Fréttir

23. apríl 2014

Menntun starfsfólks er mikilvæg fyrir gæði greinarinnar

KPMG kynnti skýrslu um arðsemi hótelgeirans á Íslandi í dag. Framboð hótelherbergja hefur aukist umtalsvert á síðustu 5 árum en þó ekki í takt við vöxt í fjölda ferðamanna. Hlutfallsleg framboðsaukning hótelherbergja var mismunandi eftir landshlutum en á Vestfjörðum var mesta aukningin. Þrátt fyrir mikla framboðsaukningu hefur nýtingarhlutfall hækkað í öllum landshlutum. Hægt er að merkja að það hefur dregið úr árstíðarsveiflum þar sem hlutfallsleg aukning í komum erlendra ferðamanna er mest utan háannar ferðaþjónustunnar. Gistinóttum utan háannar fjölgaði um 64% en hlutfallslega jókst gisting utan háannar mest á Austurlandi og Vestfjörðum. Traustari innviðir gera ferðaheildsölum betur kleift að senda ferðahópa út á landsbyggðina. Miðað við þau verkefni sem vitað er af má gera ráð fyrir töluverðri framboðsaukningu á komandi árum. Ákveðin hættumerki leynast í þessari aukningu þar sem tölfræði um menntun starfsfólks í námi sem nýtist í hótelstarfsemi gefa til kynna að lítil fjölgun virðist hafa átt sér stað. Sú þróun getur komið til með að bitna á þjónustu hótela og ánægju þeirra gesta sem sækja Ísland heim. Meðalafkoma hótela hefur batnað á milli áranna 2009 og 2012, þá sérstaklega höfuðborgarinnar samanborið við landsbyggðina. Sjá nánar hér.

Lesa meira »
16. apríl 2014

Hvað viltu upp á dekk

Fræðslu- og tengslaráðstefnan „Hvað vilt´upp á dekk?“ verður haldin dagana 5. -6. maí n.k. að Hótel Norðurljósum/Northern light Inn sem liggur nálægt Bláa lóninu. Ráðstefnan hefst kl. 11:00 5. maí og lýkur kl. 13:00 6. maí. Kvennaráðstefna ASÍ „Hvað vilt‘upp á dekk?“ var síðast haldin árið 2009 og tókst með endum vel og því var ákveðið að endurvekja þennan viðburð nú 5 árum síðar vegna fjölda áskorana. Við hvetjum allar talskonur verkalýðshreyfingarinnar að skrá sig og taka þátt þar með talið; kjörnir fulltrúar, starfsmenn, trúnaðarmenn og virkir félagar. Þema ráðstefnunnar í ár er VALD þar sem lögð verður áhersla á mismunandi birtingarmyndir valds út frá sjónarhóli kvenna. Ráðstefnan samanstendur af erindum, umræðum og hópavinnu. Markmið kvennaráðstefnunnar er að efla konur innan hreyfingarinnar og styrkja tengslanet þvert á landssambönd og félög. Verið er að vinna að metnaðarfullri dagskrá sem verður send út á næstu dögum. Mikilvægt er að forysta stéttarfélaga hvetji sínar konur til að fjölmenna á ráðstefnuna. Skráning fer fram á heimasíðu Félagsmálskólans – smelltu hér og þarf hún að berast eigi síðar en 28. apríl.

Lesa meira »
15. apríl 2014

Upplýsingaskjáir fyrir ferðamenn

Á helstu viðkomustöðum ferðamanna víðsvegar um landið hefur nýtt skjáupplýsingakerfi Safetravel verið tekið í notkun.Fyrsti skjárinn var tekinn í notkun hjá Olís í Norðlingaholti. Skjáirnir verða settir upp á stærri upplýsingamiðstöðvum, umferðamiðstöðvum, flugvöllum, stærri gististöðum og bensínstöðvum. Upplýsingagjöf til ferðamanna er mikilvæg forvörn. Náttúran er stærri þáttur í ferðalaginu á Íslandi en víða annarsstaðar. Veður geta orðið válynd á skömmum tíma. Útlit mun verða samræmt en upplýsingarnar sem birtast staðbundnar. Þannig gæti skjár í Staðarskála t.d. sýnt færð á Holtavörðuheiði á vefmyndavél og á korti yfir Norðvesturland, svo dæmi sé tekið. Einnig verða birt almenn ferðaheilræði, svo sem varðandi akstur, gönguferðir, þverun straumvatna, neyðarnúmerið 112 og fleira í þeim dúr. Í tilfellum þar sem stór vá væri fyrir höndum gæti viðvörun um slíkt tekið yfir allan skjáinn eða hluta hans.

Lesa meira »
10. apríl 2014

Ný launatafla Félags leiðsögumanna

Ný launatafla hefur verið birt á heimasíðunni undir kjaramál. Smelltu hér til að sjá launatöfluna. Dagvinnukaup hækkar mismikið milli flokka. Hækkunin er um 3%. Kostnaðarliðir hækka um 14% og símakostnaður fer úr 250 krónum á dag í 350 krónur sem er 40% hækkun. Samningurinn tekur gildi frá og með 1.mars. Á.Ó.

Lesa meira »

Viðburðadagatal