Stjórnarfundur, 4. apríl 2013 kl. 19.

Mætt: Kári, Örvar, Þorsteinn, Helgi, Bryndís, Júlía.

Fulltrúar Landeigendafélags Geysis óskuðu eftir fundi með okkur, eftirfarandi mættu:

Garðar Eiríksson , Bjarni Karlssson , Sigurður Másson, Konráð Örn Skúlason ,

1.      Um málefni Geysissvæðisins
Fulltrúar Landeigenda óskuðu eftir að koma á fund með stjórninni til að fá að skýra hvernig málum væri háttað á svæðinu. Þeir skýrðu frá eignarhaldi á svæðinu en ríkið á þar 34% en annað er í einkaeigu – segja má að svæðið sé óskipt sameign. Ríkið hefur í um aldarfjórðung lofað að kaupa svæðið en ekki staðið við loforð. Aðili á vegum ríkisins kemur úr Landmannalaugum á um 10 daga fresti á svæðið.  
2012 var stofnað Landeigendafélag Geysis en ríkið vildi ekki vera hluthafi í félaginu. Þeir hafa krafið ríkið um framtíðarsýn fyrir svæðið en engin svör fengið ennþá. Þeir hafa rekið svæðið frá 1. júlí s.l. og sjá m.a. um hreinsun svæðisins. Fulltrúar landeigenda lögðu fram lista yfir eigendur. Eins og málin standa þá er um opið svæði að ræða og hver og einn þarna á sína ábyrgð.
Félagið vill vera með gjaldtöku á svæðinu en þarf að vera í samstarfi við minnihlutaeigandann, þ.e. ríkið, með öll mál sem svæðið snerta.
Landeigendur, sveitarfélagið og ríkið eru með hugmyndasamkeppni um hönnun svæðisins sem öllum er frjálst að taka þátt í. Stefnt er að því að í kjölfarið verði gert deiliskipulag sem að lokum verður hægt að framkvæma eftir. Hugsanlega árið 2015.
Spurt var hvort þeir vildu koma einhverjum skilaboðum almennt til leiðsögumanna. Jú; að leiðsögumenn tækju höndum saman með félaginu um hvaðeina sem snertir umgengni og öryggismál á svæðinu á meðan ástandið er ennþá eins og það er nú.
Stjórnin lýsti yfir ánægju sinni með fundinn og er tilbúin að upplýsa félagsmenn og aðra um þær áætlanir sem eru í gangi, sem og þær hindranir sem landeigendur eiga við að etja. Tengiliður við félagið: rettarholt6 (at) simnet.is

2.      Svar við bréfi Ferðamálastofu sem snertir löggildingu starfs leiðsögumanna
Nefnd hefur verið að störfum við að svara bréfinu. Nú er svarið nokkurn veginn tilbúið og lögfræðingur mun lesa það yfir áður en það er sent.

3.      Fatamál
Talsvert álag verður vegna afgreiðslu merkts fatnaðar fyrir leiðsögumenn nú í vor. Samþykkt að greiða Ástu á skrifstofunni yfirvinnu á meðan á þessu stendur.

4.      Vefsíða
Ljóst er að alltof mikil vinna er fólgin í því að færa efni af núverandi vefsíðu félagsins á nýja síðu til að einstaka stjórnarmenn geti hlaupið í þá vinnu. Bryndís og Vilborg Anna hafa verið að vinna í vefsíðunni og er það þeirra tillaga að kaupa manneskju í verkið. Best væri að það yrði Ásta á skrifstofunni, þar sem hún mun hvort eð er þurfa að kunna vel á síðuna. Gjaldkeri mun ræða málið við hana.  

5.      Beiðni um notkun á merki félagsins
Málinu frestað með tilliti til samþykktar á aðalfundi.

6.      Ársreikningur
Júlía fór í verðkönnun á minni endurskoðendaskrifstofu en KMPG sem við höfum verið með hingað til, þá kom í ljós að hægt er að fá þessa vinnu u.þ.b. helmingi ódýrari. Samþykkt að gjaldkeri fengi að ganga til samninga við Guðmund Hannesson hjá DFK endurskoðendum.

7.      IGC
Ingibjörg Jósepsdóttir mun vera aðalmaður félagsins í IGC. Skúli Möller mun verða varamaður. Fundur IGC verður í Færeyjum 19.-21. apríl og mun formaður einnig fara.

Ritari: Bryndís Kristjánsdóttir