Aðalfundur Félags leiðsögumanna 28. febrúar 2013

Aðalfundur Félags leiðsögumanna  28. febrúar kl. 20:00 á Restaurant Reykjavík, Vesturgötu 2.

 

Formaður bauð félagsmenn velkomna og lagði til að Sigurður G. Tómasson yrði fundarstjóri og var það samþykkt.

 

Sigurður tók við fundarstjórn og lagði til að Bryndís Kristjánsdóttir yrði fundarritari og var það samþykkt.

Þá var gengið til dagskrár.

 

Dagskrá:

1.    Skýrsla stjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.
Formaður, Örvar Már Kristinsson, flutti skýrsluna. Þegar hann hafði lokið máli sínu tóku nokkrir til máls sem höfðu haft með höndum ákveðna vinnu sem fulltrúar stjórnar.
ASÍ v.s. VR: Fyrstur tók til máls Helgi Davíðsson og greindi frá könnun sinni á því hvort það færi betur á því að félagið gengi úr ASÍ og færi í staðinn undir hatt VR. Helgi greindi frá því að engin niðurstaða væri komin í málið og beindi því til fundarins að hann fengi heimild til að halda áfram með þessa vinnu.
Kjaranefnd: Halldór Sigurðsson tók því næst til máls og gerði grein fyrir störfum kjaranefndar.
Nefnd um gerð reglugerðar við frumvarp um skipan ferðamála: Bryndís Kristjánsdóttir greindi frá störfum í nefndinni en þar hefur hún átt sæti hátt í 2 ár.
Sérmerktur fatnaður fyrir félagsmenn: Vilborg Anna Björnsdóttir gerði grein fyrir vinnu hennar og Þorsteins McKinstri í þessu máli. Gerður hefur verið samningur við Cintamani, þar sem þeir komu mun betur út fjárhagslega. Jafnframt kom hún með sýnishorn af fatnaðnum svo félagsmenn gætu skoðað.
Ný heimasíða: Vilborg Anna greindi frá vinnunni við nýja heimasíðu, kostnaðinn við hana og hver staðan væri á núna. Ef áætlanir standast þá mun hún verða tilbúin innan skamms en skráin yfir félagsmenn gæti tekið lengri tíma í vinnu.  

 

2.    Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu.
Júlía Hannam, gjaldkeri félagsins, gerði grein fyrir reikningunum.

Fundarstjóri lagði til að gert yrði 15 mínútna kaffihlé áður en umræður um störf stjórnar hæfust.

 

Fundarstjóri bauð upp á umræður um reikninga félagsins:

Fyrstur óskaði Hjalti Björnsson eftir að fá orðið. Hann byrjaði á því að gera grein fyrir því hvers vegna hann hefði sagt af sér störfum, þ.e. vegna þess að einn stjórnarmaður hefði linnulaust ráðist á sig. Einnig sagði hann að hann hefði í tvígang óskað eftir að fá fjárhagsáætlun fyrir blaðið áður en farið var í framkvæmd þess en ekki fengið. Alltaf væri viðkvæmt þegar stjórnarmenn væru að skapa sér störf á vegum félagsins.
Síðan fór hann yfir endurskoðunarmál félagsins og að þau væru ekki á nógu góðu róli núna. Hann spurði einnig um hver stillt hefði upp reikningum fyrir endurmenntunarsjóð og sjúkrasjóð.

Borgþór Kærnested tók þar næst til máls. Einkum ræddi hann um erlent samstarf og þær tillögur sem komu fram um það, í máli formanns. Einnig væru talsverðar eignir í sjúkrasjóð og menntunarsjóði sem gæti þá verið vegna þess að lítið væri greitt úr sjóðunum til almennra félagsmanna. Hann óskaði síðan skýringa á ýmsum atriðum í reikningunum.

Júlía svaraði þeim spurningum sem fyrir hana höfðu verið lagðar, m.a. um laun vegna vinnu við blaðið, um endurskoðunarmál og kostnað vegna þeirra. Einnig svaraði hún spurningu um hækkun launa milli ára, sem og um laun formanns. Um hækkun árgjalda í félög, sem og um reikninga endurmenntunarsjóðs og sjúkrasjóðs sem voru starfsmenn ALVÍB.

Hjalti tók aftur til máls. Hann ræddi um reikninga sjóðanna og háan endurskoðendakostnað. Sagðist vera að fara frá félaginu og vildi því vera viss um hlutina áður. Þetta væri eign félagsins og stjórnin ætti ekki að vera að valsa um með svona fjármuni.

Hjalti hafnaði skýringu stjórnar.

Utan úr sal kom ósk um að menn styttu mál sitt svo fundurinn tæki einhvern tíma enda.

Örvar Már tók til máls og svaraði því sem sneri að endurskoðendamálum. Hann vitnaði í lög um að ASÍ þyrfti að samþykkja lagabreytingar.

Pétur Jónsson tók til máls og ræddi um tillögu sem hann flutti í fyrra um laun formanns og laun fyrir fundarsetur, s.s. vegna lögildingarmála o.þ.h. Hann lagði til að sú upphæð sem hann lagði til í fyrra hækkaði um 100.000 kr.

Borgþór Kærnested tók undir tillögu Péturs nema að greiðslan gengi til þess fólks sem væri að vera í opinberum nefndum fyrir hönd félagsins.

Fundarstjóri ítrekaði að hann þyrfti að fá allar tillögur skriflega til sín.

 

Ein spurning kom úr sal um útgreiðslu úr sjúkrasjóði sem gjaldkeri svaraði.

 

Fundarstjóri bar upp reikningana til samþykktar og voru þeir samþykktir einróma.

 

Þá var komið að umræðu um störf stjórnar.
Marion Lerner tók fyrst til máls og lýsti yfir ánægju sinni með störf stjórnar, einkum eftir að nýr formaður kom til starfa. Hún sagðist vera að tala fyrir hönd margra sem sátu í kringum hana í salnum. Sagði að félagið ætti að vera þakklátt fyrir að innan raða félagsins væri fólk sem gæti sinnt störfum eins og að vinna heimasíðu, gefa út blað, hanna merki, nafnspjöld o.s.frv. Mikið lófaklapp fylgdi orðum hennar.

Hjalti Björnsson tók aftur til máls og lýsti yfir óánægju sinni með hvernig stjórnin væri að taka á alþjóðlegu starfi félagsins. Einnig sagði hann frá því að Örvar hefði tekið sér alræðisvald og rekið sig úr stjórn IGC, norrænu samtökum leiðsögumanna. Að lokum hvatti hann félagsmenn til að mæta á IGC fundinn í Færeyjum í apríl n.k.

Örvar svaraði Hjalta og las m.a. upp úr uppsagnarbréfi Hjalta en af því mátti ráða að hann hefði sagt sig úr öllum störfum á vegum félagsins. Einnig fór hann yfir þann stjórnarfund þar sem Hjalti sagði af sér.

Þórunn tók til máls og tók undir mál Marion hvað snerti störf núverandi stjórnar. Einnig ræddi hún sína túlkun á því þegar fólk segði sig úr stjórn; þ.e. þar með væri það ekki að koma fram fyrir hönd félagsins.

Ragnheiður Björnsdóttir ræddi um IGC og FEG samstarfið. Einnig og ræddi hún um hvernig fólk er tilnefnt í stjórn IGC.   

3.    Tillögur um lagabreytingar og breytingar á reglugerðum.
Formaður fór yfir allar lagabreytingar, sem voru skáletraðar á framlögðum gögnum.
Hann skýrði jafnframt tillögur að breytingum á reglugerð fyrir sjúkrasjóð.
Endurmenntunarsjóður; skv. athugasemdum frá SAF ætti að úthluta meira úr sjóðnum. Stjórnin er þessu sammála og miðast breytingatillögur við það.

Fundarstjóri taldi að miklar líkur væri á að boða þyrfti til framhaldsaðalfundar, svo mikið væri eftir á dagskrá, en það væri fundarins að ákveða það.

Marion tók til máls og sagði að sér litist að mestu vel á tillögurnar en lagði til að tryggingfræðilegir útreikningar færu fram á sjóðunum og úthlutunum úr þeim, áður en breytingar væru samþykktar.

Borgþór sagðist nokkuð ánægður með tillögur um menntunarsjóðinn. Sagðist aftur á móti hafa áhyggjur af sjúkrasjóðstillögunum. Hann sagði að skoða þyrfti orðalagið um starfshlutfall í sambandi við jarðarfarakostnað.
Örvar svaraði athugasemdum Borgþórs.
Hjalti tók til máls um lagabreytingar, einkum um merki félagsins og sagði að það væri eign félagsmanna en ekki fyrirtækja. Hann vildi að greinin væri óbreytt. Hann sagðist taka undir það sem kom fram úr sal að það væri einn útfararstyrkur fyrir alla.

Sigurþór tók til máls um merki félagsins. Hann taldi að það gæti verið félaginu til framdráttar að fyrirtæki gætu notað merkið eins og lagabreytingin gerði ráð fyrir. Við vildum jú vera sýnilegri.

Bergljót sagðist taka undir orð Sigurþórs en að það mætti persónugera lógóin inni á heimsíðum, þ.e. lógó prentað með mynd af viðkomandi.

 

4.    Tillaga um stéttarfélagsgjald og fagfélagsgjald.
Borin var upp tillaga frá Helga Jóni Daníelssyni um að félagsgjald verði hækkað úr 6000 kr. í 7500 kr. og miðist framvegis við launavísitölu. Tillagan var samþykkt.

5.    Eftirfarandi tillaga frá Helga Daníelssyni borin upp:

Fundurinn samþykkir að viðræður við VR verði kláraðar og kostir og gallar samruna verði bornir undir næsta aðalfund.
Tillagan samþykkt.

 

Fundarstjóri bar upp tillögu um að aðalfundi væri frestað og að stjórn væri falið að boða til framhaldsaðalfundar.

Tillagan var samþykkt með 28 atkvæðum gegn 10.

 

Fundarritari: Bryndís Kristjánsdóttir