Fréttir

21. maí 2015

Vorferðin og myndir

Vorferð Félags leiðsögumanna var farin laugardaginn 16. maí. Í þetta sinnn var farið um Snæfellsnes. Smellið hér til að sjá myndir.
Lagt var af stað frá Mörkinni um kl 9.00 að morgni og þar sem Hvalfjarðargöngin voru lokuð vegna malbikunar var ekin gamla leiðin þ.e. um Hvalfjörðinn sem státaði sínu fegursta. Þaðan var haldið í Borgarnes þar sem við tókum 6 norðlenska leiðsögumenn upp í rútuna og síðan haldið áfram að Vegamótum þar sem við hittum leiðsögumann okkar um Snæfellsnes. Það var var Ragnhildur Sigurðardóttir umhverfisfræðingur og framkvæmdastjóri Svæðisgarðs Snæfellsness sem tók að sér það hlutverk.
Auk Ragnhildar tóku staðarhaldarar á Vegamótum á móti hópnum og buðu uppá kaffi og heimabakaðar kökur og sögðu frá rekstrinum. Þar hefur verið bætt við gistihúsi og þau lögðu áherslu á að opið væri allan ársins hring bæði veitingahús og gisting.
Næst var haldið að Tröðum sem liggja niður við sjó nokkuð vestan við Vegamót. Þar eru bruggaðir drykkir úr íslenskum jurtum og auðvitað fengum við að smakka drykki gerða úr hvannarót, bláberjum og ribsberjum hvern öðrum ljúffengari. Á Tröðum er líka hægt að panta veitingar fyrir hópa sem leið eiga um Snæfellsnesið.
Við ókum svo sem leið lá vestur að Hellnum í hádegismat á hótelinu þar. Á leiðinni sá Ragnhildur til þess að hvergi væri dauð stund og fræddi okkur bæði um staðhætti, bændur og búalið í nútímanum og sögur og sagnir frá liðnum öldum sem skapa andblæ og sérkenni þessa magnaða landshluta.
Þar sem í ár eru liðin hundrað frá frá því íslenskar konur fengu kosningarétt er rétt að minna á þá merku og víðförlu konu Guðríði Þorbjarnardóttur og Ragnhildur sá til þess að halda á lofti sögunni um hana. Hún fór með okkur að minnismerkinu um Guðríði og Snorra son hennar og sagði frá því þegar hún ásamt fleiri íslenskum konum færðu páfanum í Róm styttu af þeim mæðginum. Hún lét þess getið að eftir heimsókn allra þessara glæstu íslensku kvenna í Páfagarð hefði páfinn sagt af sér embætti, líklega vegna þess að hann sá af hverju hann missti með því að halda sig innanum eintóma karla.
Stoppað var við Svalþúfu og sprækir leiðsögumenn gengu fylktu liði með Ragnhildi framhjá Lóndröngum og yfir að Malarrifi þar sem Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður tók á móti hópnum og sagði frá starfsemi innan þjóðgarðsins og því sem er á döfinni svo sem flutningur gestastofu frá Hellnum að Malarrifi.
Áfram var haldið fyrir Jökul og næst komið við í Frystiklefanum á Rifi þar sem Kári Viðarson leikari og framkvæmdamaður tók á móti okkkur. Hann hefur sett upp einleiki í Frystiklefanum og einmitt nýbúinn að fá hana Dorrit forsetafrú í heimsókn þar sem hún færði honum Eyrarrósina fyrr á þessu ári. Hann var samt svo elskulegur að taka á móti okkur hvunndagslegum leiðsögumönnum og sýna okkur aðstöðuna í Frystiklefanum, bjóða okkur uppá kaffi og skemmta okkur með spjalli, gítarspili og söng. Hann er með dagskrá allt sumarið meðal annars verður þar einleikur um áðurnefnda Guðríði.
Frá Rifi var haldið austur með nesinu og síðasti áningarstaður var Bjarnarhöfn þar sem Alda Hlín Karlsdóttir, menningar- og markaðsfulltrúi Grundarfjarðar tók á móti hópnum með samlokum, kaffi og kleinum og svo tók Hildibrandur við og ræddi um hákarlaveiðar og hákarlaverkun og heimsókninni lauk svo í litlu bændakirkjunni norðan við bæinn.
Þetta var góður dagur með frábærum leiðsögumanni og Snæfellingar eru vel settir með svo áhugasaman, skemmtilegan, skýran og öflugan framkvæmdastjóra í Svæðisgarði Snæfellss. Fræðslunefnd þakkar Ragnhildi góðan, skemmtilegan og fræðandi dag.
Hér að framan var aðeins tæpt á fáeinu af því sem fram kom.
Við skildum við Ragnhildi á Vegamótum og í Borgarnesi fóru norðlendingar úr rútunni og við hin héldum í bæinn og vorum komum í Mörkina um 21.30. Það er líka rétt að þakka okkar ágæta bílstjóra Þormari sem með óskýranlegum hætti tókst alltaf að koma okkur á áfangastaði á áætluðum tímum þrátt fyrir ýmiss konar útúrdúra, lengri stopp og mikið spjall á stoppistöðum. Sigrún R Ragnarsdóttir

Lesa meira »
21. maí 2015

Keðja og festing fyrir félagsmerkið ásamt kortahaldara

Til að koma til móts við þá fjölmörgu er síður vilja gata t.d. dýran Goretex fatnað eða annan fatnað með félagsnælunni er nú hægt að fá e.k. men eða festingu fyrir félagsmerkið. Um er að ræða ofna nælon festingu sem ætluð er til að hengja um hálsinn í keðju. Festingunni er lokað yfir lás og pinna nælunnar með riflás og í hann festist einnig kortahaldari t.d. fyrir félasskírteinið eða nafnmerki leiðsögumanns frá ferðaskrifstofu. Hægt er að lengja í kortahaldaranum til að bæta t.d. öðru merki við hálsmerkið eða fjarlægja vilji leiðsögumaður einungis bera félagsmerkið eitt sér.
Hengja má kortahaldarann lóðrétt eða lágrétt neðan í merkið sem er í "standard" kortastærð. Hægt er að nálgast hálsmerkið á skrifstofu félagsins eða í vefversuninni. Kostar hálsmerkið með keðju og kortahaldara kr. 2.000,- Félagsmerkið fylgir ekki og þarf að kaupa sérstaklega vanti það. Fyrir þá er vinna við erfiðustu aðstæðurnar t.d. í hellum eða þar sem leiðsögumaður ber bakpoka eða hætta er á að merkið flækist eða festist í ólum eða öðru þ.h. getur verið gott að líma lás nælunnar t.d. með hitalími úr límbyssu sem víða er til í verkfæra / föndurkistum á heimilum. Þá er auðvelt að halda festingunni hreinni því hún þolir að skolað sé af henni í sápuvatni.

Hálsfesting með tilh. kr. 2.000,-

Lesa meira »
21. maí 2015

Dyrhólaey takmörkun á umferð

Umhverfisstofnun tók þá ákvörðun þann 19. maí 2015 að á tímabilinu 21. maí 2015 til 25. júní 2015 milli kl. 09:00 og 19:00, verður umferð almennings einvörðungu heimil um Lágey og Háey eftir merktum göngustígum og akvegum. Á kvöldin er friðlandið lokað á næturnar frá kl. 9:00 til kl. 09:00.

Frá 25. júní 2015 kl. 09:00 verður friðlandið opið allan sólarhringinn.

Lesa meira »
19. maí 2015

Félag leiðsögumanna slítur kjaraviðræðum

Kjaranefnd Félags leiðsögumanna hefur verið á mörgum og löngum fundum með viðsemjendum á undanförnum vikum en þótt aðeins hafi þokast í samkomulagsátt hefur enginn viðunandi árangur náðst. Því ákvað kjaranefnd að vísa samningaviðræðum til ríkissáttasemjara. Kjaranefnd og félagið hafði lagt mikla vinnu í undirbúning vegna kjaraviðræðnanna en formaður nefndarinnar er Snorri Ingason. Með honum starfa þau Bergur Álfþórsson, Elísabet Brand, Sigríður Guðmundsdóttir og Jens Ruminy, auk þess sem formaður félagsins situr fundi nefndarinnar og stundum fleiri stjórnarmenn. Niðurstaðan varð því sú að þann 18. maí afhenti Vilborg Anna Björnsdóttir, starfandi formaður félagsins, ríkissáttasemjara og SA bréf um að kjaraviðræðum hafi verið slitið. Þess er vænst að innan viku frá afhendingu bréfsins verði kjaranefnd boðuð til fundar hjá ríkissáttasemjara.

Lesa meira »