Fréttir

27. janúar 2015

Laun á Íslandi í samanburði við hin Norðurlöndin

Mikið hefur verið fjallað um laun og launakjör á Íslandi í samanburði við kjör félaga okkar á hinum Norðurlöndunum, en lítið hefur verið um haldbærar upplýsingar um hver þessi munur er. ASÍ hefur reglulega gert samanburðarkannanir á lífskjörum hér og á Norðurlöndunum og þá horft bæði til tekna, skatta sem og ýmissa tilfærslna eins og barna- og húsnæðisbóta.
Laun á hinum Norðurlöndunumeru talsvert hærri en hér á landi eða ríflega 60% hærri að meðaltali. Hæst eru dagvinnulaunin í Danmörku og Noregi en munurinn er minni gagnvart Svíþjóð og Finnlandi. Að baki þessum mikla mun á launum er einnig talsverður mun á verðlagi þannig að launin endast ekki endilega jafnvel í öllum löndunum, þ.e. kaupmáttur þeirra er mis mikill. Þegar tekið hefur verið tillit til mismunandi verðlags minnkar launamunurinn verulega, einkum í Noregi og Danmörku, og verður að meðaltali tæplega 30% í stað 60% áður. Nú er það einnig staðreynd að tekjuskattar og útsvar ásamt framlögum til lífeyrismála eru mjög ólík milli Norðurlandanna og yfirleitt mun hærri í hinum löndunum fjórum en á Íslandi. Að sama skapi eru tekjujöfnunaráhrif skattkerfanna mjög mismunandi og hafa jafnan verið minnst hér á landi. Í útreikningunum hefur verið tekið tillit til þessara þátta m.v. einstaklinga en horft er fram hjá áhrifum tilfærslna eins og barna- og húsnæðisbóta. Á þennan mælikvarða minnkar munurinn á dagvinnulaunum enn frekar og er um 20% að meðaltali.
Mestu munar um áhrif tekjuskattkerfisins í Danmörku og Noregi, en í þessum löndum er lögð meiri áhersla á persónuskatta samanborið við t.d. Svíþjóð og Finnland sem leggja meiri álögur á launaútgjöld fyrirtækja.
Samandregið eru regluleg dagvinnulaun á Íslandi að meðaltali um 20% lægri en á hinum Norðurlöndunum þegar tillit hefur verið tekið til mismunandi verðlags og skatta. Mestur er þessi munur gagnvart Danmörku, 29%, og Noregi, 27% en minnstur gagnvart Svíþjóð, 7%.
Fréttabréf ASÍ.

Lesa meira »
26. janúar 2015

Ráðstefna um rafrænt eftirlit

Persónuvernd heldur málþing um rafrænt eftirlit á evrópska persónuverndardaginn, sem er miðvikudaginn 28. janúar.

Erindi á málþinginu eru fjölbreytt og lúta m.a. að almennum heimildum og skilyrðum til vöktunar, rafrænni vöktun í verslunum, sem oft beinist að starfsfólki, á almannafæri og hjá lögreglu. Þá verður einnig fjallað um möguleika rafræns eftirlits með flygildum eða "drónum" og nýja samþykkisskilmála á Facebook, sem gera samfélagsrisanum kleift að fylgjast með og vinna upplýsingar um notendur.

Málþingið verður haldið í sal Þjóðminjasafns Íslands, 28. janúar og stendur frá kl. 13.30 - 16:00. Léttar kaffiveitingar verða í boði og er málþingið opið öllum. Ekki þarf að skrá sig sérstaklega.

Dagskrá ráðstefnunar má sjá hér á personuvernd.is

Lesa meira »
22. janúar 2015

KALLAÐ EFTIR MÁLSTOFUM

Rannsóknamiðstöð Ferðamála heldur næsta haust hina árlegu norrænu ráðstefnu um rannsóknir í ferðamálum "Nordic Symposium in tourism and Hospitality research". Ráðstefnan verður nú haldin í 24. sinn og að þessu sinni í Reykjavík dagana 1.-3. október.

Um er að ræða stóra alþjóðlega ráðstefnu þar sem kynntar eru rannsóknir í ferðamálum á Norðurlöndum. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er „ Responsible tourism?“ Hún fer fram í nokkrum málstofum og hefur nú verið kallað eftir þeim umfjöllunarefnum sem þar eiga að vera (Call for session proposals). Tillögur skulu að hámarki vera 200 orð og skal senda fyrir 1. mars næstkomandi á netfangið edward@unak.is Sjá nánar á ferdamalastofa.is:

Lesa meira »
19. janúar 2015

Fyrirtæki í ferðaþjónustunni skora á SAF

Sautján fyrirtæki í Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) skora á stjórn samtakanna að hún beiti sér fyrir því að tekin verði upp sérstök komugjöld á Íslandi, til að fjármagna viðhald og uppbyggingu ferðamannastaða.
Í áskoruninni segir að með því móti myndi stjórn SAF starfa í samræmi við vilja og sannfæringu meirihluta félagsmanna, sem fram hafi komið í skoðanakönnun samtakanna í haust. Kjarninn sagði frá niðurstöðum umræddrar könnunnar í desember, en þar var umdeildur náttúrupassi settur í sjötta sætið yfir þá valkosti sem félagsmenn SAF vildu að samtökin myndu berjast fyrir til að standa undir fjármögnun á nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi. Sjá frétt á Kjarninn.is

Lesa meira »