Aðalfundur Félags leiðsögumanna 2015

Haldinn 24. febrúar á Restaurant Reykjavík, Vesturgötu 2 Rvík og með Skype tók ,,Norðurlandsdeildin“ þátt í fundinum í Háskólanum á Akureyri, fundurinn hófst kl. 20.
Formaður, Örvar Már Kristinsson, setti fundinn og bauð fundargesti velkomna. Síðan bar hann upp þá tillögu að Tryggvi Jakobsson yrði fundarstjóri. Úr sal barst þá tillaga um að Sigurður Albert Ármannsson yrði fundarstjóri. Kosið var um fundarstjóra og sá formaður um kosninguna. Niðurstaðan varð sú að Tryggvi var kosinn fundarstjóri og hóf hann aðalfundarstörf, skv. boðaðri dagskrá fundarins:
1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári. Formaður flutti skýrslu stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

Skýrsla stjórnar og önnur skjöl má nálgast neðst í skjalinu

2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu Gjaldkeri félagsins, Júlía Hannam, er í námsleyfi í Frakklandi en hún hafði gengið gjaldkerastörfum og reikningum félagsins áður en hún fór í leyfið. Í hennar stað fór skrifstofustjóri FL, Ásta Ólafsdóttir, yfir helstu þætti í framlögðum reikningum og svaraði síðan spurningum fundarmanna um reikningana.

Fundarstjóri gaf síðan kost á umræðum um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins: Fyrstur bað um orðið Sigurður Albert Ármannson. Hann þakkaði formanni fyrir góð störf og að hann hefði verið sýnilegur fyrir hönd félagsins á jákvæðan hátt, sem og að hann vænti þess að hann byði sig áfram fram til starfa. Óskaði Sigurður eftir því að bókað væri að á næsta aðalfundi fengju fundarmenn fundargögn afhent þannig að þeim væri raðað saman í ,,pakka“ þannig að þau væru í sömu röð og dagskrá fundarins. Hver og einn fundarmaður fengi pakkann afhentan um leið og hann meldaði sig inn á fundinn. Þetta myndi auðvelda fundarmönnum að átta sig á framlögðum gögnum. Hann lýsti því síðan yfir að hann væri ekki ánægður með þann alþingismann sem tekið hefur að sér að vinna að því að leiðsögumenn fái starfsheiti sitt lögverndað. Bergur Álfþórsson kom upp og sagði að erfitt yrði að finna þingmann sem ekki hefði einhvern tíma látið eitthvað út úr sér sem betur hefði verið ósagt. Þórunn Þórarinsdóttir óskaði eftir nánari upplýsingum um gjaldið til IGC. Borgþór Kærnested vildi fá að þakka stjórn fyrir mjög gott starf. Með meiri tekjum hefði t.d. verið verið hægt að hafa skrifstofu félagsins opna alla virka daga. Hann skýrði stuttlega frá starfi IGC. Að lokum þakkaði hann stjórn á ný ekki síst fyrir gott skipulag á þessum fundi.

Fundarstjóri óskaði eftir að fá að bera upp saman til samþykktar skýrslu stjórnar og endurskoðaða reikninga félagsins og féllst fundurinn á það. Skýrsla stjórnar og endurskoðaðir reikningar stjórnar voru samþykktir samhljóða.

3. Tillögur um lagabreytingar Fundarstjóri kynnti framlagðar lagabreytingar í þeirri röð sem þær voru framsettar og las þær upp, hverja og eina, áður en þær voru bornar upp til atkvæðagreiðslu:

TILLAGA 1 Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn 24. febrúar 2015 á Restaurant Reykjavík Vesturgötu 2 Reykjavík og í Háskólanum Akureyri samþykkir eftirfarandi breytingu á grein 18 í lögum félagsins:

18. gr. Kjaranefnd Í stað núverandi texta: „Innan félagsins starfar kjaranefnd, skipuð þremur félagsmönnum með aukna aðild og tveimur til vara einnig með aukna aðild.“

Komi breyttur texti : Innan félagsins starfar kjaranefnd skipuð fimm félagsmönnum, þar af þremur með aukna aðild og tveimur með a.m.k. stéttarfélagsaðild. Kjaranefnd skal kosin á aðalfundi. Annar texti 18. greinar verði óbreyttur: Kjaranefnd skal í samstarfi við stjórn félagsins fylgjast náið með launaþróun og breytingum á vinnumarkaði. Kjaranefnd annast kjarasamningagerð fyrir hönd félagsins og getur hún kallað til liðs við sig aðra félagsmenn í þeim tilgangi.

Örvar Már óskaði eftir að fá að taka til máls og skýra enn frekar hugmyndina að baki tillögunni; ástæða væri til þess að opna fyrir þátttöku þeirra sem eru eingöngu með stéttarfélagsaðild að kjarasamingavinnu og -viðræðum. Skúli Möller greindi frá því að hann hefði á sínum tíma komið að tveimur kjarasamningaviðræðum og að í einum þeirra hefði vinnan legið alfarið á herðum þriggja manna, sem væri algjörlega ótækt.
Sigurður Albert sagðist vera með vangaveltur um hvort að það þyrfti endilega að skilgreina sérstaklega aðild þeirra sem sætu í kjaranefnd. Marion Lerner greindi frá því að hún, ásamt Skúla Möller, hefði á sínum tíma unnið texta núverandi laga og að þau hefðu fjallað mikið um þetta sérstaka mál. Hún fór síðan yfir muninn á fagfélags- og stéttarfélagsaðild, en þar er það menntunin sem skilur að. Mikilvægi menntunar leiðsögumanna skipti afar miklu máli fyrir stéttina í heild. Borgþór Kærnested sagðist vera að velta þessu mikið fyrir sér og spurði líka hvort þetta væri eitthvert vandamál? Hagsmunir félagsmanna, hvað kjaramál snertir, væru það sem mestu máli skipti. Jakob S. Jónsson tók næstur til máls og byrjaði á því að þakka stjórn fyrir góð störf. Hér væri verið að tala um kjaranefnd og mikilvægi fagþekkingarinnar. Spurning: skiptir ekki meira máli að þeir sem sitja í kjaranefnd hafi atvinnu af leiðsögn allt árið heldur en hvernig aðild þeirra að félaginu er háttað? Kannski væri þetta meira mál en svo að hægt væri að afgreiða það á þessum aðalfundi. Örvar Már tók til máls og greindi frá því að mjög líklega væru allir í núverandi kjaranefnd að vinna við leiðsögn allt árið. Hann áréttaði fyrri orð sín um að breytingartillagan snérist um það að opna möguleika þeirra sem starfa við leiðsögn en eru ekki í fagfélaginu að koma að kjarasamningavinnunni. Marion Lerner minntist á verktaka sem vinna við leiðsögn og nefndi að jafnvel væri ekki ákjósanlegt að slíkir væru í kjaranefndinni. Sigurður Albert tók aftur til máls um að ekki ætti að vera að setja þá sem eru að starfa við fagið í þessi box sem hér væri um að ræða. Hann taldi að sameina ætti alla þá sem starfa við þetta fag undir hatti félagsins, sama hvaðan þeir kæmu. Skúli Möller sagðist vita mjög vel í hvaða boxi hann væri, þ.e. með aukna aðild, sem þýðir að hann borgar bæði í fagfélagið og stéttarfélagið. Verktakar borga að jafnaði ekki neitt til félagsins og því þyrftum við ekki að þurfa að vera með áhyggjur af þeim. Borgþór Kærnested tók aftur til máls og benti á hvað stæði í lögunum um hverjir væru aðildarmenn félagsins: það væru ekki verktakar. Sigurður Albert tók enn á ný til máls og sagðist dáðst að þeirri fotíðarhyggju sem hér kæmi fram. Sagðist leggja til að þessar framlögðu lagabreytingar væru samþykktar nú – það væri svo aðalfundur aftur á næsta ári. Jens Ruminy kom því næst í ræðustól og fannst að umræðan væri að vera komin út og suður. Ingveldur Gísladóttir tók til máls og greindi frá því að hún hefði útskrifast frá Leiðsöguskóla Íslands í fyrra og starfaði nú sem verktaki. Hún sagði að sig langaði til að bjóða sig fram í kjaranefnd. Hlíf Ingibjörnsdóttir tók til máls og greindi frá því að hún væri bæði verktaki og ræki eigið fyrirtæki en að hún greiddi öll tilskilin gjöld til félagsins. Hún sagði að það væru ferðaþjónustufyrirtækin sem ákvæðu prósentutölu verktaka ofan á taxta félagsins. Hún sagði að sér mislíkaði mjög þessi umræða um félagsmenn í „boxum” – mestu máli skipti að við værum öll leiðsögumenn. Örvar ítrekaði fyrri orð sín að með þessari tillögu væri verið að opna dyrnar fyrir aðkomu þeirra félagsmanna sem eingöngu hefðu stéttarfélagsaðild.

Fundarstjóri bar að þessu loknu tillöguna upp eins og hún var lögð fram. Tillagan var samþykkt samhljóða.

TILLAGA 2 Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn 24. febrúar 2015 á Restaurant Reykjavík Vesturgötu 2 Reykjavík og á Háskólanum Akureyri samþykkir eftirfarandi breytingu á grein 20 í lögum félagsins: 20. gr. Fræðslunefnd Í stað núverandi texta: „Innan félagsins starfar fræðslunefnd, skipuð þremur félagsmönnum með fagfélagsaðild og tveimur til vara einnig með fagfélagsaðild.“ Komi eftirfarandi texti:
Innan félagsins starfar fræðslunefnd skipuð fimm félagsmönnum með fagfélagsaðild. Annar texti 20. greinar verði óbreyttur: Fræðslunefnd skal kosin á aðalfundi félagsins til tveggja ára. Hlutverk fræðslunefndar er að annast fræðslustarf félagsins fyrir faglærða leiðsögumenn. Fræðslunefnd efnir til fræðslufunda og námskeiða og birtir fræðsluefni og hagnýtar upplýsingar á heimasíðu félagsins.

Enginn óskaði eftir að taka til máls um tillöguna. Tillagan var samþykkt samhljóða.

TILLAGA 3 Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn 24. febrúar 2015 á Restaurant Reykjavík Vesturgötu 2 Reykjavík og á Háskólanum Akureyri samþykkir eftirfarandi breytingu á grein 21 í lögum félagsins: 21. gr. Skólanefnd Eftirfarandi núverandi texti falli brott: „Innan félagsins starfar skólanefnd, skipuð þremur félagsmönnum með fagfélagsaðild og tveimur til vara einnig með fagfélagsaðild.”
Í staðinn komi: Innan félagsins starfar skólanefnd skipuð fimm félagsmönnum með fagfélagsaðild. Eftirfarandi texti greinarinnar verði óbreyttur: Skólanefnd skal kosin á aðalfundi félagsins til tveggja ára. Hlutverk skólanefndar er að annast náið samstarf við skóla þar sem leiðsögn er kennd og menntamálaráðuneytið viðurkennir, þ.m.t. Leiðsöguskóla Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands, koma áliti fagmenntaðra leiðsögumanna á skólamálum til skila og vera tengiliður milli félagsins og skólans.

Enginn óskaði eftir að taka til máls um tillöguna. Tillagan var samþykkt samhljóða.

TILLAGA 4 Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn 24. febrúar 2015 á Restaurant Reykjavík Vesturgötu 2 Reykjavík og á Háskólanum Akureyri samþykkir eftirfarandi breytingar á reglugerð Sjúkrasjóðs Félags leiðsögumanna: Grein 9.4 Núverandi texti: „Þeir sem greitt hafa af launum til sjóðsins 1.5% iðgjöld í a.m.k. 6 mánuði s.l. 18 mánuði.” Breytist og hljóði þannig: Einungis þeir sem greidd hafa verið fyrir 1.5% iðgjöld af launum til sjóðsins í a.m.k. 6 mánuði á síðast liðnum 18 mánuðum.

Jakob S. Jónsson óskaði eftir að taka til máls. Gerði hann athugasemd við orðalag breytingatillögunnar og sagði að það væri ekki íslenska. Fundarstjóri bar upp tillöguna óbreytta, þó með því fororði að stjórn yfirfæri orðalagið. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Borgþór Kærnested óskaði eftir að taka til máls þar sem hann sagði að sér fyndist að hér væri laumulega verið að skerða rétt félagsmanna, ekki síst þeirra sem væru búnir að vinna árum saman og greiða á meðan til sjóðsins. Hann lagði til að öllum tillögunum um breytingar á reglum sjúkrasjóðs væri vísað frá.

Fundarstjóri sagði að þegar væri búið að samþykkja eina af tillögunum. Hann lagði til að framlögðum tillögum nr. 5, 6 og 7 yrði vísað frá. 22 greiddu atkvæði með frávísunartillögunni en 7 voru á móti.

TILLAGA 8 Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn 24. febrúar 2015 á Restaurant Reykjavík Vesturgötu 2 Reykjavík og á Háskólanum Akureyri samþykkir að Félag leiðsögumanna óski eftir að gerast aukaaðili að samtökunum FEG (Félagi evrópskra leiðsögumanna).

Fundarstjóri lýsti eftir þeim sem vildu taka til máls um tillöguna. Jakob S. Jónsson óskaði eftir skýringu stjórnar á óskinni um aukaaðild í stað fullrar aðildar. Örvar Már greindi frá muninum þarna á milli; full aðild leyfði að félagið tæki þátt í kosningum á þingi FEG en aukaaðild veitti öll réttindi nema þessar kosningar. Ekki er greitt fyrir þáttöku fulltrúa okkar á þingið og því er um talsverðan kostnað að ræða. Skúli Möller óskaði eftir að fá að bæta við orð Örvars og sagði að við græddum lítið sem ekkert á þessari aðild. Norðmenn væru t.d. með aukaaðild. Samþykkt með þorra atkvæða gegn einu.

TILLAGA 9 Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn 24. febrúar 2015 á Restaurant Reykjavík Vesturgötu 2 Reykjavík og í Háskólanum á Akureyri samþykkir eftirfarandi form á aðild einstakra félagsmanna að I.G.C.: Þeir félagsmenn sem þess óska velji sjálfir að gerast aðilar að I.G.C. Hver og einn félagsmaður, sem þess óskar, tilkynnir skrifstofu skriflega (í tölvupósti) um aðild sína og greiðir síðan sjálfur félagsgjald sitt í I.G.C. til Félags leiðsögumanna. Skrifstofan sér um að ganga frá heildargreiðslunni fyrir þessa félagsmenn til I.G.C. Eftir sem áður greiðir FL fast árgjald I.G.C., fyrir félagið, til samtakanna.

Fundarstjóri lýsti eftir þeim sem vildu taka til máls um tillöguna. Jakob S. Jónsson sagði að tillagan væri kauðslega orðuð og lagði til að tillögunni væri vísað frá. Henni væri vísað til stjórnar og sem orðaði hana betur og hún yrði síðan borin upp á ný.
Fundarstjóri bar upp tillögu Jakobs til samþykktar og samþykktu 5 frávísunartillöguna. Frávísunartillögunni var vísað frá gegn fimm atkvæðum.

Örvar Már óskaði eftir að fá að skýra enn frekar hugmyndina að baki tillögunni. Að því loknu bar fundarstjóri upp framlagða tillögu með því fororði að orðalag yrði lagfært. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri lýsti yfir fundarhléi til kl. 22:10.

4. Tillaga um stéttarfélagsgjald og fagfélagsaðild Örvar Már tók til máls og greindi frá því að stjórn legði til að gjöldin væru óbreytt. Úr sal kom spurning um hver gjöldin væru og Ásta Ólafsdóttir upplýsti að þau væru eftirfarandi: 1% af launum væri greitt í stéttarfélagsgjald, 7.500 kr. í fagfélagsgjald.

Fundarstjóri bar síðan tillöguna upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.

5. Kosning til stjórnar og í aðrar nefndir og trúnaðarstöður Jakob s. Jónsson kvaddi sér hljóðs og kom með dagskrártillögu. Hann greindi frá ástæðu sinni fyrir tillögunni og hvers vegna hann vildi bera hana upp fyrir stjórnarkjör. Jafnframt nefndi hann að hann hefði ekki lausnina á því hvernig ætti að framkvæma tillögu sína. Eftirfarandi er dagskrártillaga Jakobs S. Jónssonar: Aðalfundur Félags leiðsögumanna 24.2.2015 samþykkir að fela stjórn FL á komandi starfsári að leita allra hugsanlegra leiða til að sameina alla starfandi leiðsögumenn undir merki félagsins. Stjórn geri aðalfundi 2016 sérstaka grein fyrir framkvæmd þessarar tillögu.

Fundarstjóri kvaðst myndi leggja tillöguna fram undir dagskrárliðnum önnur mál.

Formannskjör Kosinn skal formaður til tveggja ára og núverandi formaður, Örvar Már Kristinsson, gaf kost á sér til endurkjörs. Enginn annar bauð sig fram. Örvar Már var endurkjörinn með lófaklappi og taldist réttkjörinn formaður til næstu tveggja ára.

Stjórn Laus sæti í stjórn voru tvö. Bryndís Kristjánsdóttir, ritari, og Júlía Hannam, gjaldkeri, áttu að ganga úr stjórn en báðar gáfu kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Sigurður Albert Ármannson lýsti yfir framboði sínu til stjórnar. Þrír voru því í framboði og því þurfti því að kjósa milli þeirra. Kjörseðlum var dreift um salina.
Framboðsmenn fengu að kynna sig og fyrst tók til máls Bryndís Kristjánsdóttir. Hún kynnti sjálfa sig stuttlega og störf sín fyrir félagið í áranna rás; núverandi stjórn væri mjög öflug og gott að starfa með henni, því væri hún tilbúin að veita félaginu og félagsmönnum krafta sína áfram, ef þeir vildu þiggja þá. Sigurður Albert Ármannson gerði grein fyrir því að hann vildi sameina alla leiðsögumenn en ekki að vera að skipta þeim upp í box, auk þess sem hann greindi frá öðrum málum sem hann vildi vinna að í stjórn. Örvar Már greindi frá störfum Júlíu Hannam sem gjaldkeri félagsins og hversu mikilvæg hún hefði verið í störfum sínum fyrir félagið.

Fundarstjóri óskaði eftir talningamönnum og þær Ásta Ólafsdóttir og Berglind Steinsdóttir töldu atkvæði á fundinum í Reykjavík en Ingimundur Róbert og Ingibjörg Smáradóttir töldu atkvæði fyrir norðan.

Fundarstjóri hélt áfram fundarstörfum á meðan talning fór fram.

Trúnaðarráð Berglind Steinsdóttir, Börkur Hrólfsson, Sigurður Albert Ármannsson og Halldór S. Magnússon gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi setu í trúnaðarráði. Fundarstjóri lýsti eftir fólki til að gefa kost á sér til setu í ráðinu. Hanna Charlotta Jónsdóttir, núverandi varamaður í trúnaðarráði, gaf kost á sér sem aðalmaður. Sigrún Eiríksdóttir gaf kost á sér sem aðalmaður. Úr sal barst spurning um hlutverk ráðsins. Fundarstjóri las þá upp úr framlögðum lögum félagsins ákvæðið um trúnaðarráðið. Hlíf Ingibjörnsdóttir gaf kost á sér sem aðalmaður. Enn vantaði fólk í ráðið og fundarstjóri lýsti eftir fleirum. Ingibjörg Jósepsdóttir gaf þá kost á sér sem aðalmaður og Jórunn Rothenborg gaf kost á sér sem varamaður. Þar með var fullmannað í aðal- og varamannssæti trúnaðarráðs og var það samþykkt. Aðalmenn: Ragnheiður Björnsdóttir, Pétur Gauti Valgeirsson, Hanna Charlotta Jónsdóttir, Sigrún Eiríksdóttir, Hlíf Ingibjörnsdóttir, Ingibjörg Jósepsdóttir. Varamenn: Elín Agnarsdóttir, Hólmfríður Sigvaldadóttir, Kristín E. Guðjónsdóttir, Elísabet Brand, Þórhildur Sigurðardóttir, Jórunn Rothenborg. Ritnefnd Berglind Steinsdóttir og Kári Jónasson gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í ritnefnd. Guðrún Helga Jónasdóttir gefur kost á sér áfram. Spurning kom úr sal um hlutverk nefndarinnar. Fundarstjóri las upp úr framlögðum lögum um hlutverk ritnefndar. Því næst lýsti hann eftir framboðum í ritnefnd. Jakob S. Jónsson gaf kost á sér. Ingibjörg Smáradóttir, úr norðurlandsdeildinni, gaf einnig kost á sér. Þar með var ritnefndin fullmönnuð og var hún svo samþykkt: Guðrún Helga Sigurðardóttir, Jakob S. Jónsson, Ingibjörg Smáradóttir.

Kjaranefnd Öll kjaranefnd gaf kost á sér til endurkjörs, nema Guðlaug Jónsdóttir varamaður. Sigríður Guðmundsdóttir gaf kost á sér sem varamaður. Þar með er kjaranefnd fullmönnuð og svo samþykkt: Formaður: Snorri Ingason Aðalmenn: Bergur Álfþórsson, Elísabet Brand Varamenn: Jens Ruminy, Sigríður Guðmundsdóttir

Skólanefnd Öll nefndin gefur kost á sér til áframhaldandi setu en á síðasta aðalfundi voru varamenn ekki kosnir. Fundarstjóri lýsti eftir framboði varamanna í skólanefnd. Spurt var úr sal hvert væri hlutverk nefndarinnar. Fundarstjóri las upp úr framlögðum lögum félagsins um hlutverk nefndarinnar. Sigurður Albert Ármannson og Marta B. Helgadóttir gáfu kost á sér og telst skólanefnd þar með fullmönnuð og svo samþykkt: Aðalmenn: Ása Björk Snorradóttir, Tryggvi Jakobsson, Þórunn Þórarinsdóttir Varamenn: Sigurður Albert Ármannson, Marta B. Helgadóttir

Niðurstaða kosningar til stjórnar Ásta Ólafsdóttir var í símasambandi við talningarstjóra fyrir norðan. Fundarstjóri las því næst upp niðurstöðu kosninganna. Atkvæði féllu þannig: Júlía hlaut 30 atkvæði, Sigurður Albert 16 atkvæði og Bryndís 33 atkvæði. Júlía og Bryndís töldust því réttkjörnar. Stjórn Félags leiðsögumanna er því skipuð eftirfarandi: Vilborg Anna Björnsdóttir, Bryndís Kristjánsdóttir, Júlía Hannam, Kári Jónasson, Marion Lerner, Þorsteinn Svavar McKinstry.

6. Önnur mál Guðrún Helga Sigurðardóttir óskaði eftir að taka til máls um breytingatillögur við reglur sjúkrasjóðs. Fannst henni umræðan um málið ekki hafa verið næg og óskaði eftir betri rökstuðningi fyrir breytingartillögunum. Henni litist ekki vel á þá þróun sem sjúkrasjóðurinn er að fara með þessum tillögum. Hún lýsti síðan yfir ánægju sinni með að þingmaður væri að leggja leiðsögumönnum lið, það væri afar mikilvægt. Hvatti hún félagsmenn til að ræða við þá þingmenn sem þeir þekktu og fá þá til að styðja tillögu Ásmundar Friðrikssonar þingmanns. Einnig ræddi hún um ýmsa þætti í starfi félagsins, sem hún vildi gjarnan sjá öðruvísi í framtíðinni.
Hún óskaði síðan eftir því að fá að bera fram eftirfarandi tillögu sína: Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn 24. febrúar 2015 samþykkir að gerð verði víðtæk könnun þannig að skýr mynd fáist á það hvernig stétt leiðsögumanna lítur út. Kannað verði bæði meðal félagsmanna annars vegar og leiðsögumanna almennt hins vegar hvernig kjör eru, hver menntunin er, hvernig vinnutími leiðsögumanna er, starfsreynsla og starfsaðstæður almennt.

Sigurður Albert tók til máls og þakkaði þeim sem kusu hann í nýliðnum kosningum. Hann taldi gott að kosið hefði verið um stjórnarmenn í stað þess að þeir væru sjálfkjörnir. Hann vænti þess að ný stjórn sýndi döngun en væru ekki áfram föst í fortíðinni og þeim vinnubrögðum sem þar hefðu verið viðhöfð. Hann nefndi að hann hefði séð til þess að samnemendur sínir í Endurmenntun HÍ gengju í félagið. Hann nefndi móttökur félagsins við nýja félagsmenn og að hann og annar nýliði hefðu fengið snuprur fyrir að spyrja um eitthvað sem ,,félagið“ taldi að þeir hefðu átt að vita. Hann hvatti félagið til að hafa móttökur við nýliða betri og hann vonaðist til að ný stjórn myndi stuðla að því að allir sem starfa sem leiðsögumenn gætu gengið í félagið. Borgþór Kærnested tók til máls um breytingatillögur við reglur sjúkrasjóðs. Sjóðurinn stæði vel og því væri erfitt að skilja þessar breytingatillögur. Hann og aðrir á hans aldri hefðu greitt í sjóðinn um árabil og ættu að fá að njóta hans þótt þeir væru ekki að borga mikið í sjóðinn núna þegar þeir eru farnir að vinna minna sökum aldurs. Bergur Álfþórsson tók til máls og sagði að sér fyndist fyrir neðan allar hellur hvernig Sigurður Albert hefði talað til starfsmanns félagsins. Sá hinn sami væri þekktur fyrir almenna ljúfmennsku og greiðasemi. Örvar Már tók til máls og baðst afsökunar á því að breytingatillögur við reglur Sjúkrasjóðs myndu skerða rétt félagsmanna til margra ára. Það hefði ekki verið hugmyndin á bakvið tillögurnar og af viðbrögðum fundarmanna væri ljóst að vinna þyrfti þessar tillögur betur. Hann ítrekaði síðan að hann vildi ekki á nokkurn hátt gjaldfella þá menntun sem félagsmenn sem eru í fagfélaginu hafi að baki og sagði að sá misskilningur væri í gangi, og mikið í umræðunni hjá þeim sem ekki vita betur, að félagið væri „lokað”. Stéttarfélagið væri opið öllum þeim sem starfa í greinni og hann óskaði eftir því að fundarmenn – og leiðsögumenn almennt - leiðréttu þennan misskilning. Guðrún Helga vildi árétta að með tillögu sinni væri hún að óska eftir betri upplýsingum um stétt leiðsögumanna.

Fundarstóri las því næst upp ofangreindar tillögur Jakobs og Guðrúnar Helgu. Hann nefndi að þær væru í raun náskyldar og bar upp þá tillögu sína að tillögum Jakobs og Guðrúnar væri vísað til stjórnar til frekari umfjöllunar og framkvæmdar. Guðrún Helga mótmælti og sagðist ekki fallast á þá málsmeðferð. Jakob samþykkti aftur á móti tillögu fundarstjóra um málsmeðferð á sinni tillögu. Fundarstjóri bar tillöguna upp til atkvæðagreiðslu. Tillagan var samþykkt með þorra atkvæða gegn 4.

Sigurður Albert spurði Guðrúnu Helgu hvort að verðmiði fylgdi tillögu hennar. Guðrún Helga svaraði að hún væri ekki með neinn verðmiða, en að margar leiðir væri hægt að fara við framkvæmdina og að þetta þyrfti ekki að kosta mjög mikið. Örvar Már greindi frá því að stjórn hefði nokkuð oft rætt það mál, sem kæmi fram í tillögu Guðrúnar Helgu, og m.a. rætt að fela t.d. nemendum við Hólaskóla að vinna slíka könnun. Fundarstjóri bar upp tillögu Guðrúnar Helgu og var hún samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri spurði hvort fleiri vildu taka til máls undir liðnum önnur mál en engir kváðu sér hljóðs. Fundarstjóri sleit fundi kl. 11:20.

Formaður kvaddi norðanmenn sérstaklega og þakkaði þeim fundarsetuna, áður en ,,slökkt“ var á fundinum.

Fundarritari: Bryndís Kristjánsdóttir