23.11.2016 - Stjórnarfundur

Stjórnarfundur Félags leiðsögumanna 23. Nóvember 2016 kl. 17

Mætt: Bryndís, Júlía, Kári, Vilborg

1. Verkefni sem stjórnarmeðliðir tóku að sér
a) Gjaldkeri tók að sér að kanna hver launakostnaður gæti orðið ef fleiri starfsmenn kæmu til starfa fyrir félagið.
b) Ritari tók að sér að kanna hjá öðru stéttarfélagi þátttöku sjóða í rekstri félagsins og greindi frá því að þar greiða sérsjóðir hluta af rekstrakostnaði félagsins á móti félagssjóði.
c) Skoðuð var staðan yfir ógreidd félagsgjöld. Ótrúlega margir hafa ekki greitt gjöldin og skrifstofan er beðin um að senda lokaítrekun til þeirra sem skulda, þar sem þeim gefst tækifæri til áramóta til að gera upp. Einnig kæmi fram að ef þeir greiði ekki megi líta á það sem svo að þeir óski ekki eftir að vera í félaginu lengur.
d) Kári og Snorri hafa boðað fund með samankallaðri lagabreytinganefnd, þ.e. Eiríki, Indriða, Hlíf og Steinunni mánudaginn 28.11 kl. 17. Vilborg mun einnig mæta á fundinn.
e) Formaður tók að sér að skoða enn frekar hvað önnur stéttarfélög geta boðið félagsmönnum sínum.

2. Skipulag og framtíð félagsins
Stefnt er að félagsfundi snemma á næsta ári þar sem innri mál félagsins og uppbygging þess til framtíðar yrðu rædd. Stefnt að því að fá sérfræðing um uppbyggingu félags sem okkar til að leiða fundinn og stýra umræðum félagsmanna.

3. Skólanefnd
Til upplýsingar fyrir félagið kannaði formaður skólanefndar hvernig starfinu er háttað hjá Þekkingarmiðstöð ferðþjónustunnar. Nefndin hefur tvisvar sótt um styrk frá Mennta- og þróunarsjóði til að geta látið framkvæma raunfærnimat á meðal starfandi leiðsögumanna en fengið höfnun. Kannað verður hvort þar að baki sé einhver sérstök ástæða.

4. Félagsfundur 29. nóvember kl. 20
Fundurinn verður haldinn í fundarherbergi á hér á jarðhæðinni. Skrifstofan er beðin að kanna aðstöðu í salnum en þörf er á tölvu, skjávarpa, kaffikönnur og borðbúnað. Kaupa þarf veitingar fyrir fundinn.
Skrifstofan er einnig beðin um að setja auglýsingu á RÚV og Bylgjuna sem lesin yrði í hádeginu 29. Nóvember. Svohljóðandi:
Munið félagsfundinn í kvöld – Félag leiðsögumanna

5. Jólafundur fræðslunefndar
Skrifstofan er beðin að hafa samband við fræðslunefnd til að kanna hvenær hún hafi áætlað að hafa jólafund og hvaða fyrirkomulag eigi að vera á fundinum.

6. Heimasíðan og 45 ára afmæli FL
Formaður gerði það að tillögu sinni að félagið gæfi sjálfu sér nýja heimasíðu í afmælisgjöf á næsta ári en þá verður félagið 45 ára. Samþykkt.
Einnig rætt hvað hægt væri að gera í tilefni af afmælinu; rætt um hátíð eða morgunverðarráðstefnu í vor.

7. Formaður viðtal á RÚV
Óskað var eftir að formaður kæmi í viðtal á rás 2 á RÚV í fyrramálið. Tilefnið er nýleg frétt um að eigendur Airbnb húsnæðis bjóði þeim sem hjá þeim gista leiðsögn um landið.

Fundi slitið kl. 18:50
Fundarritari: Bryndís Kristjánsdóttir