Fréttir

3. september 2015

Jarðfræðikort af Norðurgosbelti

ÍSOR hefur gefið út nýtt jarðfræðikort af suðurhluta Norðurgosbeltisins, Ódáðahrauni og nágrenni. Þetta er fyrsta nákvæma jarðfræðikortið af þessum landshluta.
Kortið nær til margra af helstu náttúruperlum landsins, s.s. Herðubreiðar, Krepputungu, Öskju, Kverkfjalla og Suðurárbotna. Einnig má nefna yngsta hraun landsins sem kom upp í Holuhrauni 2014-2015. Móbergsmyndanir og nútímahraun með gígum og gossprungum skipa stærstan sess á kortinu. Alls voru um 90 hraun aðgreind og þeim skipt í flokka eftir aldri og gerð m.a. með hjálp gjóskulaga. Af öðrum myndunum má nefna flóðset við Jökulsá á Fjöllum sem vitna um mikil hamfarahlaup, lindir, lindasvæði og jarðhita. Sprungur og misgengi setja ennfremur mikinn svip á landið. Helsta nýnæmið með þessu korti er að nú er hægt að fá mun heildstæðari og nákvæmari mynd af jarðfræði svæðisins en áður, eins að mörg hraunanna hafa aldrei verið skoðuð eða skilgreind fyrr. Kortið er beint framhald af jarðfræðikorti af nyrðri hluta Norðurgosbeltisins sem kom út árið 2012.
Höfundar kortsins eru jarðfræðingarnir Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Kristján Sæmundsson, Sigurður Garðar Kristinsson og Skúli Víkingsson.
Um kortahönnun sá Guðrún Sigríður Jónsdóttir.
Kortinu verður dreift í helstu bókaverslanir hjá Eymundsson, Iðnú og Forlagið, gestastofur og upplýsingarmiðstöðvar um land allt.

Lesa meira »
31. ágúst 2015

Suðurland landshlutakort

Í sumar var gefið út nýtt landshlutakort fyrir Suðurland. Að þessu sinni var ákveðið að gefa það út í nýju broti. Um er að ræða svokallað harmonikkubrot. Gefur það möguleika á að nota kortið að hluta og/eða í heild. Aftan á kortinu eru svo bæði öryggisupplýsingar til ferðamanna sem og upplýsingar um áhugaverða staði á Suðurlandi. Kortinu er dreift markvisst á upplýsingamiðstöðvar á landinu og er hægt að nálgast það þar, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Markaðsstofu Suðurlands. Hægt er að smella á kortið hér.

Lesa meira »
26. ágúst 2015

Launaleynd

Það vill enn bera við, að atvinnurekendur setji inn í ráðningarsamninga ákvæði um að starfsmönnum sé óheimilt að skýra frá launum sínum. Slík ákvæði urðu hins vegar óskuldbindandi eftir setningu nýrra jafnréttislaga nr. 10/2008. Þar segir í 3.mgr. 19.gr. „Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.“ Þó svo að ákvæði þetta sé að finna í jafnréttislögum, þá hefur það almennt gildi og heimilar frásögn um launakjör án þess að slík frásögn þurfi að tengjast beint umræðu eða ágreiningi um jafnréttismál eða jafnfrétti á vinnustað. Við setningu laganna lá fyrir skýrsla Capacent Gallup um launamyndun og kynbundinn launamun sem unnin hafði verið haustið 2006. Niðurstaða hennar var sú að óútskýrður munur á launum karla og kvenna væri 15,7%. Samkvæmt könnuninni töldu margir að launamunur þrifist betur í skjóli launaleyndar og að launaleynd ýtti undir launamun þar sem hún gerði stjórnendum auðveldara að hygla fólki á ófaglegum grundvelli. Starfsmönnum má ekki refsað með nokkrum hætti fyrir að skýra frá launum sínum þó þeir hafi gengist undir slíkt í ráðningarsamningi enda væri ákvæðið merkingarlaust ef svo væri og grafið undan tilgangi laganna.

Lesa meira »
24. ágúst 2015

Myndband um lestur launaseðils

ASÍ hefur gefið út myndband til að auðvelda lestur launaseðils. Í myndbandinu er launaseðillinn ýtarlega yfirfarinn með það að leiðarljósi að áhorfandinn öðlist skilning á þessu grundvallarplaggi. Myndbandið er hægt að nálgast á þessum hlekk af vefsíðu ASÍ.

Lesa meira »

Viðburðadagatal