Leiðsögn - Stéttarfélag leiðsögumanna

Í lögum félagsins segir um stéttarfélagsaðild:

3. gr. Félagsaðild

Rétt til aðildar að Leiðsögn eiga;
a. allir sem starfa að leiðsögn, fararstjórn og hópstjórn í ferðaþjónustu á Íslandi eða á vegum íslenskra fyrirtækja erlendis
b. greiða félagsgjöld til félagsins í samræmi við lög þess.
c. og standa ekki í óbættum sökum við félagið eða önnur stéttarfélög innan Alþýðusambands Íslands.

Félagsmenn, sem missa starf sitt á vinnumarkaði, geta áfram verið félagsmenn gegn greiðslu félagsgjalds af greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem sjóðurinn hefur milligöngu um að skila til félagsins.

Félagar, sem látið hafa af störfum við leiðsögn, geta verið áfram félagsmenn gegn greiðslu lágmarksfélagsgjalds skv. 6. gr. þó án þess að njóta kjörgengis í félaginu eða atkvæðisréttar um kjarasamninga. Skulu þeir hafa verið félagsmenn óslitið í 3 ár áður en þeir láta af leiðsögustörfum.

Réttindi félagsmanna samkvæmt 2. og 3. mgr. í sjóðum félagsins eru háð nánari reglum einstakra sjóða Leiðsagnar.

4. gr. Einyrkjar

Rétt til aðildar eiga jafnframt sjálfstætt starfandi einyrkjar í verktöku við leiðsögn, sem ekki hafa launaða starfsmenn í vinnu.
Einyrkjar hafa ekki atkvæðisrétt um kjarasamninga.

5. gr. Innganga í félagið

Umsækjendur um félagsaðild skulu óska aðildar að félaginu með inntökubeiðnum eða með skilum á gjöldum til félagsins. Aðild nýrra félagsmanna að félaginu skal staðfest af skrifstofu félagsins árlega og skal félagið senda viðkomandi staðfestingu á inngöngu í félagið. Geri hann ekki athugasemdir um aðild innan 30 daga frá dagsetningu staðfestingarinnar telst hann orðinn félagsmaður. Ekki er þörf sérstakrar staðfestingar ef viðkomandi hefur áður greitt til félagsins.

Um iðgjöld félagsmanna skv. 1. mgr., gilda ákvæði kjarasamninga félagsins á hverjum tíma.
Sé vafi um rétt til aðildar skal stjórn úrskurða um málið. Unnt er að skjóta þeirri ákvörðun til úrskurðar trúnaðarráðs.
Nýjum sjálfstætt starfandi félögum skv. 4. gr. sem óska aðildar að félaginu er skylt að veita upplýsingar um starfssvið, áætlaðar tekjur og gögn frá opinberum aðilum til staðfestingar á tekjum sé þess óskað.

6. gr. Félagsgjöld

Allir félagar skulu greiða ákveðinn hundraðshluta af launum fyrir ferðaleiðsögn í félagssjóð. Launagreiðendur draga þetta gjald af launum leiðsögumanns í samræmi við kjarasamninga og skila því til félagsins, en sjálfstætt starfandi standa skil á þeim gjöldum sjálfir.

Aðalfundur ákveður hlutfall félagsgjaldsins á hverju ári. Lágmarksgjald til að öðlast félagsaðild og halda henni samsvarar félagsgjaldi af launum samkvæmt lægsta taxta félagsins fyrir 15 daga vinnu á síðustu 12 mánuðum fyrir aðalfund hverju sinni.

Félagar í fagdeildum sbr. 7. gr. greiða að auki fast árgjald til sinnar fagdeildar.
Fjárhæð fagdeildargjalds og skipting þess milli verkefna fagdeildar og félagsins skal ákveðin á aðalfundi samhliða ákvörðun félagsgjalds.