Siðareglur

Siðareglur leiðsögumanna

1. Leiðsögumaður skal ávallt vinna starf sitt af alúð og fylgja í hvívetna reglum þessum á þann veg að til álitsauka sé fyrir hann sjálfan og stéttina í heild.

2. Leiðsögumanni ber að vera snyrtilegur til fara við störf sín og haga svo klæðaburði sínum, málfari og allri framkomu að hann komist hjá að vekja andúð farþega, almennings, starfsfólks ferðaþjónustunnar eða atvinnurekenda síns.

3. Leiðsögumaður skal jafnframt gæta stundvísi í starfi.

4. Réttindamerki viðkomandi fagdeildar Leiðsagnar - Stéttarfélags leiðsögumanna skal félagsmaður ætíð bera við störf sín svo að það sjáist.

5. Leiðsögumanni ber að sýna lipurð og tillitsemi í umgengni við farþega og starfsmenn og gæta fyllstu reglusemi í ferðum. Leiðsögumanni ber að tileinka sér þá háttsemi að aðstoða og vinna með öðrum leiðsögumönnum þegar svo ber undir og sé þess óskað. Þegar margir ferðamannahópar eru samtímis á tilteknum stað skulu leiðsögumenn sýna hverjir öðrum fyllstu tillitsemi.

6. Mikilvægt er að gott samstarf ríki milli leiðsögumanns og bifreiðarstjóra og á leiðsögumaður að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

7. Leiðsögumaður uppfylli skyldur sínar gagnvart atvinnurekanda sínum af nákvæmni og samviskusemi. Leiðsögumanni ber að fara að fyrirmælum og ferðaáætlunum atvinnurekanda síns svo sem frekast er kostur og hafa við hann samráð um allar aðkallandi breytingar.

8. Leiðsögumaður skal forðast orð og athafnir sem kasta rýrð á land okkar, þjóð og lífsvenjur. Leiðsögumaður skal ávallt miðla upplýsingum um land og þjóð á grundvelli staðreynda og haldbærrar þekkingar sinnar. Hann skal skýra satt og rétt frá því sem fyrir augu ber og sýna óhlutdrægni í starfi. Forðast ber að særa þjóðernisvitund manna sem og að mismuna farþegum. Veita ber farþegum réttar upplýsingar um þjónustu. Ekki er við hæfi að leiðsögumaður stundi eigin sölumennsku né gangi erinda einstakra viðskiptahagsmuna, áskilji sér ókeypis veitingar eða umboðsþóknun.

9. Leiðsögumaður má ekki taka að sér verkefni sem hann er ófær um að leysa fullnægjandi af hendi, t.d. vegna ónógrar tungumálakunnáttu, nema óhjákvæmilegt sé og þá í samráði við viðkomandi atvinnurekanda.

10. Hafi leiðsögumaður tekið að sér verkefni er honum óheimilt að setja eða ráða annan í sinn stað, án samráðs við atvinnurekanda, nema um neyðartilvik sé að ræða.

11. Brot á reglum þessum getur varðað við áminningu frá stjórn félagsins og sé um ítrekað brot að ræða getur það varðað við brottvikningu viðkomandi úr Félagi leiðsögumanna. Málefni er varða ófélagsbundna leiðsögumenn skulu teki upp við viðkomandi atvinnurekanda og/eða viðsemjenda félasins.

Leiðsögumönnum ber ávallt að hafa í heiðri einkunnarorð félagsins:

Landinu virðing, lífinu hlýja.

Reglur þessar voru samþykktar á framhaldsaðalfundi Leiðsagnar - Stéttarfélags leiðsögumanna 17. mars 1999.