5,69 prósenta hækkun á dagvinnutaxta

Kæru félagar í Félagi leiðsögumanna !

Í síðustu viku voru undirritaðir kjarasamningar milli Félags leiðsögumanna og Samtaka ferðaþjónustunnar og SA sem eiga að gilda til 28. febrúar 2015. Sem kunnugt er var svokallaður „sólstöðusamningur“ felldur í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna FL, en kjaranefnd félagsins kom ekkert að þeim samningi. Í framhaldi af því óskaði félagið eftir fundi með SAF og fór sá fundur fram föstudaginn 21.mars. Þar lagði kjaranefnd á ný fram kröfur félagsins frá því í haust, en fjölmenn samninganefnd stærstu ferðaþjónustufyrirtækjanna ásamt lögfræðingi SA svaraði með því að vísa í „sólstöðusamningana“ og viðbótina við þá frá í febrúar. Eftir nokkrar umræður féllust viðsemjendur okkar á að taka til endurskoðunar kostnaðarliði í gildandi kjarasamningum auk símakostnaðar. Niðurstaðan varð sú að kostnaðarliðir hækka um 14% og símakostnaður fer úr 250 krónum á dag í 350 krónur sem er 40% hækkun. Þá hækka laun leiðsögumanna með sama hætti og laun annarra stétta innan ASI frá og með 1.mars , auk þess sem 15 krónur bætast við hvern launaflokk vegna eingreiðslna sem önnur félög fengu. Einnig gilda sömu hækkanir varðandi desember og orlofsuppbót og hjá öðrum, en hjá lausráðnum kemur þetta fram í hækkun kostnaðarliða Samkvæmt okkar útreikningum hækkar dagvinnukaupið í 4. flokki um tæp 5,7 %.

Samningsaðilar gera sér grein fyrir að núgildandi samningur er meingallaður og þarf að taka hann allan til gagngerar endurskoðunnar.

Einnig vita viðsemjendur okkar að við komum til með að fara fram á meiri hækkanir í þeirri samningalotu sem bíður okkar, þegar þessi samningur hefur verið staðfestur. Framundan er mikil vinna við gerð nýs og uppfærðs kjarasamnings. Þá kemur okkur til góða sú vinna sem við höfum sett í undirbúning þessarar samningalotu.

Ég hvet þá félagsmenn sem eiga rétt á að greiða atkvæði um kjarasamninginn til að nýta sér rétt sinn. Ennfremur hvet ég félgsmenn til að samþykkja þennan samning þannig að kjaranefnd okkar geti farið að einbeita sér að komandi samningalotu!

Þeir sem hafa rétt til að greiða atkvæði hafa nú þegar fengið póst, rafrænt eða með bréfi. Þar eru greinargóðar upplýsingar hvernig maður ber sig að við að greiða atkvæði. Eins og síðast verður um rafræna atkvæðagreiðslu að ræða.

Já, þýðir að samþykkja. Nei, þýðir að fella.

Atkvæðagreiðslu lýkur um hádegi fimmtudaginn 3. apríl.

Enn á ný hvet ég alla að nýta atkvæðarétt sinn!!!!!!

Með félagskveðju, Örvar Már Formaður Félags leiðsögumanna