Stjórnarfundur 30.10.2013

Mætt: Steini, Vilborg Anna, Örvar, Júlía, Kári, Bryndís.
Gestir: Allar starfsnefndir voru boðaðar en mætt voru Ása Björk, skólanefnd, Þórunn og Tryggvi boðuðu forföll.  Pétur Jónsson, kjaranefnd, Beggi, Berglind og Jens boðuðu forföll.

Dagskrá

1. Störf nefnda
Ása Björk, frá skólanefnd: Tryggvi Jakobsson leitaði fregna hjá menntamálaráðuneyti uppfærslu á námskrá leiðsögunámsins með tilliti til Evrópustaðalsins um námið, sem samþykktur var á Íslandi 2008, skv. Staðlaráði. Ása lagði fram skjöl um samskipti Tryggva og ráðuneytisfólks. Ljóst er að þörf er á að fara yfir málið mun betur með ráðuneytinu þar sem ósamræmis gætir í vinnu ráðuneytisins. Skólanefnd falið að halda sem allra fyrst áfram með málið, þar sem frá var horfið.

Rætt var um hvernig hægt sé að meta þekkingu fólks sem ekki er með formlegt leiðsögunám að baki en hefur unnið lengi í faginu. Ása telur að þar sé ekki alfarið um vinnu skólanefndar að ræða, heldur þurfi stjórnin að koma þar að, sem og þurfi að vinna með skólunum til að finna leið til þessa.

Pétur Jónsson, frá kjaranefnd: Nefndin hefur hist nokkrum sinnum og hefur m.a. fengið niðurstöður úr vinnufundi Félags leiðsögumanna með Capacent. Kjaranefnd þarf að fara yfir gögnin og finna hvar áhersluatriðin eru til staðar í samningunum, hvar þau vantar og hvar þarf að skerpa á. Einnig þarf að endurreikna ýmsa kostnaðarliði. Þannig skapast áherslulistinn sem unnið verður út frá.
Formaður greindi frá samtali sínu við hagfræðing ASÍ um það hvernig búast mætti við að samningaferlið færi.  
Formaður nefndi að kjaranefnd hefði skipt með sér verkum um að bera saman okkar samning við ákveðinna annarra stétta. Gögn yfir slíkan samanburð hafa ekki borist en ítrekað verður við kjaranefnd að skila þeim innan tveggja vikna. Nefndin getur leitað til ASÍ um aðstoð við þetta verkefni. Halldór S. hefur sagt af sér störfum í nefndinni og þá gengur varamaður upp, Berglind Steinsdóttir. Nauðsynlegt er að allir kjaranefndarmenn séu kallaðir á alla fundi nefndarinnar því mikil vinna er framundan, sem vinnst auðveldar skipti menn með sér vinnunni. Halldór S. verður boðaður á fundinn og hann beðinn um að greina frá þeirri vinnu sem hann hafði þegar unnið í tengslum við kjaramál sem og að fá hann til að deila reynslu sinni af fyrri kjaranefndarvinnu. Pétur Jónsson boðar til fundarins.
Fræðslunefnd: kallað hefur verið eftir dagskrá vetrarins frá nefndinni en hún hefur ekki borist. Formaður mun fylgja málinu eftir.

2. Veikindaréttur leiðsögumanna

Skoða þarf málið í heild sinni með lögfræðingi ASÍ. Skrifstofu falið að gera það.    

3. Félagsfundur
Ákveðið að hafa félagsfund 20. nóvember kl. 20-22. Skrifstofu falið að athuga með húsnæði (Kaffi Reykjavík).
Kl. 20-21 Kynnt verður niðurstaða af vinnufundinum með Capacent. Kjaranefndin fer einnig yfir áherslumálin vegna komandi kjarasamningana.
Kl. 21-22 E.k. fræðslufundur með áhugaverðu erindi tæki síðan við. Nokkrar tillögur komu fram og Kára falið að hafa samband við fyrirlesara.

4. Markmiðasetning og framtíðarsýn Félags leiðsögumanna
Vinna þarf að slíku og hugmynd er um að halda vinnufund með félagsmönnum um málið.

5. Bréf til ráðherra ferðamála
Félag leiðsögumanna sendir bréf til ráðherra vegna starfshóps sem skipa á vegna náttúrupassa og gerir þar athugasemd vegna þess að ekki er gert ráð fyrir fulltrúa félagsins í hópnum. Aftur á móti er þar gert ráð fyrir fulltrúum fjölmargra annarra hagsmunaðila ferðaþjónustunnar.

Fundi slitið kl. 20:35
ritari: Bryndís Kristjánsdóttir