Stjórnarfundur 1.9.2015

Mætt: Vilborg, Þorsteinn, Júlía og Bryndís. Kári boðaði forföll.
1. Sjúkrasjóður
a) Sótt um vegna sjúkraþjálfunar. Samþykkt að greiða 10.708 kr., skv. reglum sjóðsins.
b) Sótt um styrk vegna fyrirbyggjandi líkamsræktar. Samþykkt að greiða 29.500 kr., skv. reglum sjóðsins.
c) Sótt um vegna sjúkraþjálfunar. að greiða 3.560 kr., skv. reglum sjóðsins (hefur fengið greitt fyrr á árinu).
d) Sótt um vegna sjúkradagpeninga fyrir ágúst. Samþykkt að greiða 41.590, skv. reglum sjóðsins.
e) Sótt um styrk vegna fyrirbyggjandi líkamsræktar. Samþykkt að greiða 8.400 kr. skv. reglum sjóðsins.
f) Sótt um vegna krabbameinsleitar. Samþykkt að greiða 18.198 kr., skv. reglum sjóðsins.
g) Sótt um styrk vegna fyrirbyggjandi líkamsræktar. Samþykkt að greiða 29.500 kr. skv. reglum sjóðsins.
2. Endurgreiddur útlagður kostnaður
Lagðar fram kostnaðarnótur vegna funda kjaranefnd, sem félagið endurgreiðir, þ.e. 7.500 kr.
3. Skrifstofa félagsins
Starfsmaður hefur sagt upp störfum en er ekki að hætta alveg strax. Vinna þarf þó strax að því að finna væntanlegan starfsmann.
Ýmislegt þarf að gera til að skýra vinnulag á skrifstofu, ekki síst vegna aukinnar félagsaðildar. Leita þarf leiða til að létta á daglegu álagi, s.s. vegna alls konar fyrirspurna. Þar má t.d. útbúa ,,Algengustu spurningar og svör“ skjöl, sem félagsmenn hafa aðgengi að.
4. Kjaranefnd
Samkvæmt lögum félagsins er svigrúm til að umbuna félagsmönnum sem hafa lagt fram sérstaklega mikla vinnu fyrir félagið. Vegna þeirrar miklu vinnu sem formaður kjaranefndar lagði fram við kjarasamningavinnunna á árinu ákveður stjórn að greiða honum í samræmi við samþykkt aðalfundar 2014.
5. Fræðslunefnd
Fræðslunefnd hefur lagt fram áætlun fyrir fundi ársins. Áætlunin er aðgengileg á vef félagsins. Haustferð er áætluð 26. september og farið verður á Reykjanesið. Óskað hefur verið eftir því að Félagið taki þátt í kostnaði við ferðina og er samþykkt að verða við þeirri ósk, að ákveðinni hámarksupphæð. Sótt verður um í Endurmenntunarsjóð vegna þessa.
6. Ósk um notkun á merki félagsins
Félagsmaður í fagfélaginu, sem rekur og leiðsegir í ljósmyndaferðum, hefur óskað eftir að fá að vera merki félagsins á gögnum sínum. Samþykkt að veita leyfi samkvæmt reglum Félagsins um notkun á merkinu.
7. Erindi vegna ,,TUK“
Ábending barst frá félagsmanni um að ekki sé farið að lögum um akstur í s.k. TUK, TUK leiðsöguferðum og félagið beðið að hlutast til um málið. Þar eð mál sem þetta falla ekki undir starfsemi félagsins ákvað stjórn að vísa málinu til viðeigandi aðila, þ.e. Vegagerðarinnar og Samgöngustofu.
8. Erindi vegna efnis um ,,náttúrupassa“
Erindi barst frá félagsmanni sem ekki var sáttur við grein um ,,náttúrupassa“ á vef félagsins og óskaði eftir að hún yrði fjarlægð, þar sem þar kæmu fram viðhorf sem ekki samræmdust viðhorfum allra félagsmanna.
Umrætt skjal er greinargerð um vinnu opinbers hóps sem var að vinna að tillögum um náttúrupassann. Fulltrúi FL átti sæti í þessum hópi. Á vef FL er birt hvers konar fræðslu- og umræðuefni sem snertir ferðaþjónustuna og leiðsögustarfið, án þess að um nokkra ritskoðun sé þar að ræða. Stjórnin telur ekki ástæðu til að fjarlægja umrætt skjal af vefsíðunni.
9. IGC kynning
Félagsmaður hefur óskað eftir að norrænu samtök leiðsögumanna, IGC, verði kynnt á félagsfundi. Málið verður sett á dagskrá fyrsta félagsfundar.
10. Aðalfundur, tímasetning
Óskir hafa borist um að tíma fyrir aðalfund verði breytt og hann færður til 15. apríl – 15. maí.
Formleg tillaga þarf að berast um slíka lagabreytingu til að bera upp á aðalfundi.
11. Endurmenntunarsjóður
Ábendingar hafa borist um að upphæðir sem hægt er að sækja um úr Endurmenntunarsjóði séu fremur lágar. Senda þarf erindi til stjórnar Endurmenntunarsjóðs um málið til að taka fyrir á næsta fundi, sem verður í október. Stjórn mótar tillögu sem send verður til Endurmenntunarsjóðs.
12. Umhverfisnefnd ASÍ
Fulltrúi stjórnar FL sem á sæti í umhverfisnefnd ASÍ greindi frá því helsta sem fram fór á fundi sem haldinn var í morgun. Aðalmálið er að aðildarfélög taki afstöðu til þess að allt hálendi Íslands verði gert að þjóðgarði, svo hægt sé að álykta um málið. Þetta snertir hvoru tveggja rammaáætlun og stjórnmál almennt. Fulltrúi FL vinnur áfram með málið og ber undir stjórn.
Fundi slitið kl. 19:00
Bryndís Kristjánsdóttir