritnefnd er þannig skipuð:
Ingibjörg Smáradóttir
Jakob S. Jónsson
Pétur Eggerz Pétursson

Kjaranefnd
Þeir sem nú eiga sæti í kjaranefnd gáfu allir kost á sér áfram. Því var fagnað með lófaklappi.

Kjaranefnd er þannig skipuð:
Aðalmenn:
Snorri Ingason
Bergur Álfþórsson
Elísabet Brand
Varamenn:
Sigríður Guðmundsdóttir
Jens Ruminy

Trúnaðarrá
Nefndarmenn í trúnaðarráði gefa kost á sér til endurkjörs, nema hvað kjósa þarf einn aðalmann og einn varamann. Guðbjörg Eiríksdóttir gaf kost á sér og var kosin sem aðalmaður og Maron Lerner gaf kost á sér sem varamaður og var kosin sem slík.

Trúnaðarráð er þannig skipað:
Aðalmenn:
Ragnheiður Björnsdóttir
Pétur Gauti Valgeirsson
Hanna Charlotta Jónsdóttir
Hlíf Ingibjörnsdóttir
Ingibjörg Jósepsdóttir
Guðbjörg Eiríksdóttir
Varamenn:
Elín Agnarsdóttir
Hólmfríður Sigvaldadóttir
Kristín E. Guðjónsdóttir
Elísabet Brand
Jórunn Rothenborg
Maron Lerner

7. Önnur mál.

Börkur Hrólfsson tók fyrstur til máls undir þessum lið og spurði um kjarasamningamál, þ.e. útreikninga vegna yfirvinnu um helgar, sem honum fannst einkennilegir. Snorri Ingason svaraði: Fyrstu 12 tímarnir um helgar eru álagskaup en yfirvinna reiknast eftir það. Þetta er eitt af þeim atriðum sem kjaranefndin hefur verið að reyna að fá lagað. Í núverandi samningi er álagskaupið að hækka í áföngum. Þegar næsta hækkun tekur gildi, í maí, verður álagskaupið hærra en yfirvinnukaupið. Hann minnti félagsmenn á að þeir þyrftu að sækja sjálfir afturvirka launaleiðréttingu, þ.e. frá 1. janúar, sem fékkst núna með nýafstaðinni atkvæðagreiðslu um samningana.

Jórunn Rothenberg vildi koma á framfæri viðvörun til félagsmanna;
hún hefði orðið fyrir erfiðri reynslu við Seljalandsfoss fyrr um daginn þar sem risastór grýlukerti voru að hrynja og litlu munaði að farþegi hefði slasast. Hún vildi koma ábendingu á framfæri um þá miklu hættu sem stafaði af grýlukertunum; sjálf hefði hún hringt til lögreglunnar en vissi ekki hvað ætti að gera.

Formaður hafði nokkur orð í lokin; þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund. Hann og fundarmenn þökkuðu Ástu Ólafsdóttur fyrir afburða góð störf fyrir félagið á liðnum árum. Ásta þakkaði félagsmönnum sömuleiðis fyrir samstarfið. Formaður þakkaði að lokum fundarstjóra og ritara.

Formaður sleit aðalfundi kl. 22:41.

Fundarritun: Bryndís Kristjánsdóttir