Aðalfundur Félags leiðsögumanna 19.2.14

Aðalfundur Félags leiðsögumanna haldinn 19. Febrúar 2014 kl. 20:00 á Restaurant Reykjavík

Formaður bauð félagsmenn velkomna. Lagði til að fundarstjóri yrði Tryggvi Jakobsson og að Bryndís Kristjánsdóttir, ritari félagsins, yrði ritari aðalfundar. Fundurinn samþykkti það.

Dagskrá 1. Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu ári. Formaður félagsins, Örvar Már Kristinsson, flutti skýrsluna.

Einnig las hann upp skilagrein frá Helga Jón Davíðssyni, sem falið var að kanna kosti þess, eða galla, á því að félagið flytti sig frá ASÍ. (Smellið hér til að lesa skilagreinina).

Fundarstjóri lagði til að annar liður yrði tekinn með fyrsta lið og síðan boðið upp á umræðu og afgreiðslu. Enginn hreyfði mótmælum við tillögu fundarstjóra.

2. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu. Gjaldkeri félagsins fór yfir reikningana. Smellið hér til að skoða reikningana.

Fundarstjóri gaf orðið laust um skýrslu formanns og reikninga. Pétur Jónsson kom upp og gerði athugasemdir við lið sem og um reikningslega aðstoð og óskaði eftir skýringum. Gjaldkeri skýrði liðina. Hann kom einnig með athugasemd við fundargerð síðasta aðalfundar, þ.e. að hann hefði komið með tillögu um laun formanns og annarra sem sætu marga fundi fyrir hönd félagsins, en að ekki hefði verið bókuð afgreiðsla þess. Sigurður Albert Ármannsson bað um orðið. Hann þakkaði gjaldkera fyrir greinargóða yfirferð og að haldið væri vel utan um reikninga og kostnað. Spurði hvort skýrsla formanns yrði aðgengileg á vefsíðu. Ritari svaraði að svo yrði. Hann spurði út í kjarasamning félagsins, þ.e. um forgang félagsmanna til starfa. Formaður svaraði og benti á að samningurinn væri á vefsíðunni og þar kæmi fram ákvæði um forgang félagsmanna til starfa.

Fundarstjóri tók upp málið sem Pétur Jónsson bar upp og tillagan, eins og hún kom frá honum á síðasta aðalfundi, var skoðuð á vefsíðu félagsins. Þar sem haldinn var aukaaðalfundur FL í fyrra þá virðist hafa láðst að bera tillöguna upp til samþykktar. Fundarstjóri óskaði eftir að fá að taka málið upp undir ,,önnur mál”.

Fundarstjóri bar upp til samþykktar skýrslu stjórnar, eins og formaður kynnti hana. Skýrslan var samþykkt samhljóða.

Fundarstjóri bar upp reikninga FL, eins og gjaldkeri kynnti þá. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.

Endurmenntunarsjóður FL: Reikningurinn borinn upp til samþykktar. Samþykktur samhljóða.

Reikningar sjúkrasjóðs FL: Reikningurinn borinn upp til samþykktar.
Samþykktur samhljóða.

3. Tillögur um lagabreytingar. Formaður greindi frá eftirfarandi:
Grein 22: Fjallar um félagsfund. Þar er setning um boðun aðalfundar. Grein 24: Fjallar um boðun aðalfundar. Væntanlega hefur það verið handvömm að fjallað er um aðalfund í 22. Grein. Því er borin upp tillaga er um að fella niður klausuna um aðalfund í 24. grein. Samþykkt samhljóða.

4. Tillaga um stéttarfélagsgjald og fagfélagsgjald. Engin tillaga er frá stjórn um breytingu á árgjöldunum. Gjöldin verða áfram óbreytt.

5. Kosning til stjórnar og í aðrar nefndir og trúnaðarstöður. Tvö sæti eru laus: Helgi Jón Davíðsson gefur ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Kári Jónasson gefur kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn. Aðrir sem gefa kost á sér eru: Snorri Ingason Marion Lerner Sigurður Albert Ármannsson. Guðlaug Jónsdóttir

Fundarstjóri bauð frambjóðendum að kynna sig og koma upp í stafrófsröð. Snorri var í ferð og því ekki viðstaddur. Bjarni Arthúrsson og Elísabet Brandt voru fengin til að telja atkvæðin. Bjarni kynnti niðurstöðuna: Marion og Kári voru með flest atkvæði og því réttkjörin til setu í stjórn.

Kosning í nefndir FL Formaður kynnti þær nefndir sem kjósa þarf í: Fræðslunefnd Í henni eru þrír aðalmenn og tveir varamenn. Engir sitjandi nefndarmenn gefa kost á sér og því þarf að kjósa alla nýja í fræðslunefndina. Þeir sem gefa kost á sér sem aðalmenn eru: Sigrún Agnarsdóttir Guðný Margrét Emilsdóttir Þórhildur Sigurðardóttir Varamenn: Ólöf Erna Adamsdóttir Borgþór Kjærnested

Ritnefnd Í henni eru þrír nefndarmenn, Berglind Steinsdóttir og Kári Jónasson gefa kost á sér til setu áfram. Kjósa þarf um einn. Guðrún Helga Sigurðardóttir gefur kost á sér. Fleiri gáfu ekki kost á sér og nefndin því réttkjörin.

Skólanefnd Í henni eru þrír nefndarmenn. Þeir gefa allir kost á sér áfram. Engin önnur framboð komu fram og nefndin því endurkjörin.

Kjaranefnd Allir aðalmenn gefa kost á sér áfram, utan Berglind Steinsdóttir. Aðalmenn eru Bergur Álfþórsson, Pétur Jónsson og Elísabet Brand. Varamenn eru Jens Ruminy og Guðmundur Örn Ragnarsson.

Bergur Álfþórsson óskaði eftir að taka til máls og sagði að sér þætti ekki verra að nýir tæku við í kjaranefnd, m.a. af sér. Nýir sem buðu sig fram voru: Sigurður Albert Ármannsson Guðlaug Jónsdóttir

Gjaldgengir til að kjósa eru þeir sem eru með stéttarfélagsaðild. Spurt var hvort að nýútskrifaðir væru með kosningarétt. Formaður og fundarstjóri fóru yfir lagatextann um málið og listi lá frammi yfir þá sem eru sannanlega eru með stéttarfélagsaðild. Niðurstaðan var að þeir fundarmenn sem eru á þeim lista hafa atkvæðisrétt. Í ljós kom að Sigurður Albert hafði ekki kjörgengi og Guðmundur Örn dró framboð sitt til baka. Kosið var um aðra sem hér eru nefndir. Atkvæðaseðlum var dreift en kjósa þurfti þrjá. Talningamenn: Bjarni Arthúrsson og Berglind Steinsdóttir. Bjarni kynnti niðurstöðuna: Flest atkvæði sem aðalmenn hlutu Bergur, Elísabet og Pétur. Varamenn voru kosin þau Jens og Guðlaug.

Trúnaðarráð Marion Lerner fellur úr trúnaðarráði þar eð hún var kosin í stjórn FL. Sigurður Albert Ármannsson gaf kost á sér og hlaut kosningu. Varamaður: Alda Sigurðardóttir baðst undan setu sem varamaður í nefndinni. Hanna Charlotta Jónsdóttir bauð sig fram. Engir fleiri buðu sig fram og hún var réttkjörin.

6. Önnur mál. a) Pétur Jónsson las upp handskrifaða tillögu sína og fór fram á að ritari lagaði orðalagið þannig að vel færi: Laun til félagsmanna fyrir mikil störf í þágu félagsins Laun til formanns hækki úr 400.000, um 100.000 kr. á ári, eða í allt að 500.000 kr. vísitölubundið. Laun til félagsmanna sem starfa fyrir hönd félagsins í nefndum og ráðum, sem krefjast mikillar fundarsetu, geti verið allt að 300.000 kr. vísitölubundið, sem þá skiptist á milli þessara fundamanna. Hvoru tveggja samkvæmt nánari samþykki stjórnar í hvert sinn og slík laun eru ákveðin og greidd miðað við vinnuframlag.

Tillagan var borin upp til samþykktar og var samþykkt samhljóða.

b) Jens Ruminy tók til máls og lagði til að stofnaður yrði verkfallssjóður. Hann hefði fundið leið innan laga FL sem væri fær. Sigurður Albert Ármannsson tók til máls sagðist leggjast gegn þessari tillögu. Marion óskaði eftir að málinu yrði vísað til stjórnar, sem fjalla myndi um málið en legði síðan fram tillögu um það til afgreiðslu á annað hvort félagsfundi eða aðalfundi. Bergur tók undir tillögu um að málinu yrði vísað til stjórnar. Borgþór Kjærnested sagðist fagna þessari tillögu. Með því að stofna sjóð værum við búin að gefa ákveðin skilaboð í Borgartún. Auk þess gætum við átt von á stuðningi erlendis frá. Löggilding væri þó það sem mikilvægast væri fyrir okkur. Sigurður sagðist fagna því að heyra loks minnst á löggildinu; það væru mikil vonbrigði að þetta mikla mál væri ekki til umræðu á þessum fundi. Bjarni Arthúrsson minnti á að þótt ekki hefði verið rætt um löggildingu á þessum fundi þá hefði varla verið unnið meira í nokkru máli í áranna rás en löggildingarmálinu. Örvar Már minnti á að hann hefði talað um löggildingamálið í skýrslunni í upphafi fundar. Jens tók til máls og að hér með væri hann búinn að ýta málinu í gang. Hann sagðist vera búin að vinna drög að reglugerð um slíkan sjóð, sem byggja mætti á. Hann væri búinn að fara yfir slíka sjóði hjá ýmsum stéttarfélögum. Hann lagði til að málinu væri vísað til stjórnar til frekari vinnslu. Borið upp til atkvæðagreiðslu og samþykkt.

c) Borgþór Kjærnested kom upp og greindi frá norrænu þingi leiðsögumanna sem haldið verður á Selfossi í maí 2014. Ráðstefna verður um eldfjöll og ferðamenn í hnattrænu samhengi. Aðalfundur IGC haldinn í framhaldinu. Allir félagsmenn eru boðnir velkomnir.

d) FEG aðild. Formaður lagði fram tillögu um að félagið væri aukaaðili í FEG í stað þess að vera aukameðlimur. Eina sem við missum er rétturinn til að kjósa stjórnarmenn FEG. Við þetta sparar félagið sér 900 evrur á ári. Borgþór Kjærnested taldi að við þettum misstum við að greitt yrði fyrir félagsmann að fara á fund. Þar eð þetta er vafaatriði sem skoða þarf betur og formaður dró því tillöguna til baka. Formaður sleit fundi og þakkaði fundarmönnum fyrir fundarsetuna. Í lokin brýndi hann fundarmenn til að láta í sér heyra í ríkari máli, s.s. með greinarskrifum.

Fundi slitið kl. 11:10. Fundarritari: Bryndís Kristjánsdóttir.